30.9.15

Fyrir akkúrat ári síðan keypti ég Bergþórugötuna og flutti inn með allra besta Krumma. Hver dagur með honum er ljúfur og góður og Bergþórugatan hefur verið heima frá fyrsta degi. Það er best.

Í dag er einn af þeim dögum sem koma sirka einu sinni á ári - dagurinn þar sem ég hlusta á White Pony með Deftones og finn angist unglingsáranna hellast yfir mig en brosi út í annað um leið.

Ég er enn að reyna að átta mig á því hvernig lífið er þegar maður hættir að geta talið það í fyrirfram ákveðnum árum...
Grunnskóli - 10 ár.
Menntaskóli - 4 ár.
BA gráða - 3 ár.
Meistaranám - 2 ár.
Lífið - endalaust, en samt svo stutt.

Góð vinkona mín sagði mér að maður ætti að búa sér til sitt eigið X ára plan. Ég er búin að ströggla við það. Það er kannski enn skrýtnara að kunna ekki bara að lifa fyrir stað og stund, hér og nú. Kannski þarf maður alltaf að stefna að einhverju æðra, komast lengra, verða betri.
Það er svo vont að finnast maður ekki kunna neitt, ekki geta neitt, ekki vita neitt. Kannski er það líka hollasta tilfinning í heimi, ef hún staldrar stutt við. Það er svo geðveikt að vita allt um eitthvað, vera öruggur með sig og kunnáttuna og vera on it. Einn daginn ætla ég að vera þannig.

Kannski lokaði ég eyrunum fyrir því eða hreinlega átti aldrei í samræðum við fólk sem var nýhætt í skóla og fór að vinna en ég man ekki eftir að hafa heyrt mikið um ákveðna tómarúmið sem myndast við þessi kaflaskil sem ég er einhvernveginn ennþá að átta mig á, rúmu ári eftir að þau áttu sér stað. Undanfarið hef ég rætt það við ýmsa og mér virðast velflestir hugsa það sama - allt í einu er einhver tími til staðar, minna skipulagt félagslíf, laus kvöld og helgar langoftast og enginn hveit hvað á að gera við allan tímann. Þess vegna eignast jú allir börn í hrönnum í kringum mig núna, ekki satt? Það er fátt jafn tímafrekt og börn.
Ég hef alltaf verið svakalega upptekin síðan ég var lítil. Núna mæti ég í vinnuna og ég fer í Mjölni. Það þykir mér afskaplega skemmtilegt. Það er samt ekki beint áhugamál. Ég veit ekki á hverju ég hef áhuga. Ég veit ekki hvað gefur mér mikið til baka. Ég veit ekki hvar á að byrja. Á ég að vera göngugarpur? Golfari? Tómstundasmiður? Heklari? Ganga í kór? Björgunarsveit? Möguleikarnir eru endalausir, ég veit ekki hvar á að byrja. Ég hef aldrei dolfallið fyrir neinu. Mér hefur þótt gaman af félagsstarfi ýmiss konar og lifið og hrærst í því. Ekki langar mig að starfa innan stjórnmálaflokks, oniii.

---

Stundum velti ég því fyrir mér hvers vegna ég sest ekki oftar niður og skrifa eins og ég hef gert sl. billjón ár. Ég held að ég sé ekki andlausari en áður eða uppteknari - ég er bara að gera aðra hluti. Ég sit ekki ein við tölvuna í þungum þönkum eða lestri lögfræðibóka heldur er stöðugur straumur tölvupósta og áreitis. Hugurinn fer ekki á flug um miðjan dag um tilvistarlegar spurningar eða annað háfleygt.
Það er hvorki betra né verra, bara öðruvísi.