13.6.16

Úr ýmsum áttum:

Er ekki eitthvað magnað við það að ég og Atli höfum skrifað nánast algjörlega sömu minningagrein um ömmu okkar, m.a. um lyktina í bílnum hennar með þunga stýrinu? Ég fann þessa lykt áðan. Það var mjög gott.

//
Ég ætla bara að segja það - mig langar í hús með garði þar sem síðdegissólin skín og ég get setið eftir vinnu. Og mig langar í geymslu. Ég hélt að ég væri einhvernveginn nægjusamari í húsnæði, en núna langar mig bara í þennan garð og þessa geymslu. Ég er of vön því að geta vaknað um helgar aðeins fyrr en ég ætlaði mér, líta út um gluggann í einbýlishúsi foreldra minna í Fossvoginum, trítla út á verönd og flatmaga á sólbekk. Ef ég ætti þetta þá myndi ég kannski líka eiga strákúst og gæti sópað tröppurnar mínar betur.

//
Ég er eiginlega að pissa í mig af spenningi fyrir því að fara í ferðalag til framandi landa. Það er ótrúlegt hvað ferðalög fylla mann af einhverri óútskýranlegri orku, þrá og vissu um að lífið geti hreinlega ekki verið betra. Ég ætla að reyna að nýta innblásturinn á ferðalaginu og skrifa sem mest og hugsa sem mest. Njóta sem mest, lifa sem mest.
Muna samt líka að ströndin er alltaf aðeins meiri sandur og salt en mann minnir.

//
Ég man enn tilfinninguna þegar ég fór með pabba á bókasafnið í kjallara Bústaðakirkju og valdi mér bækur. Ég renndi í gegnum allar hillurnar og valdi mér alltaf alveg góðar 5-6 bækur. Las ég allar þessar bækur?  Ég man líka ennþá eftir lyktinni þar. Kringlusafnið hefur engan sjarma.

//
Pælið í að vinna 4500 milljónir - fjögurþúsundogfimmhundruð milljónir - í Víkingalottó. Hvað myndi maður eiginlega gera? Missa vitið?

//
Er eitthvað að mér ef ég verð hálf meyr við að fyrsti leikur karlalandsliðsins á EM sé í beinni á bæði RÚV og í Sjónvarpi Símans? Allir vinir þegar gengur vel.

//
Ætli ég hætti einhverntímann að þurfa að sofa 9 tíma á nóttu og vakna samt þreytt?