30.12.15

Áramót finnast mér alltaf svolítið merkileg. Eftir að ég byrjaði að vinna og árið skiptist ekki í annir heldur bara ósköp venjulegar árstíðir sem líða áfram þá eru þau eiginlega enn merkilegri. Það er svo hollt og gott að staldra við, líta yfir farinn veg og huga að því sem koma skal.

Mér finnst ennþá hálf furðulegt að vera bara eitthvað að vinna, finna fyrir ábyrgð, þurfa að hugsa um eitthvað annað en bara mig eina.  Ég hefði verið til í einhverskonar „lífsleiknitíma“ á meðan ég var í náminu þar sem mér yrði gerð grein fyrir breytingunum og muninum á því að vera í skóla  annars vegar og á vinnumarkaðnum hins vegar. Ég segi það því hér fyrir einhvern sem ekki hefur velt því fyrir sér– það er munur. Mikill munur. Allt er öðruvísi og mér finnst það skrýtið. Alls ekki verra, bara svo allt öðruvísi.

Árið var gott. Krummi er bestur og ég naut hverrar stundar með honum og mun halda áfram að gera.

Sultukrukkudómurinn lauk annarri þáttaröð sinni af hlaðvarpsþáttum um lagalegar hliðar hversdagsins. Ekkert hefur verið ákveðið um fleiri þáttaraðir, en þetta var ótrúlega gaman.

Það voru endalausar lægðir í byrjun árs sem lituðu lífið svolítið. Maður gat gert lítið annað en hjúfra sig upp að sófaum og hlusta á vindinn.

Við vinkonurnar drógum menn og fleiri í skíðaferðalag til Akureyrar í mars. Ég hef aldrei áður farið í skíðaferðalag og mér fannst það frábært. Þetta er eitt af því sem stendur upp úr á árinu. Ég prófaði snjóbretti í fyrsta sinn og það þótti mér afar skemmtilegt. Við lentum í versta veðri sem ég hef lent í á ævinni í Hlíðafjalli, ég vissi ekki hvort ég var á ferð eða ekki þegar ég renndi mér niður brekkuna í bylnum. Við urðum síðan veðurteppt í Staðarskála og þurftum að gista á Reykjum. Það var eiginlega líka frekar skemmtilegt.

Í lok maí fór ég í árshátíðarferð til Amsterdam með J&L. Það var mjög gaman! Ný borg, nýtt fólk, ný gleði.


Allra bestar.
Aðeins örfáum dögum síðar fór ég til Parísar með bestu vinkonum mínum. Þaaað var gaman. Við dandöluðumst og versluðum og borðuðum góðan mat. Settum hverfisbarinn á annan endan með DJ töktum.



















Í sumar vann ég síðan aðallega og saknaði Póstins að sjálfsögðu. Og geri stundum enn.

Ég fór reyndar í mjög skemmtilega útilegu að Smáratúni með góðum vinum. Einhvernveginn var allt fullkomið. Veðrið, vinirnir, staðurinn. Og við fórum þangað í Teslu, sem var aaalltof nett.
Biggi tók þessa fínu mynd.

Við Krummi kíktum á Snæfellsnes og fastir liðir eins og Vínkongurín voru að sjálfsögðu til staðar yfir sumartímann.


Ég er svolítið í því að finna mér einn tölvuleik og spila hann ótakmarkað þangað til ég finn mér nýjan. Í fyrra var það 2048.  Í ár fann ég Twenty og ég spila hann enn af fullum krafti. Dýrka að geta lagst í sófann og spilað óáreitt eftir vinnu. Það eru algjörar gæðastundir. Ég held að ég þurfi að finna mér áhugamál ...

Mið-Ameríka í svartasta skammdeginu er sennilegast besta hugmynd sem við höfum fengið. Ferðalagið endurnærði okkur fullkomlega. Sólin gefur svo mikið og gott. Það var alltof gaman! Ég hefði viljað vera í þrjá mánuði í viðbót að njóta, skoða og upplifa. Þessi tími var þó alveg frábær og Krummi besti ferðafélaginn. Ég mæli með Níkarakva sérstaklega, en Kosta Ríka líka, fyrir alla sem vilja ferðast á framandi en góðar slóðir.

Mjölnir spilaði stóra rullu í lífi mínu sem fyrr. Ég er sjaldan ánægðari en á og eftir góða æfingu þar. Hreyfingin gerir mér svo gott bæði líkamlega og andlega. Ég keppti m.a.s. á Mjölnisleikunum sem gerði mig svolítið monta með mig. Ég er mjög sátt við hvernig ég lít út – ég veit ekki hversu margar 26 ára stelpur eru það. En ég er það og það er frekar mikið næs. Og mér finnst ég með fallegt hár. Það er djöfulli næs að vera sátt við sjálfa sig.

Þetta er uppáhaldsmyndin mín af mér árið 2015.
Ég komst að því að síbygljan nær til mín á ótrúlegasta hátt. Í vinnunni er svakalega fín kaffivél og alltaf þegar ég fæ mér einhverskonar latté hugsa ég að það sé nú svo svakalega fitandi. En það er samt bara smá mjólk í henni. Sem ég drekk allajafna annars. Hvernig gerist þetta?







Sjáiði okkur?!?!?







Allir og amma þeirra eignuðust börn í ár. Ekki ég. Það er mjög gott. Huldar litli frændi minn er að sprengja í mér hjartað. Hann er aaalveg. Það er ótrúlega gaman að sjá alla þessa einstaklinga í kringum sig vaxa og dafna og allar vinkonur mínar verða mæður.









Ég er ánægð og þakklæt og meyr yfir frábæru vinkonum mínum, vinum og fjölskyldu. 
Bjarmalandsbörn.

Á nýju ári hef ég ákveðið að ég muni kaupa mér nýjan síma og leggja ifón 4. Ég held að það sé u.þ.b. það eina sem ég hef ákveðið fyrir utan að halda upp á afmælið mitt sem fyrr. Kannski ég reyni að hætta að sofa jafn mikið og unglingur í vaxtakipp. Verða þekktari en Krummi?
Og gera ennþá meira skemmtilegt. 

Það er það mikilvægasta – að vera hamingjusöm.


Hamingjusöm á Manuel Antonio, Kosta Ríka.
¡Hola 2016!