7.8.13

Það er svo óendanlega margt að segja frá. Ég hef ekki hugmynd hvar ég á að byrja eða enda. Eða hvort ég eigi að sleppa því bara að segja frá og eiga þetta bara í mínum eigin huga og hjarta. Þetta blogg er búið að vera í bígerð mjög lengi. Ég ætla að klára það.
Síðasti mánuður í lífi mínu hefur verið einhver sá besti. Viðburðarríkur með eindæmum. Lokavikur Þýskalandsdvalarinnar voru þær bestu. Fullkomlega frábærar, fullar af lífi og fjöri og vinum og sætum strákum. Einhvernveginn gekk allt upp, alveg fáránlega vel upp. Ég var einhvernveginn heppnasta kona í heimi sem fékk allt upp í hendurnar sem ég þurfti svo ég skautaði bara í gegnum síðustu vikuna.
Ég er búin að reyna að tala við alla túrista sem ég sé síðan ég kom heim, af því þeir eru allir þýskir og ég þrái að eiga samskipti á þýsku. Nú er ég að hlusta á Cro og borðaði Bratwurst í kvöldmatinn og hlustaði á Schatzi schenk mir ein Foto áðan. Eða ég gerði það allavegana daginn sem ég byrjaði að skrifa þetta niður. Öfunda foreldra mína stórkostlega sem eru að fara í þýskuskóla næsta mánuðinn. Þvílíkur unaður. Finnst svolítið skrýtið að vera ekki að fara að gera neitt „spennandi“ næstu mánuðina. Allt bara það sama gamla. Sem er samt svo gott. Ég hafði ekki áttað mig á því fyrr en ég fór út og kynntist fjöldanum öllum af fólki frá öðrum menningarheimum og löndum hversu skemmtilegu lífi ég lifi, og hvað margir lifa leiðinlegu lífi. Gríðarlega skemmtilegu. Mér finnst svo gaman að vera til. Það er svo gott.

Lífið hefur verið tryllingur eftir heimkomu. Veðrið hefur í raun leikið við mig, mér hefur þótt þetta sumar bara eins og flest önnur veðurfarslega séð - ég er einhvernveginn búin að elta góða veðrið. Eða það mig. Maður veit ekki.

Ég kynntist mjög góðum þýskum hjónum í röðinni á flugvellinum á leiðinni heim sem hjálpuðu mér með farangurinn minn og spöruðu mér mjög margar evrur. Það er svo næs að vera næs. Ég ætla að vera svo mikið næs alltaf núna og í framtíðinni. Hjálpa öðrum þegar hægt er, það er lærdómur sem ég lærði úti. Það er eitthvað sem ætti að segja sig sjálft en ég upplifði á einhvern annan hátt á þessari dvöl og ætla að vinda fram.

Ótrúlega skemmtilegt og fallegt brúðkaup hjá stórvinum mínum Ásdísi og Hallgrími tók við innan við sólarhring eftir að ég lenti. Allur tilfinningaskalinn og grínið og fallegu ræðurnar og góði maturinn og flæðandi vínið. Þvílíkt fjör. Ég hef ekki farið í mjög mörg brúðkaup, en þetta var algjör toppur. Það er ekki í hverju brúðkaupi sem Svavar Halldórsson grillar hamborgara ofan í mannskapinn um miðja nótt.

Á sunnudeginum flugum við Dóra til Egilsstaða eins og lúxusskvísurnar sem við erum.
LungA vikan var tryllt. Fáránlega skemmtileg. Ég dansaði alla daga. Það er gaman. Mér fannst ég í alvörunni læra frekar mikið að dansa svo nú má sjá mig á dansgólfum borgarinnar fulla sjálfstrausts í sveiflu. Einn strákur sagði að það væri ótrúlega gaman að dansa við mig. Svoleiðis hef ég aldrei áður heyrt. Ég þyrfti eiginlega að hafa uppi á honum…
LungA er svolítið fyndið af því það er eins og maður sé í fullorðinssumarbúðum þar sem maður fær mat þrisvar á dag, allir eru alltaf fullir og að tékka hverja aðra út. Og sinna listinni auðvitað.
Ég hlakkaði til þess að vakna á hverjum degi og fá mér súrmjólk með púðursykri og kornflexi.
Ég kynntist fullt af snillum og eignaðist fjóra nýja facebook vini. Það er svo gaman þegar maður er í svona hóp út á landi hvað allir verða vinir og maður talar við alla og grínar.
Svo gleymdi ég líka hvað allir eru alltaf töff á Íslandi (í alvöru – fólk í Þýskalandi er alveg alls ekki jafn töff. Allavegana ekki í einhverjum háskólaborgum) svo ég fór bara í Póstpeysunni minni og skammaðist mín alla vikuna og var algjör mús. Eða þið vitið. Ég gerði bara allskonar grín til að reyna að fela óöryggi mitt.

Við Dóra gistum einni nótt lengur á Seyðisfirði þegar ég hafði fengið tjald að láni hjá einum heldur betur næs gæja og við héldum svo á puttanum til Vopnafjarðar. Þar tóku við fleiri ævintýri, matarboð sem endaði á fjórhjólaferð í bjartri sumarnóttinni og óvæntum endi, sumarnóttinni sem var svo falleg að ég tók andköf, skoðuðum Vopnafjörð og nágrenni með Konna og vorum almennt afar slakar á því.

Fórum á puttanum til Mývatns og þaðan til Akureyrar og þaðan til Varmahlíðar þegar klukkan var orðin svolítið margt og það var þoka yfir öllu. Við gistum því eina nótt í Hvammi hjá Sverri bróður mínum og tengdafjölskyldunni hans, þar sem ég hitti Hjalta Sigurð litla frænda minn í fyrsta skipti og komst við.
Ég var svo til í að vera á ferðalagi. Það gripu mig síendurtekið tilfinningar úti í Þýskalandi sem ég vissi ekki að ég ætti til, ég saknaði hafsins og íslensku náttúrunnar svo mikið. Ég þráði að sá fjöll og dali, alla litina og síbreytilegt landslagið. Ég þráði að komast út á land. Ég þráði að geta litið út um gluggann og sjá Esjuna eða hvaða annað fjall sem var. Þess vegna var ég afar kát úti í náttúrunni og hefði þess vegna alveg getað verið lengur.

Ég kom heim á miðvikudegi.
Á laugardegi var Vínkonugrín 2013 haldið hátíðlegt. Það var gaman, gott að hitta allar skvísurnar og eins og fyrr var rætt um ástina, nú á akademískari hátt en oft áður, við dönsuðum afródansa og sýndum stuðning í Druslugöngunni. Drukkum bjór og nutum sólar. Sjænuðum okkur í sundi og skáluðum á bryggjusporði. Borðuðum lúxushamborgara og sungum eins og miðaldra konur í Smáíbúðahverfinu við undirleik herramanna. Hópurinn fullorðnast hratt, börn eru komin í heiminn eða á leiðinni, giftingar og háskólagráður hrannast inn. Mikið þykir mér vænt um þessar MH snúllur.

Ég tjillaði úr hófi fram í síðustu viku, drakk kaffi á kaffihúsum borgarinnar sem og bjór. Byrjaði að vinna á Póstinum sjöunda sumarið mitt. Það gleður mig ósegjanlega. Ég er alltaf algjör hamingjuköttur bæði við að flokka bréfin og bera þau út. Hugurinn fer á flug og dagdraumar taka öll völd. Það er svo gott að fá næði til að hugsa rétt eins og hreyfinguna sem hundruðir trappa veita.

Síðan ákvað ég að fara á Ísafjörð í Mýrarbolta með Önnu Margréti snillingi. Við vorum í því frækna liði Frænkur á pungnum sem takk fyrir pent vann mótið. Ég er því Evrópumeistari í Mýrarbolta. Ég hef aldrei unnið neitt. Ég er enn high on life. Þvílík gleði! Ekki nóg með það heldur vann ég einstaklingsverðlaunin „drulluteygja kvenna“ fyrir einhverja forláta teygju sem ég á að hafa tekið fyrir úrslitaleikinn. Ég þakka P. Markan fyrir.
Ásthildur og Gummi sem og Anna Margrét deila titlinum „fólk helgarinnar“. Skötuhjúin fyrir að vera fáránlega góð við mig, Anna Margrét fyrir að vera óborganlega skemmtileg.



Ég er enn að jafna mig eftir þetta allt saman en hef nú sagt lélegu formi stríð á hendur og mætti í fyrsta Víkingaþreks 101 tímann minn í gær og ætla að rifja upp gamla handboltatakta í Víkinni góðu í kvöld.

Ísland er gott af því að það er heima, tíminn líður hjá á milljón og allt er alltaf eins. Það þykir mér hinsvegar um leið svolítið erfitt og það er auðvelt að detta í sama gamla farið aftur, sama gamla farið sem ég var búin að velta fyrir mér fram og tilbaka fjarri heimahögunum og ákveða að gera öðruvísi. Nú er að duga eða drepast og gleyma ekki öllum góða hugnum og öllum fyrirheitunum. Nú er að njóta það sem eftir lifir sumars áður en alvaran tekur við. Ég finn hvernig tilvistarkreppan læðist upp að mér, eins og hún gerir alltaf á tímamótum. Ár eftir – hvað svo?


Eitt er samt ljóst eftir allt undanfarið – það reddast alltaf allt. Alltaf.