31.1.19


Ég er að upplifa algjört mamma í fæðingarorlofi dæmi. Með hárið í hnút, í leggings með annað brjóstið lafandi út...Hún vill ekki alltaf sofa lengur en sirka hálftíma í senn og það er ótrúlegt hversu litlu maður kemur í verk á hálftíma. Það er rétt svo nóg til að fara á klósettið, drekka vatnsglas og hella kaffi í bolla, bursta kannski tennur og ganga frá hálfri uppþvottavél. Eitthvað u.þ.b. svoleiðis. Algjör erkitýpa fæðingarorlofsins.

Mér virðist hún hinsvegar vera að fara í nokkurs konar rútínu, sem gleður mig því þá er aðeins hægt að áætla tíma sinn betur. Og blessað barnið sefur eins og engill á næturna, er hægt að biðja um eitthvað betra?

Það er svo merkilegt að takast á við svona “vinnu” eða “verkefni” ef svo má að orði komast af því það er áskorun – en svo allt öðruvísi en önnur vinna eða verkefni. Fullkomlega ósambærilegt.

Ég finn hvernig tilfinningar mínar vaxa og dafna, ég næ ekki enn utan um það þegar hún brosir og hlær, horfir djúpt í augun á mér og talar við mig á barnamálinu sínu. Það er fullkomlega ólýsanleg tilfinning.

Mér finnst erfitt að vera svona mikið heima, ég finn það. Það er enn erfiðara þegar það er kuldakast eins og verið hefur undanfarið. Þegar maður þarf að meta það á hverjum degi hvort við komumst út í göngutúr. Ég hugsa að ég verði búin að kanna hvern krók og kima af Klambratúni eftir nokkra mánuði. Það gefur hins vegar gríðarlega mikið að sjá sólina hækka á lofti, með hverjum deginum verður bjartara og þannig auðveldara að vera til. Lengri tími til að fara út og fá örlítið d vítamín.

Það sem mér fannst svo allra erfiðast eftir komu hennar í heiminn og mér virðast langflestar konur í kringum mig upplifa það líka er brjóstagjöfin. Langerfiðust. Hún er orðin miklu auðveldari núna, eiginlega bara ekkert mál, nema bara bindingin sem í henni felst. En herregud hvað mér fannst þetta erfitt fyrstu vikurnar. Mér líður eins og það sé heil eilífð síðan, en samt er hún bara 9 vikna í dag. Ég vildi að ég hefði verið einhvernveginn betur undirbúin undir álagið sem gjöfunum fylgdi. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að þótt það sé ekkert þannig að, mjólkin komi, barnið taki brjóstið og þyngist, gubbi ekki óeðlilega mikið, fái ekki í magann – þá er þetta samt gríðarleg áskorun. Samt fór ég á brjóstagjafanámskeið og allt, en þar fannst mér fókusinn aðallega vera á að þetta væri erfitt ef það kæmi eitthvað upp á; ef barnið tæki ekki brjóstið eða mjólkin væri lengi að koma. Jæja, þið sem eruð óléttar getið kannski undirbúið ykkur aðeins betur andlega undir þetta álag. Ekkert lítið álag það að halda lífi í barninu sínu!