23.5.13

Föstudagur:
Ég vaknaði útsofin og fann hvernig spennan náði tökum á mér. Mér leið eins og litlu barni á leið til útlanda, kunnugleg tilfinning sem ég hafði samt ekki fundið fyrir í háa herrans tíð. Pakkaði síðustu hlutunum ofan í tösku og hélt af stað út á stoppistöð þar sem ég hafði mælt mér mót við einhverja ókunnuga sem voru líka á leið til München og vildu deila bílnum sínum. Ég hitti ferðafélaga mína fljótt og við tók rúmlega sjö tíma akstur, enda hvítasunnuhelgin að hefjast og nóg að gera á þýsku hraðbrautunum. Ég gat ekki sofið, bæði var ég úthvíld en síðan bara svo alltof spennt fyrir því sem koma skyldi. Ég sendi Löru sms um að ég væri að nálgast þegar ég kom inn fyrir landamærin í Bayern.
Um klukkan tíu var ég mætt til Schwabing og mér leið eins og ég hefði aldrei farið. Ég þekkti götunöfnin, rataði, hitti Löru og Milu aftur og það var eins og við hefðum síðast sést í gær. Mér leið eins og ég væri komin heim. Undarleg tilfinning að líða svoleiðis einhversstaðar annars staðar en heima í Reykjavík. Góð tilfinning. Við fengum okkur eitt vínglas í Türkenstraße áður en við fórum heim til Milu. Hún býr á besta stað í huggulegri íbúð. Við Lara ákváðum að gista bara þar.

Laugardagur:
Við þrjár vöknuðum hressar, fórum út í búð og keyptum allskonar gúmmelaði til að borða í morgunmat. Það var mikilvægt að borða vel enda langur og strangur dagur framundan. Sólin skein, við athuguðum hvort það væri stuttbuxnaveður þegar við skruppum út í búð en vorum ekki alveg vissar. Í sólinni var hlýtt, þegar ský drógu fyrir sólu varð nokkuð kalt. Við drukkum kaffi, borðuðum mozarella, rúnstykki, hunang og álegg. Skáluðum í freyðivíni. Lökkuðum á okkur neglurnar, fórum í skvísufötin. Rúmlega tvö mættum við á Gärnterplatz þar sem við höfðum mælt okkur mót við fleiri vini. Þeir týndust inn einn af öðrum, Augustinerar voru opnaðir sem og rósavín. Enn leið mér eins og ég hefði aldrei farið. „Das ist das Leben“ var margoft haft eftir mér. Margoft. Enda var þetta lífið. Svona á að lifa.
Um fimm héldum við af stað í Sonnenstraße þar sem klúbburinn Harry Klein er til húsa. Við stigum upp í rútu sem flutti tugi glaðra ungmenna að Chiemsee. Við stigum um borð í bát með dúndrandi elektrómúsík og gleði. Rúnturinn tók einhverja fjóra tíma, fjóra tíma sem hurfu eitthvert – sólarlagið var svo fallegt, krakkarnir voru svo skemmtilegir, dansinn var svo skemmtilegur.
Rútuferðin til baka drap stemminguna svolítið, allir sofnuðu og þegar miðbæjarnæturlífið tók við okkur var lítið annað en Burger King að frétta. Heim í leigubíl, sleepover hjá Milu.

Sunnudagur:
Við vöknuðum snemma, ótrúleag snemma raunar og leituðum að sushi. Við litum sennilegast út fyrir að vera ógæfufólk frekar en ungt og heilbrigt fólk. Römbuðum inn á sushistað og borðuðum sem mest við máttum á hálftíma, skoluðum því niður með Radler. Grínuðum. Að aflokinni máltíð fórum við Lara heim til hennar og slökuðum aðeins á, veltum fyrir okkur hvort við ættum að fara á einhverja hvítasunnubjórhátíð í þorpi rétt fyrir utan München. Vorum ekki vissar, það rigndi, þurftum að ná í Dirndl. Laura ætlaði ekki, Mila ætlaði ekki. Svo hertum við upp hugann og sögðum letinni stríð á hendur. Julian bauð okkur í mat, við klæddum okkur í klæðin og héldum af stað með Sbahn til Germering. Held ég. Þaðan þurftum við svo að taka leigubíl til að komast í þorpið. Þetta var semsagt hátíð á hjara veraldar. Um leið og við stigum út skein sólin, allir voru klæddir í Tracht og smábæjarhjartað í Löru tók kipp. Þýska hjartað í mér tók kipp. Við brostum okkar allra blíðasta. Auðvitað áttum við bara að drífa okkur út. Menn í Lederhosen eru myndarlegri en aðrir menn. Goaßmaß, bjór, allskonar snapsar. Rúnstykki með þýskum pulsum. Þið getið ímyndað ykkur hvað ég var glöð. Bláustu augu sem ég hef séð. „Þessi, hún er frá Póllandi“ og allskonar meira grín. Bjórdælunum lokað, allir heim. Hjari veraldar, engir leigubílar. Við gengum í einhverja átt með nýjum vinum, það var hvortsemer ekkert annað að gera. Stjörnubjartur himinn, engin götulýsing. Ég gat ekki hætt að brosa. Fullkomlega áhyggjulaus þrátt fyrir að hafa ekki hugmynd um hvar ég væri. Fullkomlega áhyggjulaus. Allt í einu kom leigubíll sem keyrði okkur að hóteli þar sem einhver bjó samt. Mér skilst að Jonas hafi sent hann. Guði sé lof fyrir Jonas. Augustiner. Mikið, mikið grín. Eftir nokkra stund var leigubílstjóra mútað að koma að ná í okkur gegn örlátu þjórfé. Hann renndi upp að hótelinu og það var orðið bjart. Sólin skein. Við keyrðum í gegnum þýska sveitina með þýskt rapp á fóninum og sólargeislana í andlitinu. Ég brosti hringinn.

Hvítasunnuhelgar halda áfram að vera topphelgarnar í lífi mínu.

Mánudagur:
Notaleg stund með Löru, sem er einhver sú allra besta og skemmtilegasta. Göngutúr og indverskur matur. Ég íhugaði alvarlega hvenær ég gæti flutt til München og hvað ég gæti farið að gera þar. Hef ekki hætt að hugsa um það síðan.

Það er svo magnað að hafa lítið samband við fólk í einhverja mánuði, koma svo aftur og líða eins og maður hafi talað síðast saman í gær. Slíkt gerir mig hamingjusama.

Þriðjudagur:
Regensburg. Nicole vinkona mín sem ég kynntist í Frankfurt er að læra þar og Nora sem ég kynntist á sama stað kom líka í heimsókn. Við kötsjuðum upp, skoðuðum Dóná og dómkirkjuna. Í Regensburg tala allir bæversku. Ég skildi svona einn þriðja af því sem fram fór í samtölum, en það gladdi mig gríðarlega. Fórum á Dult sem er bjórhátíðin í Regensburg, nokkuð svipuð Oktoberfest nema í töluvert smækkaðri mynd. Lúðrasveitin tók Schneewaltz fyrir mig – undir minni stjórn.

Miðvikudagur:
Við sváfum. Borðuðum. Horfðum á sjónvarpið. Sváfum. Eins gott að það var rigning úti.

Fimmtudagur:

Það er gott að vera komin heim. Nóg að gera framundan. Get ekki hætt að hugsa um að flytja til München. Langar ekki heim.