Ég er svo meyr. Það eru þessi jól. Það er að vera heima, á Íslandinu besta, með öllu fólkinu sem manni þykir svo vænt um. Það er að rata útum allt, vita hvar allt er, hvað allt er fáránlega auðvelt, hvað rúmið mitt er gott. Hvað dælubjór í bjórglasi er góður. Hvað það er klikkað að finna fimmþúsundkall á Kaffibarnum á miðvikudagskvöldi. Hvað síminn hringir oft. Hvað það er auðvelt að benda stráknum sem er að reyna að borga í stöðumæli á að það sé sunnudagur. Að eyða Þorláksmessu með sama fólki og í fyrra, sem maður þekkir misvel en hlær svo dátt með. Að sitja á efri hæðinni á KB og spjalla við allskonar fólk, sérstaklega samt Magga Lú. Að á hverjum degi segi mér einhver að hann lesi bloggið mitt og tengi og finnist gaman að lesa. Að djamma eins og djammið á að vera, engir klúbbar bara millivegurinn. Að tala við nýja vini um hjartað og lífið. Að skreyta jólatréð sem pabbi vill að sé eins stórt og stofan leyfir á hverju ári af því það sé „eini munaðurinn sem hann leyfi sér.“ Að hitta endlaust af fólki sem maður þekkir og brosa og segja hæ og hætta að segja ekki hæ af því þá er eins og maður sé hrokafullur. Að ýfa upp gömul hjartasár, það er svo gottvont. Að fara í Friðargöngu og finna hamingjuhjartað slá og MH hjartað slá og vinahjartað slá og samhug með þeim sem eru í stríði og þeir sem eru leiðir. Að skilja allt, fullkomlega og nota flókin orð. Að skoða í bókaskápinn sinn og mömmu og pabba og finna allskonar gullmola eins og Die Eingeschlossenen eftir Sartre sem ætti að vera á frönsku en er á þýsku og það er eins gott af því annars gæti ég ekki lesið hana. Að ná í BA skírteinið á Háskólatorg og hitta óvart vini þar sem segja „auðvitað, auðvitað - hvar annars staðar ætti maður að hitta þig en á HT. Hvað er eðlilegra en það?“ Og að fara á Háskólatorg.
Að taka plastið utan af ljóðabók Davíðs Stefánssonar og ætla að gera hamingjuhjartanu og meyru Brynhildi enn meyrari og væmnari og þakklátari og glaðari. Verst hvað tíminn líður afskaplega hratt.
Og aðfangadagur er ekki fyrr en á morgun. Eða tæknilega séð í dag. Þetta er nú meiri blússandi snilldin, þessi eyja úti í hafi.
Gleðileg jól elsku vinir.
Að taka plastið utan af ljóðabók Davíðs Stefánssonar og ætla að gera hamingjuhjartanu og meyru Brynhildi enn meyrari og væmnari og þakklátari og glaðari. Verst hvað tíminn líður afskaplega hratt.
Og aðfangadagur er ekki fyrr en á morgun. Eða tæknilega séð í dag. Þetta er nú meiri blússandi snilldin, þessi eyja úti í hafi.
Gleðileg jól elsku vinir.
|