Ég stilli tónlistina hátt.
Sé fyrstu dropana falla. Ég var búin að heyra drunur í fjarlægð, ég var búin að vera að bíða eftir þessum dropum. Nú falla þeir einn, tveir, þrír. Dripp dropp drapp dripp dropp drapp. Drunurnar færast nær. Ég sé himininn blikka. Örstutt er eins og einhver taki mynd. Örstutt er eins og allt standi í stað í blossanum. Ég heyri drunurnar færast hratt nær. Ef ég væri úti myndi ég hlaupa í örvæntingu í skjól. Eða ég stæði úti og biði þess sem koma skyldi. Finndi hvernig ég yrði gegnblaut. Þyrfti bara að passa mig að vera ekki ein á opnu svæði. Ég kann ekki á svona veður. Það er litlu íslensku hjarta svo framandi. Ég fæ mig ekki til að gera neitt annað en bíða eftir veðrinu. Mig langar ekki að gera neitt nema horfa útum gluggann og bíða. Vonandi kemur það enn nær mér. Mig langar að vera í miðjunni, þannig að það rigni eldi og brennisteini og þrumunar æri mig. Verða svolítið hrædd jafnvel.
Skyndilega herðir rigninguna, þrumurnar færast nær og verða tíðari. Ennþá glittir í sólarglætu. Einhverstaðar er fallegur regnbogi. Ég slekk á tónlistinni. Mig langar bara að hlusta á himininn. Regnið herðir enn, hljóðin þegar það bylur á glugganum gagntaka allt. Allir stúdentarnir á bókasafninu líta upp úr bókunum og horfa út um gluggann. Horfa á hundruði lítra af regni falla til jarðar. Það er eitthvað magnað við það þegar allir undrast svona saman yfir náttúrunni og náttúruöflunum.
Gott að ég fór bara í hvítum hlýrabol, stuttbuxum og sandölum í skólann. Og að keðjan af hjólinu mínu datt af á miðri leið og ég gat ekki lagað það svo ég þurfti að skilja það eftir. Það verður gaman að fara heim.
Ævintýri jafnvel.
|