Árið 2023.
Árið hófst með nýrri vinnu hjá landskjörstjórn. Mjög gaman
og spennandi að fá að hugsa um kosningar alla daga og reyna að setja upp ferla
og fræðslu og velta fyrir sér hvernig allt getur orðið (enn) betra. Ég finn
hvernig ég er búin að vaxa mjög sem lögfræðingur þarna og það er gaman. Ég bíð
sennilegast spenntust allra eftir nýársávarpi forsetans og hvort hann ætli að fara
aftur fram.
Í janúar fór ég í geggjaða Londonferð með bestu stelpunum og
mönnunum þeirra. Við sáum Eygló á sviði sem var gaman, borðuðum ótrúlega góðan
mat og drukkum vín. Stórkostleg ferð í besta félagsskapnum. Ég fann mér ný
einkunnarorð úti sem ég er, án gríns, að lifa eftir – firm, free and liberal. Ég
er búin að reyna og reyna að rifja upp hvað ég gerði á afmælinu mínu og ég man
það ekki?
Í janúar keyptum við okkur bíl því ég var með svo mikinn samgöngukvíða
eftir að það snjóaði hressilega og ég gat ekki hjólað. Það var algjört maus að
halda á Baldri í strætó til að koma honum á leikskólann svo bíll var það. Allra
best er auðvitað að hjóla.
Í febrúar var lífið afskaplega tíðindalítið.
Í mars fórum við í sumarbústað í fimbulkulda. Það var svo
kalt að við gátum ekki verið úti og potturinn var frosinn. Minnir mig svolítið
á þessi jól, þar sem við erum bara inni að reyna að horfa ekki á sjónvarpið (…
ehh) og síðan fór ég í kosningaeftirlit til Svartfjallalands. Það var mjög
merkileg reynsla, bæði að fá að sjá lítil þorp einhverstaðar uppi í fjöllum og
kosningaframkvæmdina. Ég vona að ég fái tækifæri til að fara í meira
kosningaeftirlit á næstu árum.
Í apríl gæsuðum við Áslaugu. Það var frábær dagur og afskaplega
gaman að hitta okkar besta mann JPZ. Ég myndi segja að þetta ár hafi verið
svolítið ár æskuvinkvenna minna úr Réttó. Við hittumst mun meira en fyrri ár og
það var ótrúlega skemmtilegt og eitthvað sem ég hlakka til að gera enn meira af
á næsta ári. Helstu ástæðurnar fyrir þessum auknu hittingum voru brúðkaup Áslaugar
og Egils í Kaupmannahöfn í júní og svo velgengi Víkings. Það er eitthvað alveg
fallegt við að íþróttafélag æskunnar sé að tengja okkur aftur, bikarleikir
kvenna og karla megin. Áslaug flutti svo heim, við skelltum okkur á kvennakvöld
Víkings og ætla að drekka kampavínið sem ég vann í happdrættinu þar með þeim á
næstu vikum. (gott að skrifa þetta svona opinberlega)
Brúðkaupið var afskaplega fallegt og við Krummi fórum í gott
frí saman yfir helgi. Veðrið var fullkomið og Kaupmannahöfn afskaplega ljúf.
Ég fór á Backstreet Boys í apríl með Rakel og Gissuri. Aaalveg
geggjað. Vá hvað var gaman.
Baldur besti varð tveggja ára 8. maí. Það er svo gaman
hvernig hann er alltaf að koma betur og betur í ljós, stríðinn og ljúfur,
þrjóskur og grínari. Það var erfitt að koma honum í föt og úr fötum, að borða
og gera sirka hvað sem við vildum að hann gerði. En þannig eiga jú líka tveggja
ára börn að vera.
Í júlí héldum við matarboð (les: Krummi eldaði auðvitað allt)
og það langar mig að gera oftar. Ætli ég þurfi ekki að fara að elda meira, fimmtánda
árið í röð eða svo.
Við fórum við til Spánar með tveggja daga fyrirvara. Það var
mjög næs, en ég vil frekar plana næsta sumarfrí með aðeins meiri fyrirara. Sumar
og sól, börn í sundi og sjó og endalaus pizza og naggar.
Um verslunarmannahelgina fórum við í einnar nætur útilegu.
Það rigndi og rigndi og Baldur vildi alls ekki sofa svo við fórum bara heim
aftur snemma morguninn eftir. Ég er með miklar væntingar til þess að með
hækkandi aldri barna verði þetta auðveldara…
Í lok ágúst fórum við Krummi í brúðkaup Nönnu og Owens í Þórsmörk.
Afskaplega ánægjulegt, þrátt fyrir rigningu.
Haustið var algjört haust. Ekkert mjög markvert gerðist
þannig, ég æfði ótrúlega mikið og það var geggjað. Afrek setti mikinn svip á
lífið, ég var mjög dugleg að æfa og sérstaklega með lækkandi sól. Allt árið fór
ég mikið á minn besta stað, Bjarmaland. Mamma mín var heiðruð í tilefni af
ævistarfi hennar sem er enn í fullum gangi.
Þegar átökin brutust út í Palestínu fann ég fyrir hversu vanmáttug
ég er gagnvart þessum átökum öllum. Ég ákvað samt að gera það sem mér finnst ég
örlítið geta gert í mínu lífi hér og skráði mig sem sjálfboðaliða hjá Rauða
krossinum sem Leiðsöguvinur flóttafólks. Þar hef ég kynnst mæðginum sem ég
hlakka til að kynnast betur.
Ég gerðist reyndar óvart hjólaáhrifavaldur þegar ég var
fengin til að vera með innlegg á fundi borgarstjóra í Ráðhúsinu. Ég er bara venjuleg
gella á hjóli og verð það áfram.
Ég fór til Strassborgar í vinnuferð, Yrsa varð fimm ára og
aðventan var ljúf. Yrsa er svo skemmtileg og klár. Vinkonur hennar lituðu svo
sannarlega lífið á þessu ári, ég spjalla örugglega meira við foreldra þeirra en
flesta aðra í lífi mínu og er afskaplega glöð hvað þau eru skemmtileg og við
samhent í að sækja þær og fara með í fimleika eða fótbolta. Það er ómetanlegt
og Laugarneshverfið gefur og gefur. Þannig bara, takk Sigurbjörg og Agnar og
Beta og Helgi.
Svo er alltaf bara æðislegt að liggja á sófanum og hangsa
með Krumma mínum.
Ég setti mér markmið að lesa 40 bækur á árinu. Ég sá þó
fljótt að ég myndi ná því markmiði vel fyrir árslok svo ég bætti í og þær urðu 52.
Bók á viku. Upp úr standa Kjöt eftir Braga Pál, Vanþakkláti flóttamaðurinn eftir Dinu
Nayeri, Ekki gleyma mér eftir Kristínu Jóhannsdóttur og Tól eftir Kristínu
Eiríksdóttur.
Á næsta ári langar mig að hitta vinkonur mínar meira, halda áfram
að æfa, vera þolinmóð við börnin mín og leggja símann frá mér. Mig langar að halda
áfram að lesa, en ég held ég ætli kannski bara að setja mér aftur markmið um 40
bækur og sjá svo hvað gerist. Það má ekki taka ánægjuna út úr lestrinum með því
að vera með of háleit markmið. Markmiðið er bara að lesa. Það er það sem gefur.
Ég lít björtum augum fram á veginn. Verð 35 ára á næsta ári,
Krummi verður fertugur og við búin að vera saman í áratug. Yrsa byrjar í skóla
og Baldur fer vonandi í leikskóla í hverfinu. Lífið er gott.
|