Fyrir rúmri viku síðan kom ég mjög óvænt heim. Að ganga miðnætti á fimmtudagskvöld pantaði ég flug heim frá Berlín (sem er í svona fimm, sex tíma bílferð frá Münster) sem flogið var á föstudagskvöldi. Ástæðurnar voru ekki gleðilegar, en amma mín lést mánudaginn 4. febrúar, á afmælisdegi Gígju móðursystur minnar. Amma var búin að vera lasin og ég finn fyrir ákveðnum létti fyrir hennar hönd að þessu sé bara lokið.
Ég skrifaði ekki minningargrein um hana. Ég veit eiginlega ekki alveg hvað skal skrifa í slíkt en í dag þegar kistulagningu var lokið, fjölskyldan búin að gæða sér á bollum saman og allir farnir að sinna því sem sinna þarf í daglegu lífi þá var ég ein eftir hérna heima hjá mér. Það er afar fallegt og bjart í dag, ég settist niður í stofu og ætlaði að lesa. Ég eirði ekki við og það greip mig mikil löngun til að taka fram þverflautuna sem ég spilaði á í fjöldamörg ár. Það gerist örsjaldan að mig langi til að spila, og ég verð eiginlega alltaf jafn frústresuð yfir því hvað ég sé orðin léleg og hvað ég sinnti þessu ekki nógu vel á sínum tíma, hvað ég vildi að ég hefði lagt mig örlítið meira fram.
Í dag var mjög gaman að spila. Mér fannst ég betri en oft áður og ég hugsaði mikið um ömmu mína á meðan. Ég fann eiginlega fyrst fyrir söknuði við þessa tóna. Ég umgekkst ömmu nefnilega svolítið í kringum tónlistarskólann, hún var oft fengin í það að skutla mér og sækja. Ég man svo vel eftir lyktinni í gömlu Mözdunni hennar, með þunga stýrinu. Hún beið fyrir utan Tónlistarskóla Kópavogs þennan hálftíma sem flaututíminn varði og skutlaði svo heim og eldaði kannski kvöldmat fyrir fjölskylduna, kótilettur eða steiktan fisk. Ég man að hún ætlaði að keyra mig í fyrsta tónfræðitímann minn, en ég stakk skrúfblýanti í löngutöng á vinstri hendi þegar ég var að ganga frá honum í trúðapennaveskið mitt og þurfti að fara á slysó svo ég missti af þessum fyrsta tíma og var mjög vandræðaleg í þeim næsta.
Þegar ég var svona tíu ára fór ég líka alltaf heim til hennar eftir skóla á þriðjudögum og við máluðum saman á steina, áður en ég skokkaði niður Hátúnið og fór á fimleikaæfingu í gamla Ármannshúsinu.
Einu sinni fékk ég líka að fara út í Nóatún og kaupa Dracula brjóstsykra, en amma sagði að ég þyrfti að drekka mjólk með af því það væri svo sterkt. Ég hugsa enn mjög oft um það í dag þegar ég borða sterka brjóstsykra, hversu fáránlegt það væri að fá sér mjólkurglas með því. Fyndið hvernig einhverjar minningarglefsur fylgja manni, eins ómerkilegar og þetta - en samt svo dýrmætar.
Amma hugsaði fyrst og fremst um aðra. Hún upplifði ótrúlegar breytingar á samfélaginu, enda fædd 1924 og fór frá Patreksfirði úr fátækt til borgarinnar með skipstjóranum afa mínum.
Amma var andlega þenkjandi og síðustu ár ákallaði hún drottinn oft í veikindum sínum og bað hann að hjálpa sér. Ég vona að henni hafi orðið að ósk sinni.
Þetta er kannski bara minningargrein nútímans. Ég hafði allavegna einhvernveginn ekki kjark í að senda eitthvað svona inn til Moggans, en á mínu eigin svæði fær hún Ingveldur amma mín þetta litla pláss.
Ég skrifaði ekki minningargrein um hana. Ég veit eiginlega ekki alveg hvað skal skrifa í slíkt en í dag þegar kistulagningu var lokið, fjölskyldan búin að gæða sér á bollum saman og allir farnir að sinna því sem sinna þarf í daglegu lífi þá var ég ein eftir hérna heima hjá mér. Það er afar fallegt og bjart í dag, ég settist niður í stofu og ætlaði að lesa. Ég eirði ekki við og það greip mig mikil löngun til að taka fram þverflautuna sem ég spilaði á í fjöldamörg ár. Það gerist örsjaldan að mig langi til að spila, og ég verð eiginlega alltaf jafn frústresuð yfir því hvað ég sé orðin léleg og hvað ég sinnti þessu ekki nógu vel á sínum tíma, hvað ég vildi að ég hefði lagt mig örlítið meira fram.
Í dag var mjög gaman að spila. Mér fannst ég betri en oft áður og ég hugsaði mikið um ömmu mína á meðan. Ég fann eiginlega fyrst fyrir söknuði við þessa tóna. Ég umgekkst ömmu nefnilega svolítið í kringum tónlistarskólann, hún var oft fengin í það að skutla mér og sækja. Ég man svo vel eftir lyktinni í gömlu Mözdunni hennar, með þunga stýrinu. Hún beið fyrir utan Tónlistarskóla Kópavogs þennan hálftíma sem flaututíminn varði og skutlaði svo heim og eldaði kannski kvöldmat fyrir fjölskylduna, kótilettur eða steiktan fisk. Ég man að hún ætlaði að keyra mig í fyrsta tónfræðitímann minn, en ég stakk skrúfblýanti í löngutöng á vinstri hendi þegar ég var að ganga frá honum í trúðapennaveskið mitt og þurfti að fara á slysó svo ég missti af þessum fyrsta tíma og var mjög vandræðaleg í þeim næsta.
Þegar ég var svona tíu ára fór ég líka alltaf heim til hennar eftir skóla á þriðjudögum og við máluðum saman á steina, áður en ég skokkaði niður Hátúnið og fór á fimleikaæfingu í gamla Ármannshúsinu.
Einu sinni fékk ég líka að fara út í Nóatún og kaupa Dracula brjóstsykra, en amma sagði að ég þyrfti að drekka mjólk með af því það væri svo sterkt. Ég hugsa enn mjög oft um það í dag þegar ég borða sterka brjóstsykra, hversu fáránlegt það væri að fá sér mjólkurglas með því. Fyndið hvernig einhverjar minningarglefsur fylgja manni, eins ómerkilegar og þetta - en samt svo dýrmætar.
Amma hugsaði fyrst og fremst um aðra. Hún upplifði ótrúlegar breytingar á samfélaginu, enda fædd 1924 og fór frá Patreksfirði úr fátækt til borgarinnar með skipstjóranum afa mínum.
Amma var andlega þenkjandi og síðustu ár ákallaði hún drottinn oft í veikindum sínum og bað hann að hjálpa sér. Ég vona að henni hafi orðið að ósk sinni.
Þetta er kannski bara minningargrein nútímans. Ég hafði allavegna einhvernveginn ekki kjark í að senda eitthvað svona inn til Moggans, en á mínu eigin svæði fær hún Ingveldur amma mín þetta litla pláss.
|