7.8.16

Við erum búin að vera á ferðalagi í smá tíma núna. Mér finnst við raunar hafa verið mjög lengi á ferðalagi, en samt er meira en minna eftir. Það er alveg geggjað.



Mér fannst Taíland eitthvað…undarlegt. Við fórum ekki mjög ótroðnar slóðir þar, fórum á nokkrar eyjar sem eru hver annari fegurri - en samt ekki. Hvert sem litið er eru ferðamenn og fátt annað en þeir og sölubásar sem selja sama draslið eða góssið, eftir því hvernig á það er litið. Engum er hægt að treysta hvað varðar verð, maður á alltaf að prútta sem er leikur sem mér finnst ekkert sérstaklega skemmtilegur. Mér finnst ég aldrei „vinna“, heldur sit alltaf eftir og hugsa með mér hvort ég hafi verið að borga alltof mikið fyrir það sem ég var að kaupa. Jafnvel þótt verðið hafi lækkað um helming frá uppsettu verði. Mér fannst ég kannski ekki skynja Taíland sem „hið sanna“ Taíland. Meira eins og að fara til Benedorm og hafa þannig komið til Spánar - það hlýtur bara að vera meira og áhugaverðara. 

Það er eitthvað fyndið við það að ferðast og vera ferðamaður, alla langar að upplifa eitthvað einstakt, sjá eitthvað sem enginn veit um, finna þetta nýja, en samt er maður alltaf bara á sömu stöðunum og allir hinir. Það getur verið krefjandi að fara af túristaleiðinni, og oftast er ástæða fyrir því að fólk fer á staðina sem eru vinsælir. Það er alveg ástæða fyrir því að ferðamenn á Íslandi fara Gullna hringinn, hann er merkilegur. En hann verður það einhvernveginn minna þegar allir fara þangað. Þetta truflar mig, mér finnst eins og ég sé aldrei að upplifa nægjanlega mikið „alvöru“. En staðirnir sem maður fer á eru alvöru, eins og þeir eru. Benedorm er alvöru, bara soldið annað en kannski Madríd eða Barcelona.

Við erum líka að fara nokkuð hratt yfir, það væri alveg gaman að velja sér land og vera bara í því í nokkrar vikur, fara hægt yfir og sjá fleiri staði. En það er líka gaman að skoða ný lönd. Mér fannst magnað hvað ég fann mikinn mun á Taílandi og Kambódíu eiginlega um leið og við vorum komin yfir landamærin. Það var allt annað vibe. Allt annar taktur, allt annað landslag, miklu grænna. Og ég fílaði það miklu betur. Mér leiðist ekkert að vera í löngum rútuferðum um sveitir Kambódíu því landslagið er svo fallegt og með stuttu millibili sér maður börn í fótbolta á moldarvelli, hús byggð á himinháum grunni svo ekki flæði inn þegar hellirignir, búðir sem selja kjaftæði, menn að spjalla, hrísgrjónaakra, auðn…

Sennilegast finnst mér Kambódía nettari af því hún er minna þróuð en Taíland, eins ömurlegt og það nú er og ferðamannaiðnaðurinn er ekki orðinn það stór. Nóg er samt af tuktuk bílstjórum sem þreytast ekki á að spyrja mann hvort mann vanti ekki að fara eitthvert, kalla jafnvel á mann yfir stórar umferðargötur…

Við tókum ferju frá Kho Tao til Chumphon og eyddum þar helium degi. Það fannst mér eiginlega einn merkilegasti dagurinn af ferðalaginu okkar í Taílandi. Þar er ekkert merkilegt að sjá, enginn ferðamannaiðnaður og þegar ég hoppaði inn á það sem virtist vera fínt hótel og spurði hvort þau ættu kort hlógu stelpurnar í afgreiðslunni að mér og sögðu nei…Mér fannst Chumphon svo merkileg af því þar voru bara Taílendingar að gera sitt. Keyra um á sínum vespum. Elda sinn ljúffenga mat úti á götu.

Við biðum heilan dag eftir næturlestinni sem ók með okkur alla leið norður til Bangkok. Á brautarpallinum horfðum við á nokkrar lestir koma og fara. Börn í náttfötum leiddu foreldra sína, með spegilslétt svart hárið. Litill strákur kíkti út um gluggann á lestinni og veifaði okkur feimnislega. Atur og aftur og aftur. Vinir kvöddust, eftir að hafa ferjað farangri inn um gluggann á lestinni. Það eina sem vantaði upp á að við værum stödd í bíómynd var að vasaklútum væri veifað af konum með barðstóra hatta rétt áður en eimreiðin héldi tjútjúandi af stað.
Búddamunkur sat á bekk, reykti og borðaði snakk. Hann skildi ekki hvernig umbúðir með lofti virka og átti í mesta basli með að opna pokann. Þegar hann var búinn henti hann pokanum út í buskann. Mega munkar reykja, eða er það ekki lostafullt athæfi sem brenglar skynjun hans, eða eitthvað álíka? 

Þegar lestin loksins kom, kom ég mér fyrir í efrikoju í mun snyrtilegri lest en ég átti von á. Ég lokaði augunum og hugsaði með mér að fátt væri skáldsögulegra og rómantískara en að vera í næturlest á leið til Bangkok. Þangað til síminn minn hringdi og tryggingasölumaður vildi endilega segja mér frá uppfærðum skilmálum líf- og sjúkdómatryggingar VÍS. Hann dróg mig inn í raunveruleikann sem býr einhversstaðar hinum megin á hnettinum.

Eftir að rútan okkar bilaði á leiðinni til Siem Riep í Kambódíu og allskonar vesen ákváðum við að taka því smá rólega. Við erum búin að vera á frekar hröðu tempói og sannast sagna er það alveg smá álag. Gott álag en engu að síður álag. Ekki svo mikið um tjill og slökun. Allir á Íslandi eru örugglega brúnni en við, enda er hitinn frekar mikill og svitinn enn meiri.

Við ákváðum eftir að hafa slakað heilan dag að það væri frábær hugmynd að hjóla að Angkor Wat (sem eru mjögmjög gömul hof, google it) fyrir sólarupprás bara rétt fyrir utan bæinn. Til að gera langa sögu stutta misstum við af sólarupprásinni, mér hefur aldrei á ævinni verið jafn heitt og þetta var sennilegast topp 3 það erfiðasta sem ég hef gert á ævinni. Það var samt alveg gaman, svona. Og hofin voru merkileg. Eftir svona 30 km af hjólreiðum komum við upp á hótelherbergi fullkomlega uppgefin. Og ég varð eiginlega veik og er enn með kvef sem ég reyni að særa út með sterkum, Kambódískum mat.


Hingað til hefur held ég uppáhalds staðurinn minn verið Tioman eyjan í Malasíu. Kannski af því okkur líður svolítið eins og við höfum rambað inn á „falda perlu“ þar. Það eru ekki svo margir sem fara þangað, eyjan er gullfaleg og snorklið var himneskt. Mér hefur þótt alveg ótrúlega gaman að sjá alla endalausu litríku fiskana sem við höfum séð - allir litir hafsins eru svo sannarlega ekki bláir. Kórall er eitthvað það magnaðasta sem til er, í öllum regnboganslitum og líka neon. Algjörlega sturlað.

Það allra besta við að ferðast er að vera með Krumma. Við erum mjög gott teymi. Hann er svo skemmtilegur og honum finnst ég svo skemmtileg okkur leiðist aldrei saman og við rífumst aldrei. Það er það besta. Það er svo gott að elska.

Ég er ekki búin að finna mig. Raunar finnst mér ég varla hafa haft tíma til að hugsa einhvernveginn. Ekki mikið að staldra við og bara vera. Ég veit ekkert hvað ég vil eða ætla að gera. Annað en að vera glöð. Og halda fleiri partí.