9.6.13

Hún skalf. Hún hafði drukkið alltof mikið kaffi. Eða kannski var hún með sólsting. Það var svo heitt. Hún hugsaði hvort hún væri með óráði, eða hvort þetta væru bara hugsanirnar sem hefðu svona mikil tök á henni. Hugsanirnar sem flögruðu um, komu, fóru, hratt. Hún hafði ekki tök á þeim. Þær komu og fóru. Hratt. Hún fann hvernig líkaminn skalf allur og hristist. Hún horfði niður á lærið á hjólinu. Það skalf líka. Hún velti fyrir sér hvort lærið tæki sig vel út. Hvort hún tæki sig vel út. Hana langaði að vera með stinn og falleg læri eins og hinar stelpurnar. Það hlaut að vera. Hún hlaut að vera sumarleg og svöl þrátt fyrir allan hitann. Stefnuljósin á bílunum í kring blikkuðu í takt. Tikk takk tikk takk hlaut að heyrast inni í bílunum. Hana langaði líka að sitja í bíl með köldu lofti og horfa á hana og öfunda hana af því að vera á hjóli. Hana langaði að sitja í bíl og keyra eitthvert. Keyra út í buskann. Keyra að vatni. Svamla. Skríkja af kátínu. Skrýtið hvernig allt er einfaldara þegar maður er ekki einn. Þegar ég er tveir. Þá getur maður allt, þorir öllu. Einn er maður bara lítil skógarmús í haga sem hoppar um og hræðist rándýrin. Sameinaður getur maður allt. Líka keyrt út í buskann og svamlað. Hver vil svamla einn? Vill það einhver í raun og veru? Hún starði á hjólaljósið. Það var rautt. Svo var það gult og stefnuljósin tikkuðu enn í takt. Þau myndu vera í takt að eilífu. Hún tók af stað. Horfði fram fyrir sig. Fann hjartað slá. Það var á yfirsnúningi. Hún gat ekki hætt að velta fyrir sér hvort þetta væri vegna kaffisins eða sólarinnar eða kannski bara eilífðarinnar. Hún myndi aldrei komast að því. Nema hún færi á spítala með sólsting. Þá væri þetta vegna sólarinnar. Hún kom inn. Leit á sjálfa sig í speglinum. Augun voru fallega blá. Húðin hafði dökknað. Hún horfði í augun á sjálfri sér og hugsaði „skrýtið hvernig allar þessar hugsanir þjóta hérna um og ég hef enga stjórn og þær bara eru og ég bara er og nú er ég að hugsa um að ég sé að hugsa og það er skrýtið og ég veit ekkert“.
Svo settist hún niður og reyndi að slaka á. Fá hjartað til að hætta að slá svona ótt og títt. Það myndi bara enda með ósköpum. Hún drakk vatn og lofaði sjálfri sér að drekka aldrei svona mikið kaffi aftur.

Eða gera það oftar. Það er stundum svo gott að hafa enga stjórn og sleppa huganum lausum.