Það er komið að því sem ég hef beðið eftir - Áramótaannáll Glamúrgellunnar 2017!
Byrjum samt á því að tala aðeins, örlítið, um daginn í dag. Eða reyndar fyrradag. Ég svaf út, fór aðeins út að horfa á generalprufu af dansverki, kom aftur heim. Kveikti á útvarpinu. Lagaði mér kaffi. Vaskaði aðeins upp. Er komin aftur undir sæng, undir súðinni í fallegu, fallegu íbúðinni minni. Alger þögn. (af því ég slökkti á úvarpinu áður en ég lagðist aftur uppí). Bara ég, heima, um miðjan dag að gera ekkert. Mig er búið að dreyma um þetta í langan, langan tíma. Hitti æskuvinkonur í síðdegismat á eftir. Fer á Sigur Rós í kvöld (eða þið vitið - fór. Það var gaman.) Allt rólegt. Nóg að gera, en bara skemmtilegt að gera.
Jæja. Hefjumst þá handa.
Heilt yfir var árið 2017 bara svakalega fínt ár. Allskonar gerðist þótt ég sé enn að reyna að vita hver ég er og hvað ég vilji verða. Ég held ég sé að sætta mig við það að ég muni svosem aldrei finna alveg út úr því og það sé partur af þessu öllu. Og að ég muni alltaf ganga með þann draum í maganum að gerast bara bréfberi en aldrei láta af því verða. Nema ég vinni í Víkingalottó.
Í janúar átti ég, sem fyrr, afmæli. Mér finnst það alltaf gaman og finnst eiginlega ekkert asnalegra en að kvíða aldrinum eða vilja ekki segja hvað maður er gamall eða finnast það eitthvað dónaleg spurning. Tíminn er jú óumflýjanlegur. Ég varð tuttugu og átta og hélt að sjálfsögðu upp á afmælið mitt eins og lög gera ráð fyrir. Ég man reyndar eiginlega ekkert eftir því og virðist ekki hafa tekið neina mynd í afmælinu mínu ...
Mjög stuttu eftir að ég átti afmæli hvarf Birna Brjánsdóttir. Það eru fá mál sem hafa haft jafn mikil áhrif á heilt þjóðfélag eins og það og ég ekki þar undanskilin. Ég þekkti hana ekki neitt, en ég held að við höfum öll getað sett okkur í hennar spor og þetta markaði mig - og alla í kringum mig. Við spegluðum okkur í henni og það var svo sárt að fylgjast með. Ég fór ekki í minningargönguna um hana, en þegar hún var jörðuð gekk ég upp Skólavörðuholtið og stóð álengdar og horfði á þegar hún var borin út úr Hallgrímskrikju. Tárin láku og láku og önnur stúlka sem var þarna, í sömu erindagjörðum, rétti mér pappír. Skildi fullkomlega. Þetta stendur upp úr sem ein af ákvörðunum ársins hjá mér af því ég fékk einhverskonar lokun á þetta mál þarna. Ég sem ekki tengdist því eða henni á nokkurn hátt en segir kannski allt um það hversu mikið þetta markaði þjóðarsálina.
Í byrjun febrúar fór ég í augnaðgerð. Sennilegast besta fjárfesting lífs míns. Engin gleraugu. Engar linsur. Svolítill augnþurrkur sem var hvortsemer til staðar. Ég var svo ánægð með þetta að Krummi gat ekki beðið lengur en ca. þrjár vikur áður en hann fór og Linda vinkona fór líka á þessu ári. Það er reyndar eiginlega alveg ótrúlegt hvað maður gleymir fljótt öllu veseninu sem fylgdi.
Röskva vann sigur í stúdentaráðskosningum sama dag og ég fór í aðgerðina og þótt ég sé útskrifuð og sé bara einhver gömul kempa sem engin veit lengur hver er þá sturlaðist ég gjörsamlega, hljóp út og fagnaði með þeim. Tók vakt á barnum svo þau gætu farið að njóta. Þau upplifðu drauminn sem ég fékk aldrei að upplifa og hafa staðið sig með stakri prýði. Það er svakalegur kraftur í Röskvuliðum og það verður spennandi að sjá framhaldið.
Í febrúar tók ég líka við nýju starfi sem upplýsingafulltrúi Rauða krossins. Það er búið að vera ótrúlega gaman, gefandi og krefjandi. Það er gott að vinna fyrir góða fólkið og með öllu góða fólkinu.
Í lok febrúar kom fallegast dagur ársins þegar allir vöknuðu eins og börn á jólunum, snjór yfir ölluölluöllu og bílar komust ekki neitt og allir buðu hvoru öðru góðan daginn og glöddust og höfðu gaman.
Í mars fórum við spilavinir í sumarbústað, án Krumma reyndar sem var erlendis í öðrum erindagjörðum, og gerðum nákvæmlega ekkert nema spila. Það er svo gaman! Krummi á líka afmæli á mars og hann fékk rosa stórt og fínt grill sem hann grillar núna á og opnar sér alltaf einn bjór með, af því hvað er það að grilla ef maður opnar ekki einn kaldan líka? Í lok mars eigum við svo sambandsafmæli en gerðum ekkert voðalega merkilegt þá, annað en að halda áfram að brosa til hvors annars og elska hvort annað.
Um páskana, í apríl, fórum við líka í sumarbústað með mannfræðiskvíz og co og borðuðum og borðuðum og borðuðum og það var ógeðslega gaman. Alveg svona sjúklega gaman!
Í maí fór ég í vinnuferð til Barcelona sem var góð - sá sólina svolítið en það ótrúlega er að ég komst að því að vinnuferðir eru bara í alvöru vinnuferðir. Inni á hóteli að sjá einhver fundaherbergi. Ég kom svo stuttlega heim áður en ég fór í konuferð til Brussel sem var óóótrúlega skemmtileg. Ekkert er betra og mikilvægara og nettara en góðar og skemmtilegar vinkonur. Sólin skein og við borðuðum góðan mat, drukkum vín og spjölluðum út í hið óendanlega. Höfðum ekki áhyggjur af einhverju ferðamannadóti heldur nutum bara.
Í júní sáum við Krummi svo fallega íbúð til sölu. Við vorum svosem ekkert i miklum hugleiðingum um að selja, okkur leið afskaplega vel á Bergþórugötunni þótt hún væri svona í það minnsta og engin geymsla. En þessi var bara svo falleg þannig að það endaði með því að við keyptum Blönduhlíðina og seldum Bergþórugötuna. http://www.visir.is/g/2017170628803
Í júlí fórum við Krummi í sumarfrí. Fórum í útilegu í Skorradal og flugum til Gdansk í Póllandi. Okkur langaði sárlega að sjá sólina en það fór eitthvað frekar lítið fyrir henni. Pólland var alveg frábært land sem mig langar mikið til að skoða meira. Fallegt, hreint, ódýrt, góður matur, góð stemming.
Í lok júlí var spáð glimrandi veðri á Akureyri svo ég ásamt fríðum hópi fólks brunaði norður eftir vinnu á föstudegi. Ég hef aldrei upplifað annað eins veður á Íslandi. Ótrúlegt. Frábær útilega þótt allir í heiminum hafi drifið sig norður yfir heiðar.
Í lok júlí var líka Vínkonugrín sem er alltaf jafn skemmtilegt. Við Sigga Soffía skipulögðum það í ár með ferð í Viðey, heimsókn í Hallgrímskirkjuturn og pizzuáti í Bjarmalandi þar sem Hildur kom og tók lagið þannig að tár láku.
Í ágúst fórum við í brúðkaup hjá Frank og Heklu sem var svo voða fallegt. Síðan tæmdum við Bergþórugötuna. Mjög ljúfsárt. Kvöddum Gústa. En fengum líka Blönduhlíðina afhenta. Ég bý bara í götum sem byrja á B.
Við fórum líka Fjallabaksleið sem var geggjað. Ég hef aldrei farið í einhverjar fjallaferðir. Fílaði það. Voða gaman að vera á svona jeppa að hossast.
Haustið kom og það fór voðalega mikið í framkvæmdir. Við fluttum inn í Bjarmaland til mömmu og pabba sem mér fannst auðvitað alveg æðislegt og hefði þannig lagað ekki viljað fara...
Ég get ekki talið ferðirnar í Byko og Húsasmiðjuna og Bauhaus og allar þúsundir ákvarðananna sem þurfti að taka. Það þarf að taka ákvörðun um hvert einasta smáatriði. Svona litur eða svona. Svona höldur eða svona. Svona eða hinsegin. Mér finnast framkvæmdir ekkert svo skemmtilegar, en mikið finnst mér eldhúsið mitt fallegt núna og er alsæl með þetta allt saman. Krummi var langbestur í þessu - eða pabbi hans reyndar - en þeir keyrðu þetta absalút 100% áfram og ég stóð álengdar og rétti hamar við og við. Núna lít ég yfir rúmgóðu íbúðina mína og gleðst. Svo mikið pláss, svo fallegt, svo góður andi. Við erum alsæl hérna.
Ég fór í Silfrið til Fanneyjar Birnu að ræða málefni hælisleitenda og það fannst mér mjög gaman og framakonulegt. Það er gott að skora á sig.
Ég fór á sendifulltrúanámskeið í lok október sem var spennandi. Vonandi að ég geti einhvern daginn starfað á vettvangi fyrir Rauða krossinn. Það væri heldur betur gaman. Síðan fórum við í árshátíðarferð til Brighton sem heppnaðist ótrúlega vel, rétt áður en ég hélt svo áfram til Sofiu í Búlgaríu sem var spennandi - en líka vinnuferð - og svo strax til Stokkhólms eftir það. Löng törn en ánægjuleg. Gott að finna andann með kollegum og eflast og bera saman bækur.
Ég er svakalega ánægð með allar byltingar og að vonandi muni allir hugsa um hvernig þeir koma fram við aðra í kjölfarið. Áfram stelpur!
Jólin hafa verið góð. Róleg og góð. Gott að fara í frí, þótt vinnan kalli samt alltaf smá. Krummi gaf mér FERÐ TIL KENÍA OG TANSANÍU í jólagjöf sem er svo óóótrúlega spennandi. Öll dýrin og sólin og fólkið og allt svo spennandi! Get ekki beðið. Vei! Exótískt ferðalag!
Það besta við 2017 var líka bara hversdagurinn. Horfa á sjónvarpið eftir langan vinnudag með Krumma. Fara á æfingu og halda áfram að styrkjast og bæta mig. Hitta vinkonur og spjalla. Excelbrönsar. Drekka vín. Fara í partí - en þau mega vera fleiri á næsta ári! Það er svo mikilvægt að vera glaður og sáttur í hversdeginum.
Ég er alveg viss um að 2018 verði gott. Árin eru alltaf góð. Ég vona að það verði viðburðarríkt og mér verði boðið í rosalega mörg brúðkaup. Held reyndar ekki, en þið vitið - maður má alltaf láta sig dreyma.
Markmið fyrir 2018:
Vera í sjúku formi í AFRÍKU.
Lesa enn meira.
Eignast töff íþróttaföt.
|