Þýskaland er fjölmennasta ríki Evrópu (á eftir Rússlandi)
með 82 milljónir íbúa. Mér finnst það magnað. Ég held að flestir sem ég þekki
viti töluvert meira um löndin í kring og finnist þau meira spennandi en þetta
ótrúlega land. Síðan ég var skiptinemi árið 2006 hef ég oft verið spurð að því
hvar ég var; ég svaraði oftast „í Hessen“ af því ég vissi að enginn myndi vita
hver næsta stóra borg, Kassel, væri. Afar fáir vissu hvað Hessen var, þannig að
ég fór bara að svara „svona tvo og hálfan tíma frá Frankfurt“ sem nægði
flestum. Hessen er einmitt eitt af 16 „Bundeslöndum“ Þýskalands. Bundeslönd
mætti kalla fylki eins og í Bandaríkjunum. Þau ráða sér sjálf í ýmsum málum,
öðrum ekki. Núna bý ég í Nordrhein-Westfalen. Bayern þekkja auðvitað flestir,
en það er sérstakt fyrir margar sakir, með sinn sérstaka kúltúr og Bæverjarnir myndu stundum helst vilja
vera sitt eigið ríki. En samt er það svo þýskt. Berlín er svo aftur eitthvað annað, en samt svo þýsk. Svo er öll restin.
Það eru mjög margir bæir, margar borgir, margir íbúar.
Þýskaland er svo leim á Íslandi, og í fleiri löndum – enginn
þráir þýskan kúltúr nema örfáir furðufuglar eins og ég sjálf. Þjóðverjum hefur
eitthvað mistekist að markaðssetja sjálfa sig og landið. Kannski er það vegna
fjöldans, fjölda ferðamanna, fjölda miðaldra ferðamanna í eins úlpum sem ganga
um Reykjavík á sumrin. Kannski er það af því þeir einfaldlega þurfa ekki að
markaðssetja sig. Kannski af því þeir eru með svo asnalegan hreim þegar þeir
tala ensku.
Nokkrar ástæður af hverju Þýskaland er snilld:
- Allir eru vinalegir, heilsast í lyftum, búðarstarfsmenn bjóða góðan daginn og kveðja mann með ósk um góða helgi, vinir hittast og kyssast á kinn, allir eru kurteisir. Það gefur ótrúlega mikið að segja lítið halló þegar maður mætist í lyftu. Í alvöru.
- Í Þýskalandi (eins og raunar restinni af Evrópu) er vor. Vor sem er eins og íslenskt hásumar. Og á eftir vorinu kemur sumar með sínu grilli, bjór, sólbrúnku, kjólum og stuttbuxum.
- Bjór er viðtekinn í menningu og daglegt líf.
- Þýskir strákar (a.m.k.) eru fjallmyndarlegir. Sætur strákur í Lederhosen – fátt sem jafnast á við það!
- Tungumálið er stórskemmtilegt og heimamenn umburðarlyndir gagnvart fólki sem vill spreyta sig.
- Samgöngukerfi eru góð.
- Matur er ódýr, allavegana miðað við Ísland.
- Kebab
- Afmæli og brúðkaup eru í hávegum höfð, líka brúðkaupsafmæli.
- Það er hægt að kaupa kók og fanta blönduðu saman í flöskum og panta þennan lúxusdrykk á veitingastöðum, svokallað Spezi.
- Það er ekkert asnalegt eða ógeðslegt að snýta sér. Aldrei. Það getur verið afskaplega þægilegt.
Auðvitað geta Þjóðverjar verið neikvæðir, planað allt í þaula
og kveinkað sér óþarflega mikið yfir veðrinu. En stemmingin er samt svo góð og
það er gaman að fylgjast með ákveðnu þjóðarstolti vakna úr dvala – í fyrsta
sinn síðan í seinni heimsstyrjöldinni. Það gerðist eiginlega ekki fyrr en
Þjóðverjar héldu heimsmeistaramótið í knattspyrnu 2006, þá fyrst þorðu þeir að
flagga fánanum sínum (ljóta) og vera stoltir af hverjir þeir voru.
Einhverskonar samhugur kviknaði hjá þjóðinni. Það er öllum hollt að finna
slíkar tilfinningar, innan lítils ramma. Smá gæsahúð við að horfa á Eurovision
og smá how do you like Iceland? fílingur.
Þegar ég var í Frankfurt vorum við „Partypraktikanten“ stödd
á bar síðasta kvöldið okkar. Þetta var frekar subbuleg búlla, aðallega
fastagestir yfir fimmtugu þar inni sem reyktu eins og þeir ættu lífið að leysa.
Við vorum nýbúin að kaupa okkur bjór þegar inn gengu tveir menn og heilsuðu
barþjóninum að nasistasið og hún til baka. Ég sá það ekki en það gerðu vinir
mínir og áttu ekki orð. Við skildum bjórinn eftir og yfirgáfum barinn á núinu með hraði. Mér fannst athyglisvert að sjá svo mikið viðbrögð, en um leið gott. Þetta er og
var ekkert grín, en þau þurfa heldur ekki að skammast sín fyrir neitt. Þau
gerðu ekkert af sér.
Ég veit ekki hvert þetta er að fara. Ég veit að veðrið er
ekki jafn óbrigðult og franska riverían eða spænskar strendur, matarmenningin
samanstendur meira af pylsum en ljúffengum ostum og tapasi. En hér er samt
eitthvað. Hér (í Münster, háskólabænum mínum) eru meira en 500.000 hjól – en
aðeins 270.000 íbúar. Hjólastígar eru útum allt, bílstjórar umburðarlyndir gagnvart hjólreiðafólki enda ekki annað hægt. Sólin skín. Kolagrillin eru
dregin fram við Aasee, ódýr bjór og ljúffengar pylsur renna ljúflega niður.
Stundum rignir, þá fær maður tækifæri til að læra og gróðurinn að verða grænn.
Lokaniðurstaða:
Þýskaland er vanmetið.
|