28.8.17

Ég er búin að vera að hugsa um að setjast niður og skrifa nokkur orð í nokkurn tíma. Má segja nokkur og nokkurn með tveggja orða millibili? Jæja. Ég hef ekki komið mér í þetta. Ég vissi vissi vissi að þetta myndi gerast. Ég er að leyfa því að gerast. En. Ekki í dag. Í dag er ég betri og best.

Hlutirnir sem ég er að hugsa um þessa dagana eru svona sirka sautjáhundruð og ég dýrka það. Sko alveg dýrka það. Ég verð að hafa mikið að gera, þannig tikka ég svo langsamlega best þótt mér finnist líka alltaf gott að slaka bara og njóta. Ég held mér finnist samt að upplagi betra að gera en slaka.

Við erum að flytja af Bergþórugötu þar sem allt hefur verið svo gott og okkur hefur liðið svo vel. Við tekur enn fallegri íbúð, stærri og með eldhúsi sem við erum að gera nákvæmlega eins og við viljum og það er svolítið sem ég er að átta mig betur og betur á hvað er ótrúlegur hlutur. Ég er eiginlega aðallega búin að vera kvíðin fyrir framkvæmdum en nú er að renna upp fyrir mér að allt verður nýtt og fallegt og flott og virkar eins og ég vil að það virki og það er stórkostlegt. Auðvitað er ryk og plast og einn ótrúlegur tengdafaðir og Ari bróðir Krumma sem víla ekki fyrir sér að brjóta niður vegg og fjarlæga nánast hverja vikurörðu svo varla sést að þangað hafi verið stigið inn. Eða svona. Og svo verður rafvirki og pípari og múrari og arkitekt og sérsmíði og ég veit ekki hvað en ég býst ekki við að þetta verði tilbúið fyrr en um jól og þá verður bara allt annað bónus. Á hverju ég ætla að lifa þangað til verður að koma í ljós.

Á morgun ætlum við að klára að flytja dótið okkar. Rúmið. Ég er ekki alveg búin að ná utan um það að í kvöld verði síðasta kvöldið þar sem ég gisti á Bergþórugötu númer níu. En það er líka tilhlökkunarefni - þótt ég geti ekki sagt að plastlagt gólf útatað ryki heilli mig sérstaklega sem heimili mitt á næstunni.

Það er gaman í vinnunni og þá er einhvernveginn allt gaman og auðvelt.

Ég er búin að vera að velta bönkum svo mikið fyrir mér og af hverju maður er í viðskiptum við einhvern banka og af hverju maður skipti ekki og geri og græji. Ég er eitthvað pirruð út í bankann minn. Ég veit ekki alveg af hverju. Það er kannski líka bara mjög eðlilegt, enda er bankanum mínum sama um mig rétt eins og alla aðra meðaljóna. Svo er þetta með tryggingafélögin. Af hverju er ég allt í einu að spá í svona fullorðinshlutum og af hverju finnst mér það lúmskt skemmtilegt?

Hvernig venjulegt fólk getur annars keypt sér fasteign og tekið lán og haldið geðheilsu og fundist það taka réttar ákvarðanir skil ég alveg alls ekki. Ég myndi svona telja mig nokkuð vel gefna, menntaður lögfræðingur og með allskonar menntafólk í viðskiptum í kringum mig en ég rambaði á barmi taugaáfalls í þessu öllu saman.

Ég er allavegna spennt og stressuð og með frunsu og búin að vera lasin. Ég man hvernig það var að flytja úr Bjarmalandi og ég man hvernig var að flytja af Tjarnargötu - blendnar tilfinningar en spenna fyrir komandi tímum. Alveg eins og núna. Og ég veit í hjartanu að þá leit ég ekki einu sinni um öxl.

Verra er að hjartað og hugurinn slá ekki endilega í takt hvað varðar líkamsrækt og fátt skiptir nú meira máli en það. Ef líkaminn er í lagi, er hugurinn í lagi. Svona oftast nær. Þannig hef ég mætt á æfingu svona sirka 3-4 sinnum í viku í Mjölni sl. fjögur ár og verið sæl og sátt með mitt. Núna eru teikn á lofti, akkúrat þegar ég flyt nánast við hliðina á Öskjuhlíðinni og einn daginn þarf að taka ákvörðun því svo mikið er víst að musterið þarf að rækta.

Þið sem eruð að velta fyrir ykkur hvað hafi orðið að peningnum og stuðningnum við Reglubókina - kæru aðdáendur, ég er að vinna í þessu. Þetta hefst allt að lokum.