Anna Rut vinkona mín (og afmælisbarn dagsins!) benti mér á það fyrir nokkru að einn daginn hættir maður að láta hugann reika. Eða manni er að minnsta kosti hætt við að láta hugann hætta að reika. Það hef ég aldrei áður hugsað um og hef velt fyrir mér; látið hugann um það reika, í allan dag.
Einn daginn ráða flestir sig í vinnu og þar á hugurinn að vera við vinnuna frá níu til fimm en ekki reika. Maður á að einbeita sér að aðfaragerðum og bókhaldi, útreikningum og samningum. Ef maður vill velta fyrir sér lífinu og tilverunni, dauðanum og himinhvolfunum þá á maður vinsamlegast að gera það utan vinnutíma. Þetta getur ekki verið hollt. Smám saman hlýtur maður að missa möguleikann á því að láta hugann reika, vaða úr einu í annað og byrja svo upp á nýtt og koma svo aftur að hugsuninni og samtalinu eftir nokkrar mínútur og gleyma sér svo og koma svo aftur að því o.s.frv. o.s.frv. Einhverntímann hættir maður þá að vera sveimhugi. Ætli það sé ekki það sem oft er kallað að fullorðnast? Sennilegast er það í raun og veru bara það að hætta að leyfa sér að hugsa um hluti sem aldrei verða mögulegir, hugsa um ástir og örlög sem aldrei verða, hugsa um ferðalög sem aldrei verða farin, hugsa um samtöl sem aldrei verða sögð, en líka að hugsa um fullt af hlutum sem verða að veruleika og finna drifkraft og hugarflug taka mann á loft.
Í vinnunni minni geri ég ekkert nema láta hugann reika. Ég er með sjálfri mér klukkustunum saman, stundum regndropum eða sólargeislum, stundum heilsa kettir forvitnilega upp á mig eða hundar gera mér grikk. En alltaf erum ég og hugsanirnar saman og munum alltaf vera. Ég arka í þögninni en oft ærandi hugsununum. Það er það sem ég kann einna best við starfið, en þakka samt oft fyrir að klárist við sumarlok. Þetta er nefnilega líka svo erfitt, maður er svo uppfullur af þrám og möguleikum og veður svo mikið úr einu í annað að maður verður hálf þreyttur á sálinni. Kannski verð ég bara léttgeggjuð af þessu hugseríi öllu. Það er sturlað. Sturlað gott.
Ég er allavegana komin með markmið fyrir lífið: hætta aldrei að láta hugann reika.
Að því sögðu:
ég hlakka svo til að opna mér bjór í kvöld.
Að því sögðu:
ég hlakka svo til að opna mér bjór í kvöld.
|