17.3.13

Evrópska blíðskaparvorið er að láta bíða lengur eftir sér en ég kæri mig um. Það komu nokkrir dagar þegar veðrið var sem verst heima þar sem sólin skein og ég hefði getað stokkið um götur borgarinnar á peysunni einni saman og bara fengið örlítinn hroll. Svo byrjaði að snjóa, og það snjóaði hressilega. Raunar svo hressilega að röskun varð á flugi frá alþjóðaflugvellinum í Frankfurt. Ég var sem betur fer búin að hringja í húsvörðinn og biðja hann um að laga ofninn minn áður en kólnaði svo herbergið mitt var ekki eins og að búa í snjóhúsi. Verra er hinsvegar að ofninn er aftur orðinn bilaður, það gerðist á föstudaginn og þá er enginn möguleiki á að hringja í húsvörðinn svo þessa helgina hefur mér liðið eins og ég búi í frystiklefa. Það er erfitt. Þvílík lífsgæði sem fylgja ofnum, þótt þeir séu ekki nema bara stilltir á einn. Kuldinn smýgur innanundir allt og að leggjast undir sæng dugar skammt. Þá er lítið annað í stöðunni en að stökkva á næsta kaffihús í lopapeysu með vettlinga, finna ilminn af kaffinu sem breytist svo í lyktina af nýbökuðum croissants sem fyllir öll vit. Drekka góða kaffibolla og lesa Sölku Völku. Halldór Laxness er svo ótrúlegur. Þvílík inspírasjón. Ég las Brekkuannál í september og bíð eftir að geta átt stundir með einhverjum þar sem við lesum hana upphátt. Það er svo mikið af lúmsku gríni í henni, hnyttnum texta sem er óborganlegur og ég held að svona helmingurinn af gríninu hafi farið framhjá mér. Ég er að reyna að treina mér Sölku Völku sem lengst, því þegar hún er búin er ekkert eftir á ástkæra ylhýra í fórum mínum.


Reyndar er kannski allt í lagi að það sé ekki of mikið vor í lofti þar sem ég er ekki mikið úti við þessa dagana. Nema stundum á kvöldin eða nóttunni, t.d. þegar fyrirtækið opnar barinn og allir mæta og borða allskonar snittugúmmelaði og drekka bjór og vín í lítravís. Þá getur stundum þurft að drekka nokkrum fleiri kaffibolla daginn eftir en á venjulegum degi og mögulega stelast í ísskápinn sem geymir kassa af kók í gleri.

Helgarnar eru annars afskaplega rólegar og ég hlakka til að mæta í vinnu hvern mánudag.
Þetta er kannski örlítil endurtekning, það er í raun frá fáu að segja öðru en því að ég er kát og glöð með mitt hlutskipti í þessu lífi og nýt hvers dags. Ég skríki í næstum hverju hádegishléi af því mér finnst svo gaman að vera til. Það er ómetanlegt.
Ég stökk í neðanjarðarlestina rétt eftir að ég skrifaði þetta, því við party-praktikantarnir vorum aðeins að fagna St. Patricks Day. Bara smá samt. Og nú birti ég allt heila klabbið.


(í þessari færslu skrifaði ég „stökkva“ þrisvar vísvitandi, því það skrifar Halldór Laxness líka þegar Salka Valka stekkur um bæinn og mér finnst það svo óskaplega skemmtilegt)