29.12.18

-->

ÁRAMÓTAANNÁLL GLAMÚRGELLUNNAR 2018!


Áramót eru í uppáhaldi hjá mér. Það er svo gott að fá nýtt upphaf, hafa tilefni til að líta um öxl en ekki síst fram á veginn. Ég elska alla áramótaannála, en það má alls ekki hefja yfirferðina fyrr en eftir annan í jólum.

Árið er auðvitað öðruvísi en öll önnur hafa verið. Ekki það að ekkert ár er eins.

Ég hóf árið með flugmiða til Kenía og Tansaníu í höndunum. Ég fór ekki þangað en kannaði Sri Lanka þeim mun betur. Meira af því síðar.

Vinnan mín hjá Rauða krossinum var afskaplega skemmtileg og gefandi. Ég hef gaman af því sem ég geri, vinn með skemmtilegu fólki og finnst magnað að hugsa til þess hvernig ég einhvernveginn óvart endaði þarna. Það er svona eins og allir svara í einhverjum persónulegum blaðaviðtölum, fólk endar bara einhvernveginn einhversstaðar fyrir einhverja tilviljun. Ætli framtíðarferill minn verði ekki þannig líka. Ég hlakka til að takast á við fleiri krefjandi verkefni í vinnunni þótt það verði reyndar ekki fyrr en seinni part þessa árs.

Ég hef einnig setið í stjórn Félagsstofnunar stúdenta sem er afskaplega áhugavert og skemmtilegt og gaman að vera í tengslum við háskólasamfélagið. Ég ákvað að fara á námskeið í góðum stjórnarháttum á vorönninni til að efla mig í þessu hlutverki og það var mjög fróðlegt og gagnlegt námskeið.

Ég fór í vinnuferð til Helsinki í byrjun mars. Mjög skemmtileg borg sem ég hafði aldrei komið áður til og þarf klárlega að heimsækja aftur að sumarlagi. Þar hitti ég finnska vini mína sem ég kynntist í skiptináminu mínu í Þýskalandi og það var afskaplega skemmtilegt að endurnýja kynnin við þau.



Í mars fórum við Krummi í afmælisferð til Prag. Krummi hafði talað afskaplega mikið um borgina sína vikurnar fyrir afmælið hans svo ég ákvað bara að splæsa í flugmiða fyrir okkur þangað, fékk frí fyrir hann í vinnunni og sagði honum ekki fyrr en kvöldinu áður að við værum á leið til Tékklands. Ég man að eitthvað það síðasta sem ég gerði áður en ég fór út úr húsi var að setja dömubindi í framhólfið á bakpokanum mínum. Ég átti að vera byrjuð á blæðingum en hvað veit maður, einn til tveir dagar til eða frá hafa hingað til ekki þýtt neitt. Í Prag fann ég hvernig brjóstin voru aum. Þessir tveir þættir saman gátu eiginlega bara þýtt eitt. Óléttupróf staðfesti að von var á barni í nóvemberlok. Ég hringdi símtal á heilsugæsluna og spurðist fyrir um bólusetningar og þunganir því ég væri á leið til Afríku. Hjúkrunarfræðingurinn sagði mér að ég væri ekki að fara þangað, auðvitað væri fólk sem búsett væri þar eða þyrfti að fara af einhverjum ástæðum, en það væri samt áhætta t.d. vegna malaríu sem ég ætti ekki að taka. Þetta var frekar mikill skellur svona á sama tíma og ekki var sólarhringur síðan ég fékk staðfest að ég væri ólétt. Við gerðum það besta úr þessari nýju stöðu og ákváðum að fara ti Sri Lanka í þrjár vikur í staðinn – eyjar þar sem hvorki er malaría né zika veira. Paradís fyrir óléttar konur.


Við fórum um allt.
Munurinn á norðrinu, Jaffna, þar sem "enginn fer" og síðan t.d. suðurstrandarinnar er gríðarlega mikill. Það var mjög gaman að sjá bæði og við náðum að fara vel yfir eyjuna. Ég hef aldrei séð jafn mörg tré á ævinni, jafn safaríkt landslag. 

Við vorum auðvitað stödd í annarri heimsálfu en við ætluðum í upphafi árs. Tilkynntum komu erfingjans og fengum ógeðslega mörg lika á Facebook sem síðan EYDDI MYNDBANDINU! Sú ósvífni. Við fengum ekki einu sinni tilkynningu um það. Hef ekki hugmynd um hvers vegna, en ojæja. Lífið er víst meira en like.


Eitthvað það skemmtilegasta sem ég gerði á árinu voru spilastundir með kærum spilavinum okkar Krumma. Mér hefur alltaf þótt gaman að spila og það verður jafnvel bara skemmtilegra og skemmtilegra með aldrinum. Ég gæti spilað endalaust og ekki sakar að gera það með skemmtilegu fólki sem gleymir sér stundum í yfirferð yfir heimsmálin ef langt líður á milli spila.

Sumarið var svo leiðinlegt veðurlega séð og öðruvísi þegar orkan fór mikið til í vöxt barnsins innan í mér. Við brunuðum hringinn til þess að heilsa aðeins upp á sólina sem gaf mér mikið. Við fórum í Elliðaey á Breiðafirði með góðu fólki og það var algjörlega yndislegt. Frábært veður, ein í heiminum með nokkrum kindum og róið út til matar. Ég fæ gleði í hjartað við að hugsa til þessarar frábæru ferðar.


Ég sá Arcade Fire í Laugardalshöll. Frábærir tónleikar. Leið vel, leið eins og ég væri kannski komin aftur í háskólann (sjá aðeins neðar um tilfinningar mínar gagnvart því). Var með Röskvuvinum. Þykir svo vænt um þau og vináttuna. Arcade Fire hafa fylgt mér frá því í byrjun menntaskóla. Ég myndi örugglega enn svara því til að þau væru uppáhaldshljómsveitin mín. Æðislegir tónleikar. Vá.

Haustið var í raun eins – brjálað að gera í vinnunni sem var gaman en líka aðeins orkufrekara en vanalega.

Sú besta
Nóvember kom. Hún kom. Ég tárast þegar ég hugsa um það og hana. Hún liggur hérna í vöggunni við hliðina á mér og sefur. Það væri synd að segja vært, því hún emjar lifandi ósköp upp úr svefni. Stundum kemur stutt harmakvein og móðurhjartað kippist við. Í dag er hún mánaðargömul. Ekki nema einn mánuður síðan hún kom í heiminn sem er samt einhver lengsti tími lífs míns. Ég trúi oft ekki enn að hún sé bara hérna. Komin. Mætt. Fullkomlega ósjálfbjarga. Allir í kringum okkur eru svo yndislegir í kringum komu hennar. Ástin og umhyggjan frá ótrúlegasta fólki. Hún hefur örugglega fengið fleiri gjafir en dagarnir sem hún hefur lifað. Ég hef ekki verið nógu dugleg að þakka öll falleg skilaboð, kveðjur og gjafir. Takk allir. Mér og okkur þykir ótrúlega vænt um alla þessa væntumþykju.

Lestur
Ég ákvað að lesa meira þetta árið. Ég hef örugglega nánast alltaf ákveðið það, af því ég veit að það gefur mér gríðarlega mikið að lesa en ég er alls ekki nógu dugleg að því. Einhverntímann í haust eða ég man ekki hvenær ákvað ég að taka þetta aðeins fastari tökum og það þyrfti ekki að vera annað en að vera með virkt bókasafnskort, vera alltaf með bók í láni og lesa eitthvað á hverju kvöldi eða því sem næst. Bara tvær blaðsíður þess vegna. Þetta tókst og ég hef lesið töluvert fleiri bækur árið 2018 en oft áður. Í nútímanum finnst mér eins og ég eigi að halda betri lista yfir þetta, merkja þetta allt inn í Goodreads eða Excelskjal eða eitthvað. En fyrir hvern? Fyrir mig til að monta mig hér? “Ég las 25 bækur síðustu 4 mánuði”. Nei. Ég hreinlega nenni því ekki. Mér finnst það flækja málin. Ég las örugglega fleiri bækur en meðalmaðurinn, ég og þið getið glaðst yfir því.

Ég gerðist áskrifandi að Leslistanum og ég bara verð að dásama hann enn einu sinni. Ég fagna því svo innilega þegar fólk leggur metnað sinn í eitthvað eins og þetta vikulega fréttabréf um áhugavert lesefni. Mér finnst þetta einnig halda mér svolítið við efnið – jafnvel þótt ég lesi ekki endilega bækurnar sem þeir mæla með.

Eftirminnilegasta bókin sem ég las er eflaust Kalak eftir Kim Leine sem ég las eiginlega óvart. Krummi fékk hana lánaða í vinnunni og ég las hana, en ekki Krummi. Ég heillaðist gjörsamlega af þessari sturluðu Grænlandsfrásögn, þessum erfiða, undarlega manni. Ég las síðan Spámennirnir í Botnleysufirði eftir sama höfund og fannst hún líka alveg mögnuð. Mér leið svolítið eins og þegar ég las Sölku Völku. Ég las hana á fyrstu mánuðum nýs árs í skiptináminu mínu. Ég reyndi að lesa hana eins hægt og ég gat svo ég gæti notið hennar sem lengst. Hugurinn hefur hvarlað frekar mikið til þessara tíma undanfarið. Öll tímabil hafa sinn sjarma. Ég myndi aldrei nenna að endurtaka þetta ár af lífi mínu en ég lærði ó svo margt, minnst í lögfræði, og lét mér leiðast svo mikið sem er svo hollt. Sölku Völku las ég reyndar mestmegnis í Frankfurt sem var mjög gleðilegur tími. Þegar ég var í Þýskalandi varð mantran mín og jafnvel mottó “Hier, jetzt, ist das Leben” og eftir því sem frá líður er ég ánægðari og ánægðari með það. Ég hafði einsett mér að njóta þessa tíma og ég gerði það svo sannarlega þótt eins og ég segi mér hafi dauðleiðst jafnvel megnið af tímanum.

Ég veit ekki af hverju ég er hér farin að tala um ár í lífi mínu sem er löngu liðið hjá. Kannski af því þessi tími er svolítil andstæða þess tíma sem ég lifi núna – og hvorki betri né verri – en þarna sinnti ég sjálfri mér og engu öðru hverja einustu mínútu hvers sólarhrings. Ég hafði nákvæmlega engum skyldum að gegna, ekki einu sinni að hitta vinkonur mínar eða fara í mat til mömmu og pabba sem má tala um sem “skyldu” á mjög lauslegan hátt. Þið vitið hvað ég meina, það er manni mjög gleðileg skylda en slíkt getur líka verið yfirþyrmandi þegar maður þarf að mæta í þetta partí, láta sjá sig þarna og heilsa þessum hér. Í Þýskalandi var ekkert slíkt til staðar. Bara ég og hugsanir mínar. Endalaust kaffi og minnsta herbergi á heimavist sem hugsast getur.


13 vikur - 38 vikur

Framtíðin
Verkefni næstu daga er að velja nafn á stúlkuna og gefa henni brjóst.

Ég hlakka til að hreyfa mig aftur á nýju ári. Finna kraftinn sem felst í því að styrkja sig. Hreyfing skiptir andlega heilsu svo miklu máli, rétt eins og þá líkamlegu.

Það styttist í þrítugsafmælið mitt. Þrjátíu ára! Ég var búin að opna skjal þar sem gestalisti byrjaði að taka á sig mynd yfir þá sem ég vildi bjóða til veislu. Ég var nefnilega í ákveðinni sjálfsskoðun á þessu ári þar sem ég áttaði mig (enn betur) á hversu mikið maður þarf að sinna vináttunni. Þegar ég var í háskólanum hitti ég fjölda fólks á hverjum einasta degi, drakk kaffi með þessum, hádegismat með hinum, sat á lesstofunni með þeim þriðja. Í lífi utan veggja háskólans er það samstarfsfólk og nánir vinir sem maður hittir. Ég hef þannig misst tengsl við mjög marga sem ég vildi að ég ætti í meira sambandi við, fólk sem gaf mér svo mikið og mig langar að endurnýja kynnin við. Það er svolítið flókið. Sendir maður skilaboð og spyr bara hvort viðkomandi vilji drekka með manni kaffi? Jæja. Það gæti hæglega verið smá vandræðalegt. Annað í þessu öllu er að mér finnst mér hafa farið gríðarlega aftur í hversdagslegu spjalli við fólk sem ég hitti á förnum vegi, jájújú hvað segirðu einmitt, alltaf að vinna og svo sá ég þarna á internetinu að þú varst í ferðalagi einmitt aha heyrðu ég þarf að drífa mig.

Jæja. Þessi langloka var semsagt að leiða mig að því að ég vildi hefja fertugsaldurinn þannig að ég byði öllum sem mig langaði að halda í kynni mín við til veislu og hefði það jafnvel sem einhvern upphafspunkt að meiri samskiptum. Sú stutta verður hins vegar rétt að ná 6 vikum og ég mun því fresta fögnuðinum. Kannski til sumarsins – kannski til 31 árs afmælisins. Það kemur í ljós en ég tek fagnandi við símtölum og skilaboðum; ekki bara í tilefni afmælis míns þann 12. janúar nk. heldur ef einhver las þetta og tengdi og vill líka endurnýja kynnin.

Gleðilegt nýtt ár elsku bestu vinir og velunnarar Glamúrgellunar.


Image may contain: Hrafn Jónsson and Brynhildur Bolladóttir, people smiling, people sitting and indoor