30.12.22

ÁRAMÓTAANNÁLL GLAMÚRGELLUNNAR 2022!

 Árið 2022 var eiginlega alveg stórkostlegt ár um leið og það var krefjandi.

Svona eins og lífið er og á að vera?

Þegar ég hugsa til baka get ég ekki ímyndað mér að við höfum byrjað árið innilokuð í einangrun fjögur saman vegna Covid19. Það eiginlega bara virðist tilheyra einhverri annarri tilveru, annarri vídd. 

Mér fannst alveg ótrúlega erfitt að vera í einangrun þar sem hún lengdist alltaf þegar eitt okkar tók við af öðru og maður hafði kannski í raun ekki svo mikla trú á þessum aðgerðum lengur. Ég varð þó laus fyrir afmælið mitt 12. janúar og ákvað eiginlega í fyrsta sinn að búa mér sjálf til góðan afmælisdag. Einhvernveginn finnst mér ég alltaf hafa beðið eftir öðrum að gera það og þótt ég hafi alltaf haldið partí (nema í ár…og fyrra) þá er afmælisdagurinn oft einhver blanda af gleði og vonbrigðum. Það er ekki gaman að eiga afmæli í svartasta skammdeginu, rétt eftir jól. En í ár var Krummi enn í sóttkví svo ég fór bara í fótsnyrtingu og drakk vín langt fram á nótt með vinkonum dansandi á miðvikudegi og það var æðislegt. Klárlega eitthvað til að taka betur með sér inn í fertugsaldurinn. Maður skapar hamingjuna jú víst sjálfur.

Í janúar keypti ég mér kort í Afrek og það var algjörlega frábært að æfa þar á árinu. Ég fann mojoið mitt aftur, eftir að hafa tapað því í Mjölni á síðustu árum. Allt í einu leið mér eins og ég gæti fundið (smá) tíma til að æfa sem gerir auðvitað líkama og sál að musterinu sem það á að vera.

Í lok febrúar tók ég hálfgerða skyndiákvörðun um að skella mér til Parísar með mannfræðiskvíz og það var æææðislegt. Fullkomnir dagar af wine and dine í fullkomnum félagsskap. Hugsa enn reglulega um kampavínið sem við drukkum á bláa og gyllta staðnum.

Ég byrjaði aftur að vinna eftir fæðingarorlof í mars og í ágúst skipti ég um vinnu eftir góð tæp 6 ár hjá Rauða krossinum. Þakklát fyrir allan lærdóminn þar en líka svo gott að skipta um umhverfi. Síðustu mánuði hef ég verið hjá Reykjavíkurborg, þar sem mér líður smá eins og ég sé komin „aftur heim“ en síðan taka ótrúlega spennandi verkefni við hjá landskjörstjórn á nýju ári. Ég er mjög spennt að takast á við krefjandi, nýja hluti. Mér líður smá eins og alheimurinn hafi sent mér þetta allt saman. Ég held að lærdómurinn sem ég tek frá þessum vistaskiptum mínum sé absalút að maður eigi að stökkva þegar maður getur. Bara segja einn, tveir og nú á meðan maður ruggar sé fram og aftur og þá nær maður á næsta húsaþak.

Baldur byrjaði hjá bestu Möggu og Sússí á vormánuðum, fagnaði eins árs afmælinu sínu í maíbyrjun og byrjaði svo og á ungbarnaleikskólanum í Bríetartúni í desember.  Hann er svo glaður og kúrsamur og duglegur og mikill kóngur. 

Um páskana fórum við Yrsa til Berlínar að heimsækja mömmu og pabba sem dvöldu þar á vormisseri og ég fór í vinnuferð til Kaupmannahafnar.

Eftir að hafa tapað, eða við skulum kannski frekar orða það þannig að eftir að hafa ekki unnið, í Betri Reykjavík að fá útigrill á Aparóló þá tókum við Krummi málin í okkar eigin hendur og stóðum fyrir tveimur grillum og einni aðventugleði á þessum besta leikvelli í bakgarðinum okkar. Ætli flest samtöl mín á árinu hafi ekki snúist um hvað það er gott að búa í Laugarnesinu og að Rauðalækur sé besta gatan. Ég vissi alls ekki áður hvað hverfi geta skipt mann miklu máli og verið hluti af manni og sjálfsmynd manns. Eins og ég hafi aldrei hitt Vesturbæing áður?? Sumt þarf maður bara að finna á eigin skinni!

Í vor kynntist Yrsa tveimur mjög svo góðum vinkonum sínum, þeim Móu og Áslaugu Mörtu enn betur og varð allt í einu svo stór - í heimsókn hjá þeim eftir leikskóla, boðin í leikskólaafmæli og allskonar. Með því fylgir auðvitað samgangur við foreldra stelpnanna sem eru alveg hreint frábær og ómetanlegt að eiga t.d. hauk í horni þegar mamma og pabbi eru sein að sækja eða vantar allt í einu …Það hefur verið mikill auður fyrir okkur öll að kynnast þessum stelpum og fjölskyldum þeirra.

Nokkrir stærri viðburðir voru á árinu, Auður frænka mín og Villi giftu sig í fallegu brúðkaupi í júní. Vínkonugrín var á sínum stað og Röskvuvinir mínir efndu til minningarathafnar í hlutverkaleik í einhverskonar spunapartí. Gríðarlegur undirbúningur margra sem liggur þar að baki og alltaf algjörlega ruglað dæmi. 

Í júlí fórum við til Ítalíu og Frakklands. Fjölskylduferð með mömmu og pabba fyrst, síðan bræðrum mínum og fjölskyldum og svo með Spilavinum í villu rétt fyrir utan Nice. Allt algjörlega yndislegt en líka krefjandi með tvo litla gríslinga. Ég held (og vona) að ferðalög og sumarfrí framtíðarinnar verði aðeins afslappaðri. Sólin og vínið og sundlaugarnar léku samt við okkur og samvera með okkar besta fólki skilar auðvitað alltaf miklu í hjartað.

Ég gekk upp að eldgosinu - eins og öll hafa gert en nú fékk ég tækifæri eftir barnsburð! Magnað dæmi náttúran. Smá geggjað að hafa gengið að þessu og svo niður aftur í svarta myrkri og miklum vindi. 

Í ár líkt og fyrri ár hef ég lagt áherslu á að lesa. Það er svo gaman. Ég las 37 bækur í ár. Markmiðið voru 35 og nokkrar voru reyndar mjög stuttar, en það var bara tilviljun og það virðast frekar margar bækur sem eru gefnar út vera stuttar? 

Upp úr standa Meydómur eftir Hlín Agnarsdóttur og Sextíu kíló af kjaftshöggum eftir Hallgrím Helgason og kannski Just Kids eftir Patti Smith fyrir að vera ógeðslega leiðinleg. Einhverra hluta vegna las ég mjög margar endurminningar eða ævisögur og m.a.s um fólk sem ég veit ekki hver eru og ég mæli alls ekki með því haha. 

Ef það er eitthvað sem ég myndi mæla með að fólk gerði á nýju ári þá er það að lesa. Fara hálftíma fyrr upp í rúm og lesa. Eða bara lesa fimm blaðsíður á kvöldi. Það gefur og gefur og gefur. Bókaklúbburinn Bækur hélt mér líka vel við efnið, en við eigum reglulega skemmtilega fundi á barnum á Brút.

Ég gaf Krumma Tern hjól í jólagjöf í fyrra og hann mér Cube Ella rafhjól í afmælisgjöf um þremur vikum síðar og við urðum hjólafjölskylda. Í febrúar endurheimtum við reyndar líka stolna hjólið okkar frá ágúst árinu áður sem var nokkuð magnað. Í maí seldum við bílinn okkar og höfum verið bíllaus síðan. Það hefur verið afskaplega lítið mál nánast alltaf. Kuldinn og færðin sl. daga hafa verið mest krefjandi en frá apríl og fram í lok nóvember var það nákvæmlega ekkert mál. Við sjáum til hvað nýtt ár ber í skauti sér, kannski fáum við okkur bíl þannig að við getum stækkað radíusinn okkar stundum en mér finnst þetta bara nokkuð ljúft. 

Haustið hefur í raun verið tíðindalítið, ég hef hitt marga skemmtilega vini og drukkið fullt af víni. Verið sæl og glöð. Farið í geggjuð matarboð. Við öll verið veik til skiptis. Almennt tíðindalítið en indælt.

Klettarnir í lífi mínu og okkar eru mamma og pabbi sem eru alltaf til staðar, boðin og búin að passa og ná í okkur og börnin og redda öllu og engu og líka bara vera. Þakklátust í heiminum fyrir þau.


Er ekki annars hversdagurinn samt alltaf bara í raun það markverðasta? Við höfum reynt að ná í börnin saman og leika úti beint eftir leikskóla áður en við förum inn sem er svo gott og gefandi. Á næsta ári væri ég til í að reyna að hafa örlítið minna drasl heima hjá mér og kannski elda stundum svo Krummi þurfi ekki alltaf að gera það og borða hollara. Ég er alveg búin að vera svolítið buguð móðir þetta árið, en það er líka krefjandi að eiga 3 ára og 1 árs börn. Allar klisjurnar vilja renna hér fram, hvað þetta er það besta en erfiðasta, mest krefjandi. Hvað börnin séu yndisleg. Klisjur eru til af ástæðu.

Glamúrgella.blogspot.com varð 20 ára í desember. Það er sturluð staðreynd, þótt það sé auðvitað nokkuð lítið að frétta hér allajafna. Mér finnst samt mikilvægt að eiga þennan stað og halda þessu svo og svo við. Stundum langar mig að skrifa langt, og mér finnst mikilvægt að eiga það allt einhversstaðar - jafnvel þótt ég skammist mín ofan í tær fyrir 98% af því sem ég hef skrifað.


Ykkar einlæg, spennt og þakklát.


Yrsa tók mynd af okkur Krumma.

Fallegu börnin mín í flaueli.
Spider-Yrsa.

Fjölskylda í Toskana.

Lýsandi fyrir lífið.


Ég var algjör gella á Ítalíu!