4.7.18

Ekki stafur síðan um áramótin.

Ég sakna bloggsins, míns og annarra. Samfélagmiðlar gefa svo stutta og litla innsýn inn í hugarheiminn og sjálf hef ég meira gaman af (vel) ritstýrðum texta en (vel) stílíseruðum myndum.

Árið er sennilegast búið að vera það skrýtnasta, á góðan hátt, frá því ég veit ekki hvenær. Mér finnst ég enn bara nýkomin á vinnumarkaðinn og er það svosem. Nýbyrjuð að skilja hugtök eins og sumarfrí - og fá að njóta þess. Þrjár vikur í Sri Lanka á launum. Þrjár vikur að skoða og sjá og njóta. Ekki í Kenía og Tansaníu eins og allt leit út fyrir að verða myndi um jólin - en á paradísareyjunni í Indlandshafi var gott að vera.  Rigningarsumar. Útilega í sól og miðvikudagur heima að stússast. Ekkert mál. Gott mál. Þegar ég hugsa um það þá er þetta reyndar fyrsta sumarið þar sem ég á heilt sumarfrí inni á sama vinnustað.

Ég bauð Krumma til Prag á afmælinu sínu. Hann var búinn að vera að tala mikið um borgina sína svo ég keypti bara flug og þar vorum við í skííítakulda í lok mars. Það var gaman. Við drukkum mikinn bjór og sáum fallegar byggingar og borðuðum góðan mat. Ég var ekki byrjuð á blæðingum, nokkuð sem ég geri almennt eins og klukka. Svo var mér svolítið illt í brjóstunum og svo byrjaði ég ekki enn. Það var svosem ekki margt sem kom til greina og niðurstaðan úr þungunarprófinu varð ljós eftir ca. 5 sekúndur. Búmm. Algjörlega nýtt sjónarhorn.

Fyrstu hugsanir:Var þessi bjór sem ég drakk á laugardaginn í Prag í alvöru síðasti bjórinn sem ég er að fara að drekka þangað til einhverntímann 2019? Er ég ekki alveg örugglega bara að fara að passa mig í safaríi í Afríku? Hvernig á ég að geta sofið minna en 8 tíma á nóttu?

Þetta var síðasti bjórinn og ég mátti ekki fara til Afríku.

Fyrstu 12 vikurnar eru sennilegast sá tími í lífi mínu sem hefur liðið hvað hægast. Ég hef varla fundið fyrir því að ég sé ólétt, rétt verið smá óglatt en ekkert ælt og verið svolítið þreytt. Mér skilst að það sé ekkert til að tala um. Núna fer þessi bumba stækkandi. Vinkona mín sagði að hún væri svona eins og Baribe-bumba, svona kúla framan á sem maður getur snúið. Ég er enn að hugsa um það. Það er alveg satt.

Annars hugsa ég eiginlega frekar lítið um þetta allt saman. Ég er í bumbuhóp á Faecbook sem gefur ótrúlega innsýn inn í hugarheim verðandi mæðra. Við erum ekki búin að kaupa neitt fyrir þetta barn. Ég finn hvernig ég forherðist á móti öllum kapítalismanum sem umlykur verðandi foreldra. Ég vil helst sleppa því að kaupa allt. Börn hafa komist á legg í árþúsundir án þess að eiga allt milli himins og jarðar. Eða þið vitið. Auðvitað þarf eitthvað. En herregud. Ég velti stöðu ljósmæðra heldur ekkert sérstaklega mikið fyrir mér en vona samt að ég verði ekki send til Akureyrar til að eiga.

Í lok nóvember (eða kannski bara um miðjan desember, hver veit) verðum við foreldrar og það er ótrúleg tilhugsun. Ég hlakka til um leið og ég veit nákvæmlega ekkert hvað bíður mín. Ég vona bara að maður læri það fljótt og vel og svo væri æðislegt ef ég myndi nenna að ganga aðeins meira frá. Er maður ekki alltaf eitthvað að stússast þegar maður er með barn? Sístússandi í kringum þessi börn, gerandi og græjandi? Ég er að treysta á það.

Ferðum í Húsdýra- og fjölskyldugarðinn, á Árbæjarsafn og annað sem gaman gæti verið að gera með börnum á næstu árum hefur einnig verið slegið á frest þangað til þessi eining verður til til að gera það með.

Ég átta mig á því núna, í þessum skrifuðu orðum, að ég er reyndar mjög spennt. Ég er spennt fyrir einhverju nýju í lífið sem mér skilst að gjörbreyti öllu; sýn manns og tilfinningum.

Það eru svo sannarlega spennandi tímar framundan.