25.1.13

Ég er búin að vera í fullkomlega fáránlegu tilfinningalimbói s.l. viku eða svo. Það grípur mig yfirþyrmandi tilfinning sem er alltaf eins og alltaf alveg gríðarsterk svona einu sinni á dag og hún varir í einhvern tíma. Ég get ekki alveg lýst henni, hún er svo ofboðslega góð en svo vond um leið. Ég verð alveg óhuggnalega meyr, ég er við það að bresta í grát en bara einhvernveginn af því að allt er svo gott. Það er mjög skrýtið. Þetta er mjög skrýtið. Ég held að kannski hafi allur þessi snjór þessi áhrif á mig.
Lífið er í smá biðstöðu núna. Mest langar mig til að lesa bækur og skrifa bækur allan daginn. Ég er búin að hafa mjög margar vikur til þess, en ekki haft jafn mikla löngun til þess eins og nú. Ég veit af hverju það er, eina ástæðan er sú að ég er í prófum og á að vera að læra mjög mikið. Það er ég hinsvegar ekki að gera.
Ég tók mjög góða syrpu af skrifum í gær þar sem mér leið eins og ég væri að verða sturluð þegar ég hætti. Ég hugsaði með mér hversu athyglisvert það væri að ég heyrði engin hljóð, engir bílar keyrðu framhjá og fólkið sitthvoru megin við þunna vegginna virtist ekki vera heima. Sú hugsun hvarlaði að mér, rétt eins og oft áður, að ég væri kannski ein í heiminum. Þegar ég lagðist svo upp í rúm þá heyrði ég hljóð koma úr báðum áttum, stelpan var að hlusta á tónlist og strákurinn hinum megin virtist vera að horfa á gamanþátt. ...

Eins og dagarnir eru þessa stundina, og eins og það tekur á að reyna að skrifa lengri heildstæðan texta en þennan hér, þá segi ég afsakið hlé í bili.
Sjáum til hversu lengi.