Yrsa spurði mig um daginn hvað væri það skemmtilegasta sem
ég gerði. Spurningin kom svolítið aftan að mér. Það fyrsta sem mér datt í hug
var nefnilega að fara á æfingu. Ég hefði auðvitað átt að hugsa um eitthvað eins
og til dæmis að vera með börnunum mínum. Er það ekki?
Það sem er samt skemmtilegast í hversdeginum mínum er að
fara á æfingu. Það er ekkert eins og að verða sterkari og betri. Mér líður eins
og ég sé biluð plata að tala um hvað það sé gaman að æfa. En það sem gerðist á
árinu er að langflestar af mínum bestu vinkonum byrjuðu að æfa í Afreki svo ég
slæ tvær flugur í einu höggi. Sinni öllu mínu musteri. Ég fór á 191 æfingu á árinu. Ég ætlaði mér að vera á æfingu akkúrat
núna en var eitthvað lasin í gær og maður þarf líka að sýna sér mildi.
Eitt í þessu. Jóla lite með karamellu og eplum (?) var hrikalega
góður.
Ég hugsaði í sumar hvað ég myndi ekki nenna að það væru jól.
Eðlilega um hásumar, sem varð nú aldrei merkilegt. En nú eru þau hér og þau eru
alltaf svo notaleg og góð. Börnin koma með jólin og það er fátt eins og að
upplifa gleði þeirra með þeim.
2024 var ekki mitt besta ár. Margt einhvernveginn á hvolfi. Undanfarnar
vikur hef ég æ oftar hugsað hvað ég vildi vera öðruvísi en ég er. Kem heim af
mannamótum og hugsa með mér hvers vegna ég þurfi að vera svona. Það er
gríðarlega óþægileg tilfinning og ég veit ekki alveg hvað ég á að gera við
hana. Sennilegast er þetta einn hlekkur í leit að sjálfinu og hvernig maður
eigi að snúa sér í þeirri leit bara.
Á nýju ári langar mig að hafa fínna í kringum mig. Það þýðir
ekkert annað en að taka aðeins meira til. Eins og það sé ekki það sem maður er
alltaf að en guð minn góður hvað það fær á mig að vera í drasli.
Upp úr standa ferðalög og samvera með vinum og fjölskyldu.
Brúðkaup og afmælisveislur.
Janúar. Ég hélt upp á afmælið mitt með litlu partíi í góðra
vina hópi. Þorrablót Víkings með Tinnu og Áslaugu. Fótboltamót í Reykjanesi
morguninn eftir og ég finn fyrir vissum létti að Yrsa ákvað að hætta í fótbolta
en vera frekar í fimleikum og frjálsum…
Febrúar. Afmæli Rakelar, heimboð á Nýlendugötu. Það er fátt
sem jafnast á við það og alltaf svo fínt og vel veitt.
Mars. Árshátíð Afreks. Gæsun Bryndísar frænku. Við Krummi
vorum búin að vera saman í tíu ár og hann varð fertugur. Það er lífsins lukka
að vera samferða en líka ótrúlegt að hugsa um alla hlutina sem maður gerir á
einum áratug. Ferðalög og íbúðir og börn og vinnur. Það eiginlega skelfir mig
að hugsa um næstu tíu ár. Hversu margt gerist.
Apríl. Brúðkaup Guðrúnar og Steinarrs á Siglufirði var algjörlega
stórkostlega skemmtilegt. Við vorum saman í húsi sem var punkturinn yfir i-ið á
þessari miklu skemmtun. Ég dansaði á dansgólfinu og hugsaði með mér að lífið
gerðist ekki mikið betra.
Maí. Undirbúningur fyrir forsetakosningarnar í vinnunni sem
var gaman, þegar maður hugsar um kosningar á hverjum degi er gaman að fá að halda kosningar. Ég tók þátt í innanhúsmóti Afreks sem er bara til gamans gert en er svo gott til þess að reyna sig alveg upp í topp. Bryndís frænka
og Gunnar giftu sig við fallega athöfn og veislu. Það gaf mér tilefni til að
hugsa um góða æsku okkar Bryndísar og setja á blað í ræðu. Alltaf gott að
staldra við og líta til baka líkt og hér 😊
Júní. Brúðkaup Jóa og Valdísar í Hvammsvík. Svo var
eftirminnilegur dagur með góðum vinum í Hjartagarðinum svo gott sem sáluga og svo
íslensku sumarkonu bjórgleðinni í Skipholti. Gott veður, skemmtilegt fólk og
flæði. Það eru ekki alltaf stóru viðburðirnir.
Júlí. Brúðkaupsafmæli Ásdísar og Hallgríms sem þau fögnuðu
með okkur. Gerist ekki betra.
Tvær vikur í Portúgal. Draumi líkast. Spilavinir í villu í viku í Douro dalnum og hanga í Porto. Takk fyrir alla gleðina Stígur, Ásthildur, Anna Hrafnhildur og Orri og Linda, Halldór, Heiða Kristín og Laufey. Ég veit ekkert hvað við eigum að gera næsta sumar en er mjög opin fyrir tillögum.
Ágúst. Árlegt Vínkonugrín og afmæli hjá Óla T. sem mér
fannst ógeeeeðslega gaman í. Yrsa byrjaði í Laugarnesskóla og óx svo sannarlega
og dafnaði. Þar unir hún sér vel og er afskaplega námsfús og glöð. Allt í einu
vildi hún helst fá að labba sem mest ein hingað og þangað, en nýjabrumið fór þó
fljótlega af því.
September. Baldur byrjaði á Laugasól og loksins allir í hverfinu.
Hann er líka sæll og glaður. Svo sniðugur alltaf og skemmtilegur.
Grill kom á Aparóló! Við unnum í íbúakosningunni í Hverfinu mínu og nú standa hér tvö grill á Aparóló sem verða vonandi notuð sem mest um ókomna tíð og ég blés til samkomu til að vígja það og vonandi hvetja sem flest til að nota það.
Október. Bikarleikur Víkings - KA, töpuðum en samt gaman með
mínum bestu grunnskólavinkonum.
Kosningaeftirlit til Bosníu. Landið kom mér svo skemmtilega
á óvart og mig langar aftur þangað. Það var afskaplega gott að sjá nokkra
sólargeisla rétt fyrir myrkrið á Íslandi.
Síðan var blásið til kosninga sem var bara gott og gaman. Hélt ég myndi fá taugaáfall á ákveðnum tímapunktum við undirbúninginn en allt fór svo vel.
Nóvember. Krummi og Jói frumsýndu Kanann, sjónvarpsþáttaröð
á Stöð 2 um bandaríska körftuboltamenn á Íslandi í gegnum tíðina. Ótrúlega
skemmtilegt. Kransagerð og kosningaundirbúningur. Yrsa varð 6 ára.
Á árinu fór ég á þónokkra fundi bókaklúbbsins Bækur sem er alltaf gaman og gáfulegt. Ég las 27 bækur á árinu og held að Little life standi upp úr. En líka Armeló eftir Þórdísi Helgadóttur. Ég hlakka til að lesa aðeins meira á næsta ári.
Gyða Lóa ákváð á haustmánuðum að blása til vinkonusóknar MH vinkvenna þar
sem við hittumst einu sinni í mánuði. Svona er bara það að vera komin á
fertugsaldur og það er gerir svo mikið fyrir mig. Vinátta mín og Birkis Blæs er
mér afar kær.
Við svona upptalningu eru það auðvitað stóru hlutirnir sem maður telur upp, það sem var annað en hversdagurinn en það að hjóla í vinnuna, fara á æfingu, borða kvöldmat með fjölskyldunni og setja í þvottavél er auðvitað bara lífið og það er eins gott að hafa svolítið gaman af því öllu.
Heiðursnefnd eru Sigurbjörg og Agnar nágrannar mínir og vinir og Brynjar vinur minn framkvæmdastjóri Afreks.
Og takk fyrir allt ykkar elsku mamma og pabbi.
Ég lít björtum augum fram á 2025, byrja á því að fara til New York með Krumma og vera þar yfir afmælið mitt. Það gerist ekki mikið betri byrjun?
Takk fyrir 2024. Ég vona að þið skrifið öll fleiri statusa
2025 og segið oftar hvað ykkur finnst.