Ég veit ekki hvort þetta eru bara tilfinningar og hugleiðingar sem ég ein finn og hugsa,
en það er svona ýmislegt sem ég hef verið að velta fyrir mér varðandi
skiptinám. Undanfarið hef ég fengið nokkur skilaboð frá fólki sem tengir við
það sem ég skrifa (sem mér þykir afskaplega gaman) og það væri forvitnilegt að
vita hvort Erasmus lífið mitt er eitthvað svipað því lífi sem aðrir Erasmus
stúdentar á öðrum stöðum í heiminum upplifa…
Ég þekki mjög fáa en þekki mjög, mjög mörg andlit. Ég man
eiginlega aldrei hvað neinn heitir (þótt ég sé vanalega mjög góð með nöfn) og
enginn virðist þekkja mig; ef ég er með gleraugu og snúð einn daginn en linsur
og slegið hár hinn þá heldur fólk að ég sé önnur manneskja. Einn strákur hélt
því fram við mig í svona korter um daginn að hér væri önnur íslensk stelpa í
laganámi. Ég sagði að það gæti bara ekki staðist, ég væri nokkuð viss um að ég
væri eini Íslendingurinn hérna. Hann spurði mig svo hvort við hefðum nokkuð
hisst áður, sem við höfðum gert og kom í ljós að hann var bara að tala um mig
allan tímann…
Það er mjög fínt allt saman hérna, en ég er ekkert að
sturlast af gleði. Mjög neutral bara. Ég hef ekki djammað frá mér allt vit eins
og sagan segir að Erasmus stúdentar geri alltaf. Raunar hef ég ekki djammað jafn lítið síðan ég man eftir mér. Allir aðrir líta út fyrir að
hafa miklu meira gaman en ég, en samt læðist sú hugsun að mér að við séum öll
eiginlega á nákvæmlega sama stað. Ég vona það allavegna. Allir virðast eiga svo
mikið af vinum og alltaf vera að gera einhverja snilld saman og að það sé alveg
hreint geeeeggjað gaman. Allt sem ég hef gert með Erasmus stúdentunum hefur
bara verið ágætt svona, ágætis leið til að eyða tímanum en aldrei neitt
ofsalega gaman. Og mér finnst eiginlega enginn skemmtilegur, afar fáir
allavegna. (guð ég vona að sem fæstir útlensku vina minna á facebook opni þetta
og smelli í þýðingarforritið!) Það er alveg fullt af fínu fólki, en ég finn
engan samnefnara, ekki félagsskap sem mig virkilega langar að sækja í.
Ég hlakka óstjórnlega til að koma heim í jólaheimsókn og
allir sem ég hef talað við eru líka hálf viðþolslausir. Auðvitað bara af því að
ég veit að ég kem heim eftir þrjár vikur, ef ég væri alls ekkert að fara heim
væri ég lítið að hugsa heim.
Ég hef aldrei á ævinni verið jafn löt. Ég hef aldrei á
ævinni haft jafn lítið að gera. Ég held að þetta haldist jú einmitt í hendur;
þegar maður hefur mikið að gera gerir maður mikið og allskonar auka en þegar
maður hefur lítið að gera gerir maður ekki neitt. Mér líður frekar illa með það
hvað ég geri lítið og hvað ég læri lítið, en kem mér samt aldrei almennilega í
það.
Ég sé smá eftir því að hafa ákveðið að vera í heilt ár
hérna, en vonast til að seinni önnin verði helmingi skemmtilegri en sú fyrri og
ég held að hún sé það í flestum tilvikum. Hins vegar gæti ég alveg komið heim
eftir prófin mín í febrúar og verið bara sátt með mig og mitt skiptinám.
Flestir eru líka bara í eina önn. Tilhugsunin um snemmbúna Evrópuvorið heldur
mjög mikið í mér lífinu. Mig langar hinsvegar ekki að „gefast upp“ og beila. Og
ég er alls ekki vansæl, alls ekki. En lífið er bara svona í mjög hægum gangi
þar sem ég geri fátt og fæ samviskubit yfir því að læra ekki en verð mjög
fljótt einbeitingarlaus þegar ég sest við og reyni að læra.
Mér líður eins og ég sé ekki neitt sérstaklega klár. Ég get
aldrei tjáð mig alveg 100% og sérstaklega ekki um eitthvað sem tengist í
lögfræði. Ég fór í munnlegt próf í dag og leið eins og hálfvita eftir það,
aðallega samt af því að ég hafði ekki lært mikið fyrir prófið en líka af því ég
fann engin orð, ég kom engu útúr mér og þetta var allt í belg og biðu. Samt get
ég átt svo góð og flúent samtöl um allskonar aðra hluti á þýsku.
Hjartað hamast þegar ég þarf að t.d. kynna mig fyrir bekknum
mínum, tilfinning sem ég hef aldrei upplifað áður en skil nú ögn betur hvernig
það er að vera mjög feimin. Ég á erfitt með að segja nafnið mitt og hvað ég er
gömul og undirbý mig í huganum löngu áður en röðin er komin að mér. Hjartað
pumpar svo af öllu afli í tíu mínútur eftir að ég hef sagt þessi örfáu,
einföldu orð.
Einfaldir hlutir verða svo erfiðir. Hvernig ég á að skanna
blöð inn er mesta vesen í heimi og ég veigra mér við að biðja um aðstoð. Öll
svona skipulagsmál sem eru oftast minnsta mál í heimi heima eru mér allt að því
ofviða hérna. Allt vex mér í augum og ég þarf virkilega að koma mér í gang til
að ljúka allskonar verkefnum af.
Að hringja símtal er það erfiðasta sem ég veit og ég hringi
eiginlega aldrei neitt.
Ég mun að öllum líkindum taka mjög lítið úr náminu með mér
heim, en þess meiri vitneskju um sjálfa mig og heiminn. Og ég er
umburðarlyndari gagnvart svo mörgum og fordómaminni. (ekki fordómalaus, það er
enginn held ég) Reyndar mun ég skilja mun meira á vorönninni, koma strax í
fyrirlestra og skilja annað en hér í upphafi. Það verður smá munur þar á.
Þetta er kannski svolítið í neikvæðari kantinum, en ég meina
það í raun ekki þannig. Ég er sæl og sátt megnið af tímanum (sjá hamingjublogg
hér nokkrum bloggum neðar) en auðvitað eru allskonar hlutir sem mættu vera
betri, eins og bara alltaf. Upplifunin er þannig í heildina afar jákvæð og góð
og nærandi og allt það.
|