17.6.13

Hugurinn leitar auðvitað sjálfkrafa heim þegar það er orðið ljóst hvenær að þeim tímamótum kemur. Og þegar sjálfur þjóðhátíðardagurinn er. Ég er svo mikill sökker fyrir hátíðum af öllum stærðum og gerðum.

Ég hlakka svo til að hitta litla bræðrasyni, fimm „gamla“ og einn glænýjan. Það er skrýtið hvernig það er hægt að þykja svona ótrúlega vænt um einhvern sem er bæði alveg nýr í heiminum og maður hefur aldrei hitt. Reyndar hlakka ég líka til að hitta börn bæði Héðins og Auðar frændsystkina minna. Lítil börn maður, hvernig er hægt að gleðja hjörtu svona mikið með því bara að vera til?!

Ég hlakka svo til að fara í danssmiðju á LungA. Og vita ekki alveg hvernig eða hvenær ég ætla heim. Það verður sól og sumar.

Ég hlakka svo til að geta keypt mér bland í poka.

Ég hlakka svo til að fara í kjól á djammið. Berleggja.

Ég hlakka svo til að sofa í rúminu mínu. Það er svo ótrúlega þægilegt og rúmið mitt hér er svo ótrúlega óþægilegt.

Ég hlakka svo til brúðkaups og sumarnóttar í Hvalfirði með þeim bestu. Það verður sól og sumar.

Ég hlakka svo til að halda hið árlega sumargarðpartí með öllum vinum. Og kunningjum. Það verður sól og sumar.

Ég hlakka svo til að hlusta á hrossagaukinn í kyrrðinni.

Ég hlakka svo til að fá mér beyglu og kakómalt í morgunmat.

Ég hlakka svo til Vínkonugríns 2013.

Ég hlakka svo til að geta valið úr öllum skóm og yfirhöfnum.

Ég hlakka svo til að hlusta á Kveik í fullum gæðum í stofunni heima.

Ég hlakka svo til að hafa a.m.k. tækifæri til að ganga á fjöll. Það er á stefnuskránni að nýta þau tækifæri.

Næstu tæpu fjórar vikur fara í að njóta sólar, læra fyrir próf og njóta lokastunda með vinum af öllum þjóðernum. Það eru ótal margir hlutir sem ég mun sakna mikið við brottför, þótt ég sé líka spennt fyrir að koma heim. Ég er samt eiginlega frekar góð í að lifa bara í núinu þrátt fyrir þessa upptalningu.

Annað:
Mín káta angist eftir Guðmund Andra Thorsson er einhver besta bók sem ég hef lesið. Ég las hana fyrst þegar ég var svona tíu ára. Svo í fyrrasumar og aftur núna. Ég gæti eiginlega lesið hana strax aftur. Hún er stutt og auðlesin, ótrúlega skemmtilega skrifuð. Lítið gerist. Akkúrat eins og ég vil hafa bækur. Ég komst að því að orð eins og kviðmágur voru allavegana til árið 1988, og ég sem hélt í einhverri barnslegri einlægni að það hefði verið fundið upp á tuttugustuogfyrstu öldinni.
Það rímaði eitthvað svo vel við bókina það sem litli strákurinn sagði upprifinn þegar hann sá mig læsa hjólinu mínu við Juridicum háskólabygginguna um helgina: „und da sind noch mehrere Studenten!“
Mér leið eins og ég væri eitthvað. Væri eitthvað merkilegt.

Góðar stundir.