28.12.12

Rétt eins og allir helstu fjölmiðlar heims kemur smá ársuppgjör hjá Glamúrgellunni, ríkulega myndskreytt af nánast engu nema sjálfri mér. Mikið er gott að eiga svona griðarstað sem snýst ekki um neitt nema mann sjálfan vúhúhú!

Það er svo hollt að líta yfir farinn veg, hvað var vel gert, hvað var ekki svo vel gert, hvað var gaman, hvernig hægt er að bæta sig sem manneskju o.s.frv.

Árið 2012 var skemmtilegasta ár sem ég hef lifað hingað til. Þetta líf verður bara betra og betra með árunum.

Ársuppgjör Glamúrgellunnar 2012

Janúar snerist, eins og svo oft áður, aðallega um kosningabaráttu. Kosningabaráttur eru svo fáránlega skemmtilegar, en um leið svo afskaplega erfiðar. Og það er svo leiðinlegt að tapa, en það er svo gaman í Stúdentaráði og það er svo gaman að kynnast öllum þessum gullum svo náið á svo skömmum tíma og eignast vini fyrir lífstíð. Vesturgata 10 var okkar annað heimili. Svitaballssnilld, listaferð á Snæfellsnes þar sem Anna Rut og Þórhallur hræddu úr mér líftóruna, stolinn fáni, fólk sem fann kraftinn, langar nætur í snjóbyl, kaffi, allar hliðar á málefnum og réttindum stúdenta...

Röskvuliðar kátir síðasta kvöld fyrir kosningar. Þið eruð snillingar!

Fimmtudagseftirpartíið eftir Sykurs tónleikana, þar sem Gusgus og Helgi Bjöss mættu er samt einhverskonar toppur á baráttunni sem erfitt verður að ná. Ég reifst við President Bongo um það hvort ég myndi verða í dragt eftir 10 ár...án gríns.


Í janúar á ég líka afmæli og ég hélt upp á það með vinum í Bjarmalandi. Það var rosalega gaman, ég skemmti mér alveg konunglega og gestir almennt líka. Ég er spennt að henda í nýja veislu!

Ásdís og Þórey héldu eitthvað trylltasta 90´s partí sem sögur fara af daginn eftir kosningaúrslit. Allir tóku þátt, útkoman var stórkostleg. Ég sendi skemmtileg sms, sem og svo oft áður. Og síðar.

Mjög töff vinir

Ég byrjaði í Crossfit í febrúar og stundaði það fram á vor sem mér fannst alveg ótrúlega gaman. Ég vildi að það væri hægt að stunda slíkt af kappi í Münster, en Þýskaland er ekki mjög framarlega í þeirri íþrótt. Ég lofa þó sjálfri mér líkamsræktarbetrun á nýju ári, aðallega af því það fyllir mig svo mikilli gleði að hreyfa mig.

Árshátíð Orators 16. febrúar var alveg hreint ótrúlega skemmtileg og vel heppnuð.
Koníaksklúbburinn Dafs lét sig ekki vanta.

Á vorönn gerðist ekkert stórkostlega merkilegt. Ég brenndi mig smá á mönnum. Það fer í reynslubankann. Ég elskaði að vera á Háskólatorgi, kom mér seint í gang að læra sem skilaði sér þó í því að mér gekk vel í prófunum í vor, ég hafði loksins einhvern áhuga á lögfræði í fögunum á þriðja ári og ég skrifaði ritgerðina mína í sumar og ég lauk BA gráðunni minni í október. Það er heldur betur áfangi.
BA ritgerð  - BA gráða - sennilegast stærsti áfangi ársins.


Í prófum blandaði ég kokkteila, fór á FM Belfast, átti súrealískan sumardaginn fyrsta með Rakel Sif í MH ... og lærði kannski smá.
Allt mjög eðlilegt.

Nýtt og mjög skemmtilegt Stúdentaráð tók við og ég sat í stjórn Stúdentaráðs fram á sumar sem ég held að megi kalla eina snilla stjórn sem starfað hefur, aðallega af því við vorum svo góðir vinir. Fundur í einn tíma, trúnó í tvo og samt þekktumst við alls ekki svo mikið. Ég hefði viljað stjórnarfundi einu sinni í viku. Guffi, Reynir Hans, Sara, María Rut, Árni Grétar og Jón Atli - þið eruð snillar!

Ég lék mikið við Lindu í vor og var afskaplega glöð þegar ég hitti hana núna um jólin eftir 8 mánaða fjarveru. Sleiksystur sameinaðar á ný getur ekki klikkað og alltaf tekst henni að halda mér heilli.


Sumarið 2012 var stórkostlegt sumar. Ég vann á Póstinum sem er auðvitað það allra besta í heimi, það var svo frábært veður í næstum allt sumar svo ég skartaði stuttbuxum og stuttermabol alla daga á meðan ég skottaðist um Skeifuna glöð í bragði. Ég fæ smá kvíðkast við þá tilhugsun að einn daginn verður þetta ekki sumarvinnan mín, heldur einhver skrifstofuvinna þar sem ég horfi bara á sólina út um gluggann.

Þarna flokka ég póst á hverjum degi, og hef gaman af!

Ég fór í útskriftarveislu hjá Dóru í byrjun júní sem var alveg hreint ótrúlega skemmtileg og þar kynntist ég mjög góðu fólki sem litaði það sem eftir var sumars með öllum sínum litum.


Gyða Lóa og Dóra við útskrift Dóru - þessar snúllur!

Ég fór í skyndi til Húsavíkur 15. júní að hitta Dóru sem var að sinna listinni og þar voru fleiri snillingar að gera allskonar list. Íslenska sumarnóttin var björt og falleg á trúnói í heitum potti. Ég eyddi drjúgum hluta þessa árs í félagsskap Dóru og undan því er sko ekki hægt að kvarta.
Ég fékk ekkert heitt súkkulaði að morgni 17. júní á Kaffi París, en í staðinn fór ég í gömlum bíl yfir holt og hæðir sem gafst svo upp rétt fyrir utan Borgarnes. Það var fórnarkostnaður sem ég var til í.

Listamenn að störfum og blessaður bíllinn búinn að gefast upp.

Mjög margir sem ég þekki útskrifuðust í lok júní og það var heldur betur tilefni fyrir mörg góð partí.
Margrét kláraði meistarapróf í lífefnafræði, Bryndís BS í verkfræði, Áslaug BS í hagfræði, Halla BS í hjúkrunarfræði, Tobbi BA í kennaranum, Fannar og Siggi Kári meistaraprófið í lögfræði og flestir á mínu ári í lögfræðinni kláruðu BA o.s.frv. o.s.frv. Vá hvað það voru mörg góð partí þennan dag!
Laganemarnir héldu tryllta veislu á La Primavera, Röskvuliðarnir tryllt partí á Faktorý, heimapartí, freyðivín, snittur, gjafir, gleði...

Æskuvinkonur fagna útskrift Áslaugar úr hagfræði.

Sunnudagsfundir á Laundromat urðu að venju með Dóru og Árna Má. Mikið var það gaman.

Vínkonugrín 2012 var haldið með pompi og prakt á kjördag 30. júní. Veðrið var í einu orði sagt stórkostlegt og þessar góðu konur sem ég kynntist í Menntaskólanum við Hamrahlíð gerðu daginn ógleymanlegan með ljúffengum mat, siglingu, herramönnum, ljóðlínum og heimsókn Erps, skvísumálningu og landsmóti hestamanna. Svo ekki sé minnst á góða félagsskapinn.



Ég tvíelfdist í bloggi fyrir mitt ár og hef verið dugleg síðan, enda gott að færa lesendum á Fróni fregnir frá Evrópu á svo einfaldan máta. Ég hef óskaplega gaman af þessu!

Foreldrar mínir héldu for-útskriftarveislu fyrir mig. Eina ástæðan fyrir því að það skipti mig einhverju máli að útskrifast á réttum tíma var að geta haldið sumarveislu, því ég útskrifaðist um jól úr menntaskóla og þráði sumarpartí. Það hófst ekki en þar sem ég var búsett erlendis þegar ég gat náð í skírteinið mitt og öllum prófum var hvortsemer náð, ritgerð allt að því tilbúin þá var hent í eina heldur betur góða veislu þar sem mjög mikið af freyðivíni var drukkið, mjög mikið af góðum mat var borðað og mikið grínað.
Útskriftardama að grína í tréhúsi.

Ég fór til Spánar í eitt týpískt en gott sólarsumarfrí með hele familien og það var virkilega ljúft.
Fjölskyldan mín fína á Spáni að djamma og djúsa

31. júlí flutti ég til Þýskalands.
Ég átti von á því að það yrði erfitt, en það var það ekki. Ég átti von á því að fella tár við brottför, en það gerði ég ekki. Ég átti von á því að sakna og finnast erfitt að missa af, það hefur mér oftast ekki þótt erfitt né saknað neins neitt sérstaklega. Helst hversdagsleikans á Háskólatorgi, eins sorglega og það hljómar. Eða eins vel og það hljómar, einfaldleikinn í allri sinni dýrð, litlu hlutirnir í lífinu.

Ég átti tvo stórkostlega mánuði í München með Goethe Institut, þýsku, bjór, frábærum vinum, dýragarði, U-Bahn, Superrave, sól, heimsókn foreldra minna og síðast en svo alls ekki síst Októberfest.

Schweinbraten hjá Stefan fyrir fyrsta dag á Wiesn með besta fólkinu og Bomban svo mætt í Dirndinu góða.





Síðan flutti ég til Münster og þar varð lífið aðeins öðruvísi, en gott engu að síður. Lítið fyrir stafni þannig lagað, lítið herbergi, lítill bær. En alltaf brosi ég og gleðst yfir því að vera til.

Ég fór í smá ferðalag til Berlínar, London í brúðkaup hjá Eygló, einni af mínu bestu vinkonum um langan tíma þar sem ég hitti aðrar góðar vinkonur og góða vini og Cannes í nóvember og átti frábæran tíma með vinum sem ég kynntist í Röskvu
Þessar ótrúlegu konur!

Ég hef verið nokkuð öflug í fréttaflutningi frá Germaníunni svo ég læt þetta duga.

Jólafríið hefur verið afarafar gott. Þvílíkur lúxus að vera heima á Íslandinu góða. Ég hef reyndar þjáðst af krónískum svima síðustu sólarhringa sem hefur verið alveg hreint út sagt ömurlegt en ég rís úr rekkju í dag, tilbúin í síðustu helgi ársins.

Framundan eru allskonar ævintýr, fyrstu alvöru þýsku prófin, starfsnám í Frankfurt, ný önn, evrópskt vor, að heiman á bjartasta tíma ársins en í svo bjartri annarri veröld. Einhverntímann um mitt sumar flyt ég heim og hef það sem ætti að vera lokaár mitt við lagadeild HÍ, en við sjáum til hvernig það fer...
Ég hef þannig ekki miklar væntingar til nýs árs, bara að það verði gott og hamingjuríkt. Betra en síðasta ár er alltaf gott markmið, þótt 2012 hafi verið mér afar gott. Ég er alltaf að komast á beinni braut, þótt ekki hafi hún verið neitt sérstaklega hlykkjótt.
Árið var auðvitað nokkuð tvískipt, heima og að heiman. Bæði var frábært. Lífið var og er frábært. Ég er algjör hamingjuköttur, sátt við menn og dýr. Og alltaf slær hjartað nokkur auka slög.


Gleðilegt nýtt ár kæru lesendur nær og fjær!
Takk fyrir það sem var að líða, og fyrir síðustu 10 árin.
Hafið það sem allra best um áramótin og á nýja árinu. Ef það er eitthvað sem mig myndi langa að segja sem flestum sem einhverskonar hollráð eða veganesti inn í nýtt ár þá er það þetta:
Verið einlæg, verið góð og segið það sem ykkur finnst. Ef maður spyr ekki, þá veit maður aldrei hvað hefði getað orðið. Ef maður spyr ekki, þá fær maður ekki nei - en þá fær maður heldur ekki já.


Þetta er ég kl. 01:30 að morgni 1. janúar 2013  - það er í raun óþarft að segja það en áramótin eru frekar stór dagur í lífi Glamúrgellunnar.