1.10.13

Það verður ekki sagt annað en það gefi gott í hjartað að búa við fallegustu götu í Reykjavík og ganga meðfram Tjörninni á leiðinni í skólann á hverjum degi. Að horfa á Hallgrímskirkjuturn gnæfa yfir Þingholtin, sjá Fríkirkjuna og Listasafn Íslands hinum megin við fuglana og hólmann. Það er svo gott að vera búin að þrífa og finna heimilisandann koma yfir íbúðina. Bráðum verður eldað. Bráðum set ég upp bókahillur svo kassarnir þurfi ekki að standa lengur á gólfinu. Bráðum verðum við rauðvínslegnar og flottar. Staulumst heim. Hoppum í rúmum. Grínum og glensumst.

Leiðinlegast við að vera flutt að heiman akkúrat núna er hvað ég hef fáránlega mikið að gera og get lítið notið og nostrað. Fáránlega mikið að gera. Sá sem hélt því fram að meistaranámið væri eitthvað slakara en grunnnámið í lögfræðinni var að ljúga. Vissulega finnast mér kúrsarnir og verkefnin áhugaverðari og skemmtilegri sem gerir þetta auðveldara, og prófatíðin verður kannski ekki alveg jafn sturluð - en álagið er gríðarlegt. Ég tek ekki vægar til orða. Mér verður oft hugsað til allra dagana sem ég hafði ekkert fyrir stafni s.l. ár og væri til í að taka eins og tuttugu og fá að dreifa þeim á næstu vikur og mánuði, þegar mér hentar.

Ég er að reyna að borða minna. Af því ég borða svo ótrúlega mikið og það þýðir að ég þarf að fara svo oft í Bónus og þarf að eyða svo mörgum peningum og hugsa svo mikið. Eða svona. Ég er aðeins að athuga hvað ég þarf í raun og veru að borða mikið. Miðað við það að ég lifi fyrir að fara á Víkingaþreksæfingar þá þarf ég að borða frekar mikið. Þær eru fullkomlega að halda í mér lífinu - besti tími dagsins er þegar svitinn lekur af mér og mér líður eins og ég sé alvöru massi. Ég er með vöðvafíkn :( Ég skal hnykla vöðvana fyrir ykkur ef þið viljið, ég er hvortsemer að því í tíma og ótíma þessa dagana.

Dóra fór til Berlínar í morgun að læra þýsku og njóta og lifa. Ég get ekki sagt annað en örlað hafi á öfund. Ég þrái smá Þýskaland. Smá þýsku. Þá er bara að leyfa sér að loka augunum í nokkrar mínútur og hlusta á þýskt popp. Þá örlar á brosi en ekki öfund. Svo bauð Steindór upp á svo góðar kræsingar í afmælinu sínu um helgina að ég vissi ekki hvaða föðurlandi mínu ég væri stödd, á Íslandi, í Bandaríkjunum eða Þýskalandi.