4.12.18

Litla er komin í heiminn. Hún er fimm daga í dag, en mér finnst vera töluvert lengra en tæp vika síðan hún kom á svæðið og allt fór að snúast um þessa litlu veru. Kvenlíkaminn er ótrúlegt fyrirbæri sem getur gengið með barn og fætt það. Það er reyndar griðarlega sársaukafullt, en hann getur það. Ég átti erfitt með að hugsa um annað en bara fæðinguna áður en hún kom í heiminn. Einn erfiður hjalli áður en sá næsti tæki við. Allt gekk vel en það er svolítið skrýtið að vera inni á fæðingarstofu í einhverja 12 tíma með kærastanum sínum og ljósmóður sem gera í raun fátt annað en horfa á þig kveljast, horfa á þig finna til og reyna að aðstoða eins og hægt er. Frumkrafturinn sem birtist þegar ég rembdi henni út var eitthvað annað, öskrin komu frá dýpstu hjartarótum eins og villidýr í skógi. Og svo var hún þarna, öskrandi og spriklandi hress með nefið hans pabba síns og fallegu augun sin. Ég sagði við Krumma tveimur dögum áður en hún fæddist og við ræddum hvernig hún myndi líta út að hún yrði með nefið hans.





















Litla - um 10 sekúndna gömul.

Allt sem á eftir kom er eins og einn langur dagur í raun. Við lifum til að uppfylla þarfir hennar og það er ekkert fallegra en að horfa á hana og hlusta á hana hjala. Líkaminn og geðheilsan getur komist af með töluvert minni svefn en nokkur hefði haldið að væri heilbrigt þótt nóttin geti læðst aftan að manni. Allt er erfiðara í nóttinni þegar allir aðrir sofa en litla stúlkan vill stöðugt sjúga brjóst móður sinnar. Allt snýst um að ná lúr hér, örlítilli hvíld þar áður en hitinn frá litla kroppnum streymir til manns. Ég gleymi að borða, sef lítið. Finnst skrýtið að heimurinn haldi áfram, velti fyrir mér hvenær ég verði þátttakandi að nýju og hvernig það verði. En samt er þetta svo fallegt og gott og svo gaman þegar hún opnar augun sín og horfir á mann. Hjartslátturinn rauk upp í óeðlilega mörg slög þegar ég vaknaði upp við grátinn hennar þegar ég reyndi að ná nokkrum mínútum af hvíld. Ég fann hvernig mömmuhjartað sló. Það er einhver alveg ný tilfinning. Frumtilfinning.

Tilfinningarnar til hennar vaxa ekki bara og dafna heldur til elsku besta Krumma sem er ómetanlegur. Það bræðir í mér hjartað að horfa á hann verða að pabba, sinna dóttur okkar eins og hann er fær um, skipta á henni, lofa henni að liggja hjá sér, hlæja að henni prumpa og sinna mér - minna mig á að drekka og borða og hughreysta mig þegar hún hefur drukkið stanslaust í marga klukkutíma og orkan fer þverrandi. Ástin hefur aldrei verið jafn sterk og ástin hefur heldur aldrei verið jafn mikilvæg.

Allar klisjurnar verða að veruleika, allt sem maður hefur heyrt útundan sér gerist. Það fer smá í taugarnar á mér. Allt í einu er ég að borða hratt, missi af því sem er í gangi í þjóðfélaginu, leita bara að barnaspurningum á internetinu, kemst varla í sturtu - sé fyrir mér að kaffið verði alltaf kalt í framtíðinni. Tek af henni myndir. Og ég er svo stolt af henni, ánægð með hana þegar hún er nú þegar komin yfir fæðingarþyngdina sína - bara fimm daga gömul! Hvernig fólk hefur getað eignast börn frá upphafi tíma er mér eiginlega óskiljanlegt. En segir manni kannski mest um þessar litlu verur - þær eru sterkari og öflugri en maður gerir sér grein fyrir.

Þessi stund síðustu tvo tímana eða svo, þegar ég var búin að ná að leggja mig í tvo tíma eftir alveg svefnlausa nótt, gaf henni síðan og hún sofnaði að nýju og hefur sofið vært hér við hliðina á mér eru svo nærandi. Gera allt svo gott. Fylla mig af hundruðum væminna tilfinninga. Ég er mamma. Ég er mamma hennar og verð það alltaf.