Þegar ég fletti í gegnum nýjasta Beneventum á rafrænu formi
í gær (það er skólablað MH, fyrir þá sem ekki vita) fékk ég gríðarlega
fortíðarþrá. Gríðarlega. Ég hef aldrei fengið jafn sterka tilfinningu hvað ég
þráði að vera aftur í menntaskóla. Mér hefur þótt töluvert skemmtilegra í
háskóla en menntaskóla en allur tími á sinn sjarma, sína hápunkta. Ég væri
alveg til í að vera aftur í MH í kannski svona viku, sitja í sófunum í
Norðurkjallara og fara yfir djamm helgarinnar, horfa á einhvern af strákunum
sofa, nenna ekki að standa upp og henda ruslinu mínu, kaupa mér núðlusúpu í
Maraþaraborg eða gott kaffi í föstudagshádegi eða rísköku í sjoppunni frammi.
Fara í stærðfræðitíma og finnast ég ekki kunna neitt, en fá samt alltaf 7 á
lokaprófi og finnast það rosalega lélegt. Fara í tíma til Halldóru Bjartar um mál
og samfélag og vera hugfangin af margbreytileika tungumálsins. Að öll verkefni
væru bara eitthvað sem þyrfti að leysa en ekki hugsa mikið um, það sem aðallega
vantaði væri tími en maður þyrfti ekki að hugsa nánast neitt til að leysa
verkefnin. Að deila um allskonar hluti á skólafundi, elska að Myndbandabúi
heiti enn Myndbandabúi, Auglýsingagangsterar o.s.frv. Að elska að vera í
tvöföldum spænsku-sögu tíma eftir hádegi á föstudögum í staðinn fyrir tvöföldan
stærðfræðitíma og vera bara alltaf að horfa á einhverjar snilldar bíómyndir frá
Suður-Ameríku og Stefán sögukennari að sturlast yfir fegurð heimsins. Að fara
upp á Miðgarð stundum í hádegishlé þegar maður bugast á öllum hávaðanum niðri,
en ekki setjast niður fyrir sitt litla líf. …
Annars var ég stödd á bar á föstudaginn þegar augljóslega
nokkuð drukkinn strákur gaf sig á tal við mig:
Hann: Halló. Hvað ertu gömul?
Ég (svolítið hissa á þessari spurningu): Halló, hvað ert þú
eiginlega gamall?
Hann: Ég er 19 ára. En hvað ertu gömul? (óþolinmóður)
Ég: Bráðum 24 ára.
Hann: Þú lítur samt bara vel út.
Ég sagði honum að það væri alls ekki hrós, enda liti ég ekki
á mig sem eitthvað gamla. Sennilegast var fólk sem var 24 ára frekar gamalt
þegar ég var 19 ára. Mér finnst það smá hellað. Krakkarnir sem eru núna í MH
finnst ég þannig sennilegast gömul. Enginn veit lengur hver maður er. Ég veit
ekki hver neinn er.
Þegar ég var búin að fá þessa MH-nostalgíu fékk ég smá Réttó
nostalgíu í dag. Að vera frekar tilfinningaríkur unglingur í svolitlu basli með
sjálfa sig, vonast til að lenda á spjalli við Jón Pétur Zimsen eftir tíma og
tala um lífið og tilveruna, spyrja hann af hverju hann gerði ekki eitthvað
ótrúlegra við líf sitt en að vera „bara“ kennari. Ég væri reyndar alveg til í
að lenda á spjalli við þennan mikla meistara í dag. Mögulega smá vandræðalegt
að fara í heimsókn í Réttó næstum 8 árum eftir útskrift. Maður gleymist jú líka
fljótt þar.
Eða hvað það var gaman að spila Olsen-Olsen við Ingvar
leikfimikennara í kaffistofunni í íþróttahúsinu í staðinn fyrir að vera í
badminton uppi í sal en heyra óminn af Sálinni. Fara með Kristjáni kennara um
bæinn til að kaupa nammi fyrir sjoppuna og lenda á smá trúnó. Vinna í sjoppunni
á böllum og vera allt í öllu í nemendaráði. Vera allt í öllu í ungmennaráði og
Reykjavíkurráði og finnast maður voða mikilvægur.
Grínast með Áslaugu, Tinnu og Álfhildi alla daga. Hanga í
Grímsbæ. Hanga í Víkinni. Fara á æfingu. Þrá að vera með bílpróf.
Öll þessi nostalgía kemur líka í kjölfarið á því að næsta
föstudag, þann 14. desember verður Glamúrgellan 10 ára. 10 ára.
Fyrir 10 árum stofnaði ég þetta blogg,
glamurgella.blogspot.com. Ég hafði reyndar verið með eitthvað semi-blogg á
annarri síðu í nokkra mánuði áður. Ég er búin að blogga í 10 ár. Á ég að skrifa
það oftar, TÍU ÁR! Lífshlaup mitt er hérna inni. Ég er hérna inni. Ég er
Glamúrgellan, Glamúrgellan er ég.
Ég átta mig á því að með því að benda á þetta stórafmæli er
ég að bjóða upp á að fólk fletti aftur í tímann, sem getur verið MJÖG
hjákjátlegt, vandræðalegt, asnalegt o.s.frv. Ég bið ykkur um að gera
það ekki.
Hinsvegar þroskast maður, ég var einu sinni 13 ára og það
var erfitt. Í dag er ég 23 ára og það er alls ekki erfitt. Eftir tíu ár verð ég
33 ára og mun eflaust vera enn hamingjusamari en ég er í dag en mun jafnframt
kannski skammast mín fyrir það sem ég skrifa í dag. Svoleiðis virkar tíminn.
Maður má ekki skammast sín fyrir það hvernig maður einu sinni var.
Í upphafi var ég óð. Ég bloggaði um allt sem ég hugsaði, ég
trylltist yfir html-i og í dag vildi ég smá að ég hefði fylgt þessum forritunar-áhuga
mínum eftir.
Ég renndi í gegnum nokkur blogg, það væri of mikil vinna að
ætla að fara að lesa þetta allt – en ég þarf klárlega að prenta þetta allt út
og helst láta binda inn, því eins og ég segi er líf mitt þarna, ég er þarna.
Stíllinn hefur þróast, gelgjan hefur minnkað.
Hrifning mín á karlmönnum hefur verið sú sama síðan ég man
eftir mér. Í raun síðan ég var fimm ára. Það skín bersýnilega í gegn í gegnum allt
bloggið sem og hversu rokkandi ég get/gat verið í skapinu.
Mig langaði smá að gefa Glamúrgellunni eitthvað í tilefni
dagsins, andlitslyftingu eða eitthvað slíkt. Ég kann reyndar eiginlega frekar
vel við einfaldleikann sem hér hefur ríkt frá byrjun. Hinsvegar tek ég við
öllum hamingjuóskum/gjöfum/tillögum fyrir hönd Glamúrgellunnar fram eftir
vikunni.
Innilega til hamingju með afmælið, elsku blogg og takk fyrir öll árin sem eru að líða og megi þau verða miklu fleiri.
|