10.5.13

Það sem mér hefur þótt lærdómsríkast við að vera í skiptinámi er að kynnast öllu þessu fólki frá mismunandi löndum og mismunandi menningarheimum. Ég hef lært afskaplega margt á því og orðið umburðarlyndari og víðsýnni, því er ég klár á.

Það sem hefur komið mér hvað mest á óvart er hversu ólíkt er að vera stúdent á Íslandi miðað við önnur Evrópulönd.

Í fyrsta lagi finnst mér oft eins og það sé talið mikilvægara og veigameira að vera stúdent annars staðar en heima. Að fólk upplifi sig meira sem partur af heild, heildinni sem það að vera stúdent er og að það að vera í háskóla sé merkilegt og mikilvægt. Að það sé líf sem fólk vill helst ekki yfirgefa. Það er samt bara einhver tilfinning sem ég hef og þetta gæti verið algjört ofmat.

Í öðru lagi er það fyrirkomulagið á peningamálum.
Byrjum á Norðurlöndunum. Þar fá stúdentarnir styrki fyrir að vera í námi. Ríkið borgar þeim fyrir það, þótt einhver teikn séu á lofti um fyrirkomulagið t.d. í Danmörku. Síðar meir borga þeir þá jú sennilegast hærri skatta. Við sem förum í nám borgum til baka af námslánunum. Finnarnir sem eru hérna fá lægri Erasmus styrk en ég, um 180€ á mánuði en ofan á það bætast 500€ sem þau fá vanalega fyrir að vera í námi. Ég fæ 300€ í Erasmus styrk og tek svo námslán. Tekjur mínar árið 2013 verða að öllum líkindum 0 kr.

Annars staðar í Evrópu fær fólk ekki styrk frá ríkinu fyrir að vera í námi – en foreldrarnir borga húsnæði og uppihald. Og allt annað. Borga allt. Evrópsk ungmenni vinna ekki þegar þau eru í sumarfríi, heldur fara í ferðalög (sem foreldrar þeirra borga) eða tjilla með vinum sínum. Auðvitað eru einhverjir í aukavinnu með skóla til að hafa aðeins meira á milli handanna og vera ekki fullkomlega upp á foreldra sína komin, en það er lítil prósenta af heildinni. Ef foreldrarnir eru undir ákveðnum tekjumörkum hér í Þýskalandi eða eiga mörg börn í háskóla þá er hægt að sækja um styrk til ríkisins eftir að launaseðlar foreldranna hafa gaumgæfilega verið skoðaðir.

Auðvitað finnst manni eitthvað hálf skrýtið að vera komin á þrítugsaldur og enn upp á foreldra sína kominn og þurfa að ráðfæra sig við þau um alla sína eyðslu, eða svo gott sem. Ég hef ekki ítarlega rætt peningafyrirkomulag við vini mína á Íslandi, en þykist nokkuð viss um að þeir sem fái mánaðarlegan styrk frá foreldrum sínum eða eru bara fjárhagslega studdir af foreldrum sínum á einhvern hátt séu afar fáir.

Ég átta mig ekki alveg á hvers vegna þetta er svona. Kannski af því að svo mikill fjöldi fólks býr á höfuðborgarsvæðinu þar sem flestir háskólarnir eru og margir geta þ.a.l. enn búið í foreldrahúsum meðan á náminu stendur. Svona eins og ég geri. En einhverntímann langar mann jú að fljúga úr hreiðrinu og standa á eigin fótum. Í mörgum öðrum löndum flytja ungmennin að heiman til að fara í háskóla, flytja þvers og kurs um landið til að stunda það nám sem þau langar, þar sem þau langar. Af því það er ekki enn möguleiki að búa heima þá borga foreldrarnir. Ímynda ég mér. En ég á fullt af vinum utan af landi sem geta ekki búið í sinni heimabyggð ef þeir vilja fara í háskóla. Samt borga foreldrarnir ekkert, þannig er kúltúrinn einfaldlega ekki og þeir hafa ekki lagt til hliðar síðan viðkomandi var kornabarn eða gert aðrar ráðstafanir til að styðja við barnið sitt.

Ég hef það dúndrandi gott, bý með foreldrum mínum í einbýlishúsi í Fossvoginum og veit að ef eitthvað krítískt kæmi upp á gætu foreldrar mínir hlaupið undir bagga með mér. Ég þekki hinsvegar fullt af fólki þar sem staðan er ekki svo góð. Fólk sem hefur ekki tækifæri til að búa í foreldrahúsum (eða einfaldlega vill það ekki, komið yfir tvítugt) og foreldrarnir hafa ekki það mikið á milli handanna að geta hjálpað, ekki heldur ef eitthvað kæmi upp á. Það er lítið öryggisnet.
Kannski eru Evrópubúar latari en við, nenna ekki jafn mikið að vinna og eru verr undirbúin þegar á vinnumarkaðshólminn er komið. Ég gæti örugglega flett einhverjum tölum upp um það. Ég nenni því ekki. Ég veit heldur ekki hvort það er svo mikilvægt.

Fólk horfir á mig í forundran þegar ég segist ekki fá krónu frá foreldrum mínum, en það sé ekki af því foreldrir mínir séu vondir, nískir eða fátækir. Heldur af því að svoleiðis sé bara kúltúrinn. Enginn fái neitt frá foreldrum sínum. Öllum sem ég tala við finnst það óhugsandi, og óhugsandi að þurfa að greiða upp einhver lán að námi loknu. Ég malda í móinn svo foreldrar mínir líti ekki út fyrir að vera skrímsli og segist reyndar búa enn heima og þurfi þannig ekki að borga mitt eigið húsnæði eða mat, en bæti svo við að reyndar sé það svo að fæstir vina minna búi enn í foreldrahúsum, og margir sem það geri borgi heim.
„Já ég borga allar skólabækurnar mínar sjálf.“
„HA?“ er svarið.

Ég hef það fínt. Ég þekki hinsvegar mjög mikið af fólki sem á í alvöru erfiðleikum með að lifa af námslánunum sínum og hefur peningaáhyggjur. Það veldur mér áhyggjum.

Lánasjóðurinn var og er frábær á ákveðinn hátt – hann gaf fólki tækifæri og gerir fólki kleift að mennta sig og taka lán með lágum vöxtum. Þegar ég ber mig samt saman við evrópska vini mína fallast mér stundum hendur.