17.7.16

Ég veit varla hvaða dagur er í dag. Ég er enn að ná mér af tímamismuninum og flugþreytunni, ég hélt einhvernveginn að bara gamalt fólk lenti í svona miklum ruglningi vegna tímamismunar en við erum enn að ná okkur, reyna að fara seinna að sofa en 21 og vakna sjaldnar en þrisvar á nóttu og vera glaðvöknuð um 6. Það kemur allt með kalda vatninu.

Fyrstu dögunum eyddum við í Singapúr. Kristín Maríella mín kæra æskuvinkona, Orri og Ylfa tóku höfðinglega á móti okkur. Kristín þræddi okkur um borgina og sýndi okkur áhugaverða staði. Ég kunni mjög vel við Singapúr, mér fannst hún mun skemmtilegri og viðkunnalegri en ég átti von á. Hún er kannski ekki iðandi af mannlífi og kaosi eins og margar borgir í þessum heimshluta en það getur líka verið þreytandi til lengdar. Kannski er það ferkantaða ég sem fíla og finnst merkilegt að það sé hægt að halda uppi röð og reglu án þess að fólki finnist það vera undir ægivaldi einhvers. Kannski lúrir ótrúleg kúgun á bakvið allt og öllum líður illa, en ég fékk það ekki á tilfinninguna af þeim samtölum sem ég átti um ríkið…

Við ákváðum að við þyrftum að komast á strönd sem fyrst og ná að hlaða nokkuð tóm batterí, Krummi eftir vinnu sl. mánuð og ég eftir margar stórar tilvistarlegar spurningar 🙂

Hér erum við því mætt á sannkallaða paradísareyju, Tioman, sem er suður af Malasíu í Suður Kínahafi. Sjórinn er sá tærasti sem ég hef séð. Þetta er algjör ævintýraeyja eins og maður myndi lesa um í barnabókum, strönd við sjóinn en brattar hlíðar þaktar trópíkölskum gróðri hátt, hátt upp. Þegar maður lítur upp skógi vaxnar hlíðarnar sést hvernig hæðin laðar að sér regnský og þokan er ekki langt undan.

Við gengum um 5 km yfir í næsta bæ í morgun í gegnum skóginn og sáum hin ýmsu dýr, okkur til mikillar ánægju. Á einum stað sáum við þá allra minnstu froska sem ég hef séð, þeir voru á stærð við húsflugu. Á öðrum stað sat apafjölskylda þétt saman í röð, mjög stórir íkornar hoppuðu milli trjágreina og stórar eðlur röltu um. Hér eru líka allskonar lituð fiðrildi og allt fullt af bonzai trjám, mismunandi pálmatrjám og kókoshnetur falla í jörðina. Hér eru kettir allt útum allt, sem er svo litlir og sætir með snöggan feld og mig langar að klappa þeim öllum. Þeir eru góðir hver við annan og þeir liggja makindalega í sólinni. Ég áttaði mig á því að ég held ég hafi aldrei séð ógeldan fress áður …

Við sáum þá allra stærstu fiskitorfu sem ég hef séð við bryggjuna, þar voru líka marglitaðir fiskar og krabbar og kolkrabbar.

Við ætlum að vera hér í fjórar nætur, snorkla og svamla um í sjónum. Hér eru ekki margir ferðamenn, en öll grunnþjónusta sem maður óskar sér.

Við vitum ekki alveg hvert við förum næst, eitthvað áfram í Malasíu. Mér finnst magnað hvað Malasía virðist gleymast í ferðalögum fólks, enn sem komið er er þetta hið minnsta frekar magnað land, ódýrt (annað en Singapúr sem kostar sirka jafnmikið og allt á Íslandi), góður matur, allir tala ensku og ætti þess vegna að vera svona “auðvelt ferðalag en samt framandi”.

Þangað til næst.