21.11.17

Það er auðmýkjandi að ferðast ein. Að heyra hugsanirnar alltaf verða háværari eftir því sem hverjum deginum líður, eftir því sem töluðum orðum fækkar, skrefunum fjölgar í mismunandi áttir og oft alls ekki þá sem maður ætlaði sér.

Sofia er umkringd fjöllum, ég sé snjóinn setjast í hlíðarnar en hann nær mér ekki sem er neðar yfir sjávarmáli. Nístandi kuldinn eltir mig þó en ég næ að hlýja mér í óteljandi skóbúðum borgarinnar. Ég velti því fyrir mér hvort borgir þar sem 1,2 milljón manns búa líti jafn tómar út þegar þar eru fáir sem engir ferðamenn. Þótt sjá megi konur með skuplur ná sér í vatn úr heitum almenningsvatnsbrunnum borgarinnar, menn í leðurjökkum sitja á spjalli, verða vitni að hópslagsmálum í hádeginu þá er eitthvað óvanalega lítið af fólki allsstaðar. Ég hefði haldið að stór bjór á veitingastöðum 180 krónur laðaði alltaf að. Kannski ekki í nóvemberlok.

Ég sá fleiri heimilislausa í Stokkhólmi um daginn en hér. Hvað svo sem það þýðir.

Fjarlægðin og glymjandi þankagangurinn í huganum setur allt í samhengi svo auðveldlega. Hvað skiptir máli og hvað ekki. Hversu ofboðslega þreytandi og lýjandi áreitið er til lengdar. Langar að loka samfélagsmiðlum og tölvupósti - en það má víst ekki, gengur ekki upp. Langar að hvílast. Ætlaði að gera það á ferðalagi í fyrra en gerði ekki. Langar að fá það tækifæri aftur.

Hlakka til að verja desembermánuði sem mest á fallega heimilinu mínu, koma öllu á sinn stað og baka sem allra mest. Bjóða í heimsókn og drekka ótæpilegt magn af kaffi. Spila spil og gera allt það sem gleður mig og sem minnst af öllu öðru.