2.5.13

Þetta færsla mun ekki breyta lífi þínu á nokkurn hátt. Bara svo það sé á hreinu fyrirfam.

Síðustu helgi var ég veik. Mjög veik. Það er alltaf leiðinlegt að vera veikur, en það er sérstaklega erfitt og leiðinlegt í útlöndum. Manni líður einhvernveginn eins og maður sé meira einn í heiminum en ella. Ég talaði við foreldra mína u.þ.b. tvisvar á dag á þremur dögum. Vanalega tala ég við þau svona á tíu daga fresti.
Ég átti þó góða að og Ziva fór út í búð fyrir mig, færði mér lyf og te og var almennt fáránlega góð við mig. Það er mikilvægt að eiga góða vini.
Við ætluðum til Brussel frá mánudegi til miðvikudags, hún fór - ég sat eftir heima að jafna mig eftir veikindin. Það þótti mér ekki gaman.

Eitt skemmtilegt upplifði ég þó úr þessum veikindum. Ég leit lítið út um gluggann, ég lá eiginlega bara bókstaflega í rúminu í einhverja 72 tíma. Þegar heilsan ákvað svo að kíkja aftur í heimsókn á þriðjudaginn og ég hjólaði smá túr þá áttaði ég mig á því að þessa helgi hafði gróður sprungið út og það hafði vorað. Á einhverjum nokkrum sólarhringum var allt orðið grænna, ég sé hvernig trén laufgast með hverjum deginum, grasið verður grænna, fíflar kíkja framundan gangstéttarhellum. Hvað gleður meira en vorið? Og hvernig nær þetta allt að gerast svona skjótt?!

1. maí var í gær. Ég hef á undanförnum dögum hitt fólk sem hefur ekki hugmynd um hvers vegna 1. maí er frídagur. Fólk m.a. frá Þýskalandi. Það þykir mér ótrúlega skrítið. Þetta virðist meira bara vera dagur þar sem maður getur grillað á og drukkið bjór heldur en nokkuð annað. Sem er svosem ekkert skrýtið, ég grillaði og drakk bjór í gær en vanalega er ég mjög upptekin við að læra á þessum degi. Ég hef ekki gengið í kröfugöngu. En ég veit samt hvað er í gangi á þessum degi og af hverju það er frí, það á við um alla frídaga. Mér finnst skrýtið að vita það ekki. Alveg svona fáránlega skrýtið.

Ég fylgdist með kosningum. Ég get ekki sagt að úrslitin hafi glatt mig, en ég átti ekki von á miklu. Ég velti því alltof oft fyrir mér hvort lýðræði sé ofmetið. Ekki það að ég hafi betri hugmynd.
Ég bíð svo bara spennt eftir að Framsóknarflokkurinn geri eitthvað fyrir mig. Ég hlýt að eiga þá kröfu eins og aðrir. Við gætum t.d. samið um að 20% yrði fellt niður af kaupverði fyrstu íbúðarinnar minnar. Ég sætti mig við það.

....

Maímánuður lítur afskaplega vel út. Hraðkúrsar í skólanum ásamt venjulegri tímasókn og eitt próf, ég er að vona að mér muni líða eins og ég hafi mikið að gera. Þá kemur maður svo miklu í verk! Þeim mun meira að gera, þeim mun meira gerir maður. Þeim mun minna að gera, þeim mun minna gerir maður. Münchenarheimsókn yfir langa helgi sem getur ekki klikkað. Foreldrar mínir koma skömmu síðar í heimsókn og við keyrum svo norður til Flensburg og alla leið til Kaupmannahafnar þar sem ég ætla að stoppa og eyða nokkrum dögum með Höllu og Sissó. Ég hlakka mjög til að keyra með foreldrum mínum. Ég hlakka til að sitja í bíl (án gríns - ég sakna þess mun meira en mig hefði órað fyrir að bara sitja í bíl og vera á ferð) og ég hlakka til að vera með mömmu og pabba. Það er bara allt öðruvísi að ferðast með þeim en öðrum. Maður þarf að hugsa svo lítið. Maður bara er.
Fyrir utan slík ferðalög þá ætla ég að nýta hverja einustu sólarglætu til að skottast út í nærliggjandi almenningsgarða og vippa mér úr sem mestum flíkum til að fá einhverja sól á þennan kropp sem og að spila sem mest ultimate frisbee og völ er á.