Þá er ég mætt aftur til fyrirheitna landsins, og mikið er
það gott. Það er hundrað sinnum betra en ég átti von á, ég fann bara hvernig ég
stabílíseraðist við að koma aftur út. Ísland er svo villt og tryllt. Hér er svo rólegt og gott.
Þá er ég líka orðin tuttuguogfjögurra ára.
Ég byrjaði afmælið mitt á besta mögulega máta. Nokkrum
klukkutímum áður en það gekk í garð hjólaði ég í Rewe og keypti rauðvínsflösku
og þrjá stóra bjóra á tæpar 5€. Það gera um 1000 krónur. Heil rauðvínsflaska,
þrír bjórar. Ég skil ekki af hverju ég er ekki full alltaf, alla daga, svo
ódýrt er áfengið hér! Þá lá leiðin í eitt mjög svo gott partí í hinum enda
bæjarins þar sem ég fékk óskalög þegar klukkan var búin að slá tólf og lög sem
ég gjörsamlega tryllist við að heyra voru líka spiluð þrátt fyrir að ég hafi
ekki beðið um þau, svona eins og Dancing on my own með Robyn, Kids með MGMT
eins og stödd væri ég í einhverju trylltu Röskvupartíi, 1901 með Phoenix sem
tryllti mig fram úr hófi svo á var horft, The Strokes og FM BELFAST sem voru á
lagalistanum án minnar aðkomu OG ÉG HLUSTAÐI Á PAR AVION EINS OG ÞETTA VÆRI ENN
TRYLLTARA RÖSKVUPARTÍ EN ÞEGAR KIDS KOM!
Við Ziva hjóluðum svo heim, en komum við á kebab stað og
fengum okkur einn alltof góðan á meðan við leystum vandamál heimsins. Klukkan
fjögur að morgni.
Ég vaknaði þunn en glöð. Maður verður ekki tuttuguogfjögurra
á hverjum degi.
Þá átti ég gæðastund með sjálfri mér og einum Grande
Frühstück í miðbæ Münster, á meðan ég naut Hvíldardaga Braga Ólafsonar. Bækur
gera mig hamingjusama, fallega samansett orð gera mig hamingjusama.
Ég sat beint á móti spegli sem gerði mér kleift að
grandskoða mig, tuttuguogfjögurra ára. Í partíinu kvöldinu áður hafði fólk
áhyggjur af aldrinum. Það hef ég ekki, það eru tilganslausustu áhyggjur sem til
eru. Maður eldist, það er u.þ.b. það eina sem öruggt er í þessum heimi. Næstum
því eins og Benjamin Franklin orðaði það, “í þessum heimi er ekkert öruggt nema
dauðinn og skattarnir“ nema ég geri þetta ögn jákvæðara, við eldumst. Og svo
deyjum við einhverntímann. Ég er á toppi tilverunnar.
Eftir þessa speglagrandskoðun komst ég að þeirri niðurstöðu
að ég væri smá þunn, pantaði mér stórt glas af Apfel-Schorle sem var alltof
lengi á leiðinni fyrir afmælisbarnið. Þá komst ég að þeirri niðurstöðu að ég
liti bara nokkuð vel út.
Ég hjólaði svo aðeins um bæinn í afar fallegu veðri. Það er
svo gaman að hjóla.
Ég fór svo heim og tók við símtölum frá foreldrum mínum,
skoðaði aðeins hitt sjálfið mitt á internetinu og splæsti í miða til
Kaupmannahafnar í febrúar. Í viku. Þvílík afmælisgjöf til sjálfrar mín, og
nánast ókeypis! Það er gaman að ferðast á „óvenjulegum“ tímum. Það er gaman að
eiga ógeðslega skemmtilegar vinkonur í Köben!
Svo leið og beið. Ég horfði á smá handbolta en án þula og
það fannst mér eitthvað skrýtið svo ég missti einbeitnguna fljótt þannig að ég
fór bara í sturtu. Stundum hugsa ég hvað það er ofboðslega vanmetið að fara í
sturtu, sturtur gefa. Sturtur gera vont skap að góðu skapi, en ekki öfugt.
Þá var ég búin að bjóða nokkrum vinum til gleðskapar í mínum
mjög svo fátæklegu híbýlum. Ég á einn disk, einn gaffal, einn hníf, eina skeið.
Engin snafsaglös. Ég bauð hinsvegar upp á rússneskt kókaín sem mér skildist á
stuttri dvöl minni á Íslandi að væri það heitasta af öllu heitu. Og nú er ég
líka uppfull af kaffi, sykri og sítrónu. Og kannski smá vodka, en bara smá.
Ég var lengi að. Við vorum lengi að, þótt aldrei kæmu neinir
miklir hápunktar í þessu teiti rétt eins og fyrir viku síðan þegar ég hélt
eitthvað besta partí sem ég hef haldið með for-afmælisveislu í Bjarmalandinu.
Djöfull var gaman! DJÖFULL VAR GAMAN! Þetta afmæli mun ég lengi muna. Og eins
og einn af mínum allra bestu orðaði það nokkrum dögum síðar:
„mér fannst þú mjög sterk og flott og frábær á
föstudagskvöldið, þú mátt vita það“
- af því ég er önnur kona en ég var. Ég er það, virkilega.
Og það er svo GOTT og það er svo GAMAN þegar einhver annar veit það líka. Mér
líður eins og ég hafi fullkomna stjórn, eins og öllum ætti auðvitað alltaf að
líða. Nema kannski stundum þegar ég kem smá full heim og segi eitthvað skrýtið
á internetinu, en ég meina … það má alveg líka, þannig lagað. Samt ekki. En
samt. Hver er hér til að dæma? (ég skrifaði þetta augljóslega líka í nótt, drukkin.
Leyfi því samt að standa.)
Ég fékk allavegna nóg af víni og súkkulaði í afmælisgjöf. Og
súkkulaðiköku! Og nestisbox með ýmsum kennileitum frá Münster á. Þvílík gjöf!
Við ætluðum á einhvern klúbb en meikuðum ekki að hjóla mjög
langt svo við tékkuðum á Greys. Þar var röð sem ég nennti ekki fyrir mitt litla
leyti að bíða í svo við fórum bara á Burger King í staðinn. Burger King er
svona eins og verri og dýrari útgáfa af McDonalds, for your info. Þar át ég
eitthvað, og þegar við Ziva vorum enn og aftur að kryfja alheimsvanda lífsins
þá ákvað ég að fyrst að það væri nú afmælisdagurinn minn (sem reyndar lauk
fyrir svona fjórum tímum) þá mætti ég alveg splæsa í annan börger. Sem ég
gerði. Og nú er maginn á mér svo TROÐfullur af Burger King að mér líður eins og
BBQueen.
Annars var ég Líbó-Hildur á Íslandi og nú er ég
Fitness-Hilde og Turbo-Hilde. Ég kann vel við þessi viðurnefni.
Líkamanum mínum líður svo illa, hann þjáist afskaplega mikið
af harðsperrum þessa dagana. Ziva vill meina að það sé vegna þess að aldurinn
færist yfir. Ég vil meina að hún sé leiðinleg með þessum kommentum. Ég vil
meina að ég sé „auf der Spitze der Welt“ en svo segir maður víst ekki á þýsku.
Mér er alveg sama. Toppurinn á tilverunni krakkar, það er það sem gildir.
Það sem ég elska þetta nú.
Það sem það er gaman að eiga afmæli!
|