21.7.18

Ég er búin að vera að hugsa mjög mikið um bækur og lestur upp á síðkastið. Mér finnst fátt skemmtilegra en að lesa, en samt geri ég ekki nóg af því og finnst það oft svolítið...erfitt? Það er svo skrýtið þegar maður getur bara hlustað á alla tónlist sem maður vill og horft á nánast allar bíómyndir sem maður vill án þess að gera nokkuð annað en sitja heima hjá sér hvað ég verð stúrin yfir því að geta ekki halað hvaða bók sem er niður. Málið er að ég væri alveg mjög til í að geta bara leigt þær af bókasafni inn á Kindilinn minn, en mig langar ekki að kaupa hverja og eina bók sem ég les. Ekki frekar en mig langar að kaupa hverja og eina bíómynd sem ég horfi á.

Bókasöfn eru ótrúleg og ég ákvað bara að endurnýja skírteinið mitt og ganga inn og fara í einhverja hillu og velja nokkrar bækur og taka með heim. Og gera það að rútínu. Það er nefnilega, að ég held, hæfileiki sem ég hef að geta bara pikkað einhverjar út og lesið og haft (oftast) gaman af.  Þetta kemur úr æskunni er ég viss um. Einhverjar ljúfustu æskuminningarnar eru að fara með pabba á bókasafnið í kjallaranum á Bústaðakirkju þar sem ég valdi mér ca. 5 bækur í hvert sinn. Stóð fyrir framan barnabækurnar og pikkaði út þær sem mér leist vel á. Alveg eins og ég geri núna.

Það hefur vafist fyrir mér að þurfa að vera að lesa of mikið af bókum sem er mælt með, sem gera mig gáfaðri, sem fylla mig innblæstri. Það þarf ekki alltaf að lesa þannig. Það er ógeðslega gaman að lesa bara bækur sem skilja ekkert svo mikið eftir sig, eru ekkert nema afþreying. Ég var t.d. að lesa bók eftir Jónínu Leósdóttur sem heitir Bara ef... og er afskaplega beisikk fjölskyldusaga og mér fannst hún svo skemmtileg að ég spændi mig í gegnum hana, fór á bókasafnið og tók aðra bók eftir Jónínu. Mér fannst sú líka skemmtileg. En ég er ekkert að fara að hugsa um þessar bækur um ókomin ár.

Auðvitað er gaman inn á milli að lesa Halldór Laxness og fyllast svo mikilli andagift yfir Sölku Völku að maður íhugar að nefna dóttur sína eftir þessari mögnuðu sögupersónu sem Halldór skrifaði árið 1946. En það er líka gott að geta bara lesið, lesið hratt, hugsað ekki of mikið.

Ég er búin að hugsa enn meira um þetta undanarið vegna barnsins, stúlkunnar, sem ég ber undir belti. Ef ég les aldrei mun hún heldur ekki gera það. Foreldrar mínir lesa alltaf fyrir svefninn. Alltaf. Kannski bara 3-4 blaðsíður af því eins og við vitum öll svífur höfginn oft hratt á mann þegar maður tekur upp bókina sem getur verið hvimleitt ef mann langar að lesa um miðjan dag. Hvað er betra svefnmeðal?

Ég fletti í gegnum Fréttablaðið áðan og sá að Ronja Ræningjadóttir er á tilboði og fylltist svo mikillar tilhlökkunar að geta fært ævintýraheim bókmennta til einhvers og auðgað orðaforðann og lesskilninginn sem er lykillinn að framtíðinni. Í alvöru. Sjálf hafði ég ekkert sérstaklega gaman af ævintýrum þegar ég var lítil, ég vildi frekar lesa skáldsögur sem gáfu raunsæja mynd af heiminum. Vildi lesa unglingabækur snemma, fullorðinsbækur snemma. Það er kannski ekki svo margt sem ég veit um foreldrahlutverkið eða skil en ég veit að ég ætla að vera lestrarfyrirmynd.