14.4.13

Í dag var eitthvað sem kalla mætti fyrsta almennilega vordaginn. Á íslenskan mælikvarða var þetta hinn besti sumardagur. Það var fremur skýjað framan af, sem var ágætt fyrir þunnildið sem ég var en seinnipartinn kíkti sólin fram úr skýjunum. Ég og Ziva röltum meðfram Aasee eins og hundruðir annarra Münsterbúa í tvo tíma. Það var afskaplega kærkomið að fá smjörþefinn af sumrinu, að geta gengið um á stuttermabolnum í tæpum tuttugu gráðum.

Ég kom heim um sexleytið en hafði ekki alveg tekið út forsmekksskammtinn. Þegar daginn tók að halla og veggurinn minn var rauðgulur af sólargeislum dreif ég mig ein út í smá hjólatúr. Ég ákvað að fara í einhverja nýja átt, kanna eitthvað annað og nýtt en miðbæinn. Ég hjólaði í áttina að einu úthverfi, framhjá húsum með stórum görðum og fólki í göngutúr með hundana sína. Einn urraði meira að segja illilega á mig. Ég fór nánast að bæjarmörkunum, umhverfið líktist allavegna meira og meira sveit og það var góð tilfinning. Betri tilfinning en ég hélt. Íslenska smábæjarhjartað hefur kannski eitthvað með það að gera. Himininn var óendanlega fallegur eins og alltaf hérna, þegar sólin sest sé ég fjöldann allan af gulum, rauðum og bláum tónum skiptast á á himinhvolfinu.
Ég var á peysunni einni saman, það var farið að skyggja og ég tók nokkur af hinum ó svo þakklátu hamingjuandköfum. Andköfin voru þannig fyllt af nokkuð hlýju lofti og útlandalykt. Lykt sem maður finnur afar sjaldan heima á Íslandi, þegar það er búið að vera heitt og loftið er rakt. Í fyrsta sinn hugsaði ég virkilega jákvætt til sumarsins hérna. Ég er búin að vera smá leið yfir því að missa af helsta sumrinu heima, það verður eitthvað skrýtið að hafa ekki langar, bjartar sumarnætur – en það rann einhvernveginn betur upp fyrir mér hvað ég er að fara að fá í staðinn. Ég bý í Evrópu, í hjólastað Þýskalands þar sem allir fara útum allt hjólandi, lögreglan er m.a.s. oft á hjólum, ég er skiptinemi sem þarf að einbeita mér mismikið að náminu þótt það verði ögn skrýtið að vera í prófum í lok júlí og síðast en ekki síst, ef það er eitthvað sem ég hef lært undanfarna mánuði framar öðru þá er það að vera sjálfri mér næg. Sem ég hef náð frábærum tökum á. Svo kemur líka íslenskt sumar eftir þetta sumar.

Einn vinur minn sagði við mig um daginn að ég væri sú eina sem hann þekkti sem bloggaði ennþá. Það er rétt. Ég þekki engan annan sem bloggar eitthvað svona ennþá. Ég held að aðalástæða þess að ég bloggi enn sé að það hefur aldrei verið mér kvöð að gera það og ég geri það ekki fyrir neinn annan en sjálfa mig. Ykkur er hinsvegar velkomið að lesa þessar hugrenningar og tilfinningar. Það gleður mig meira að segja mjög mikið ef einhver hefur gaman af. Það er auðvitað engin ástæða til þess að hætta því sem maður hefur unun af, svo hér er ég komin til að vera.