Ég er skráð í
Facebook hópinn Vinna með litlum fyrirvara og læt mig stundum dreyma um að vera
bara í því að stökkva á allskonar smáverkefni þar, hjálpa til við flutninga
hér, þrífa kannski eins og eina íbúð þar, fara með rusl á haugana fyrir fólk
o.s.frv. Held að ég sjái þetta í töluvert rómantískara ljósi en þð raunverulega
er en þið vitið ...
Ef ég væri að
þessu hefði ég reyndar væntanlega ekki farið í Silfrið í morgun og tjáð mig um
málefni flóttabarna á Íslandi. Það er gott og gefandi. Stundum vakna ég og
hugsa hversu ótrúlega heppin ég sé að fá að vinna fyrir Rauða krossinn, þessa
ótrúlegu mannúðarhreyfingu. Það eru heldur betur forréttindi.
Mér hefur aldrei
liðið jafn mikið eins og ég sé að halda atvinnulífinu á Íslandi gangandi. Ég
geri ekki annað en að strauja kortið. Sæll og blessaður.
Við Krummi
erum enn ástfangin og sátt og engir árekstrar hafa komið upp í þessum framkvæmdum. Ef ég var
einhverntímann óviss þá er þetta fullkomið til að vera viss um að við fúnkerum
vel saman. Við gistum fyrstu nóttina í Blönduhlíð í gær og mér líður alveg eins og heima - nema bara með hálft eldhús, ísskáp inni í stofu og rosa mikið drasl.
Annars talaði ég
á landsfundi VG á föstudaginn, með skilaboð til þeirra frá Rauða krossinum.
Þegar ég gekk inn í salinn fann ég fyrir öfund. Ég vildi að ég samsamaði mig
flokki og tæki virkan þátt í pólitík. Það er ekkert betra en að mæta á svona
fundi og þekkja fullt af fólki og leggja allskonar til málanna, drekka alltof
mikið kaffi, borða kökur, krota rosa mikið á blað og mæta svo í partí. Finna
stemminguna og samstöðuna.
Síðan finnst mér
handtöku-þátturinn í máli Thomasar Möllers Olsen mjög spennandi lögfræðilega,
spennandi alþjóðaréttarlegt mál sem ég fjallaði einmitt um í alþjóðlegu málflutningskeppninni
Jessup. Ég heyrði viðtal við Jón H.B. Snorrason um að ekkert hefði verið
athugavert þarna og að leyfi hefði fengist frá fánaríki. Er það alveg ljóst?!
Svo sagði hann að héraðsdómur hefði svarað þessu. Sem hann gerði ekki og það
hefði verið svo fróðlegt ef hann
hefði tekið á þessu. Jæja. Þetta er a.m.k. u.þ.b. það fyrsta lögfræðilega sem
kveikir í mér í mjög langan tíma. Það er alltaf gaman.
Bless bless í
bili.
|