13.11.18

Fyrsti í fæðingarorlofi var í gær. Fyrsti dagurinn en samt alltaf næstum sá síðasti af því bráðum kemur barn og allt verður öðruvísi. Ég skil ekki neitt, veit ekki neitt en þannig er það líka. Skil ekki hvernig börn geta orðið til, vaxið, skil ekki hvernig það er lítill líkami inni í mér sem hikstar og sparkar. Skil ekki hvernig hann kemur út, skil ekki hvernig fæðing virkar. Ég skil ekki hvernig einhver passar í svona lítil og krúttleg föt. Ég hlakka til að hitta hana.

Loksins tími til að hugsa bara um þetta og ekkert annað, einbeita mér að öllu sem koma skal. Og þvo þvott. Ég skrifaði niður hvað ég þyrfti að gera í dag og það var eins og ég væri orðin húsmóðir á fimmta áratugnum. Það væri best að þrífa, þvo þvott og jafnvel baka. Ég var að klára að strauja sængurver. Ég hef eiginlega aldrei straujað áður á ævinni - en vá, það var mjög mikill munur! Ég ætla að giska á að ég muni sennilegast ekki gera það aftur fyrr en mögulega við eitthvað gríðarlega hátíðlegt tækifæri.

Ég man varla hvernig lífið var án þess að vera ólétt, án þess að ég hafi hýst litla mannveru. Ég hlakka mikið til þess að fá mér vín. Ég vona að ég njóti þess að vera í orlofi og eiga barn og finna allar tilfinningarnar og drekka kalt kaffi, af því það er það eina sem foreldrar tala um á internetinu - það og hvað börnin þeirra eru erfið. Mig langar að vera jákvæð og hugsa um þetta allt á jákvæðum nótum og muna það alltaf. Jákvæðnin er alltaf besta veganestið, en maður gleymir því svo oft.