Fyrsti viðkomustaðurinn okkar í Laos, Luan Prabang, er einhverskonar paradís. Laos virðist allt vera paradís. Allar hlíðar eru svo þétt vaxnar af trjám og gróðri og maður dáleiðist við að horfa í allar áttir. Þessi bær er afar aðlaðandi, þrátt fyrir nokkuð magn af ferðamönnum sem er samt svo miklu minna en t.d. í Hoi An í Víetnam sem hefur svipaða áru yfir sér.
Við fórum að Kuang Si fossinum í gær - þar á að vera hægt að baða sig í sægrænum laugum með drjúpandi vatn en þar sem nú er regntími þá var hann meira eins og beljandi á. Straumurinn svo mikill að maður hefði flotið alla leið niður til Víetnam á Mekong ánni. Fossinn var mikilfenglegur, svona eins og ef maður gæti staðið ennþá nær Gullfossi, en ég held að það sé ljóst að við verðum að koma aftur til að upplifa sældina sem felst í því að baða sig í náttúrunni. Einhverntímann ekki á regntíma.
Ég hef oft hugsað um Mekong ánna. Mér líður smá eins og ég sé komin á einhvern fyrirheitinn stað. Ástæðurnar eru samt ekki svo merkilegar, ég borðaði nokkrum sinnum með pabba og Atla á veitingastað í Sóltúni eða einhverri götunni þar, nálægt gamla Ármannsheimilinu. Mig minnir endilega að maðurinn sem hafi átt veitingastaðinn hafi verið gamall íslenskur fauskur. (Mér finnst einhvernveginn eins og pabbi hafi tekið okkur þangað kannski þegar mamma var í útlöndum, í minningunni er hún a.m.k. ekki með)
Allavegana. Svona hef ég tengt þessa risavöxnu á við eitthvað jafn lítið og íslenskan, frekar slappan veitingastað.

Það er frekar magnað að átta sig á hvað við erum ofboðslega lítil. Enginn veit hvað Ísland er. Ahh Ireland, Ireland segja allir. Við hittum nokkra skólakrakka í Hanoi sem vildu fá að spreyta sig í ensku, eins og við höfum reyndar lent þrisvar sinnum í, og ein stelpan sagði „Ah, Eiiffel Tower“en hin voru fljót að leiðrétta hana og segja „Nonono, Big Ben?“. Eyjuna í Norður-Atlantshafi hafa þau aldrei heyrt um. Enda, af hverju ættu þau að hafa heyrt um 330.000 manna þjóð með mikilmennskubrjálæði. Mér finnst þetta eitthvað hollt. Eitthvað gott.
Það er svo öfugsnúið, svo leiðinlegt, svo erfitt hvernig við viljum alltaf vera eitthvað annað en við erum. Í Suðaustur Asíu keppast konur (og reyndar karlmenn líka) um að vera sem hvítastar, á meðan ég keppist við að ná sem mestum lit á minn föla líkama. Fólk reynir að halda sig sem mest frá sólarljósinu á meðan ég reyni að stíga inn í það sem oftast. Snail White snyrtirvörur eru seldar út um allt, svo að konurnar geti nú verið sem hvítastar, meikað sig sem hvítastar og fræga fólkið er allt eins hvítt og það getur verið. Þetta er svosem ekkert nýtt. En djöfull er þetta eitthvað … öfugsnúið. Sjálf hafði ég svosem háleitar hugmyndir um skvísuna sem ég ætlaði að vera hérna, tók með mér maskara og varaliti sem ég notaði fyrstu dagana áður en ég varð svört í kringum augun af óhjákvæmilega svitanum sem hlýst af yfir 50% raka og 34 stiga hita. Ég endist með hárið slegið í sirka 7 mínútur áður en ég verð að setja það í tagl. Ég er meira í þægindunum en skvísulátunum, enda kannski líka fátt annað hægt þegar svitalyktin kemur upp um mann.
Karlmenn eru líka mikið í því að safna nöglum, til að sýna að fínar hendur þeirra þurfi ekki að vinna erfiðisvinnu. Ég er svo föst í norminu að mér finnst þetta eiginlega alveg viðbjóðslegt, karlmenn með svona langar neglur.
Víetnam var frekar nett land, en líka frekar brjálað. Brjálað á annan hátt en Tæland samt. Ég held að þjóðarsálin þar sé frekar aggresífari en t.d. í Laos, og þau grína mjög mikið. Hvert sem maður gengur er reynt að selja manni eitthvað, þó mun meira í Ho Cho Minh en Hanoi fannst mér. Þau eru samt alltaf svo létt á því, „Open hour heart, open your wallet“ sagði brosandi kona á einum af hundruðum sölubása sem selja nákvæmlega sama dótið og allir hinir.
Við vorum í svolítinn tíma í Hoi An, sem var mjög mikill léttir eftir að hafa verið í stórborginni Ho Chi Minh sem er með þá allra brjáluðustu umferð sem ég hef á ævi minni séð. Hoi An er fallegur, gamall bær sem er varðveittur af UNESCO. Við létum sauma á okkur föt og bakpokinn er orðinn frekar fullur. Klæðskerinn var svona frekar mikil tussa, en samt svo nett. Svolítið eins og ég ímynda mér flesta Víetnama - þeir eru bara frekar straight forward og geta komið út sem önugir, en eru svo alltaf bara að grína. Ég fílaði hana mjög vel.
Hanoi er slakari borg en Ho Chi Minh en við Krummi erum meiri náttúruunnendur en borgarunnendur, hið minnsta þegar við erum í svona löngu ferðalagi. Maður verður svolítið þreyttur af því að þramma um borgir og það getur verið erfitt að koma sér af stað einhvernveginn. Reyndar var líka hitabeltisstormur að fara yfir borgina á meðan við vorum þar þannig að við sáum mestu rigningu sem við höfum á ævinni séð, og alltaf bætti í. Stormurinn olli usla á ýmsum stöðum þótt við yrðum ekki vör við það, tré rifnuðu upp með rótum og það flæddi inn á ýmsa staði. Við heyrðum svo í fréttunum svona viku seinna að stormurinn væri enn að valda usla, núna í Indlandi!
Við fórum í siglingu um Halong Bay og guð minn góður - það er einhver magnaðasti staður sem ég hef komið á. Þrátt fyrir mikla fjölgun ferðamanna þar undanfarin ár þá fannst mér það ekki trufla mig neitt. Við sigldum og horfðum á hundruðir kletta, eða eyja, eða hvað sem maður kallar þetta náttúruundur sem kemur upp úr sjónum með litlu millibili og gnæfir yfir allt. Við fórum á kajak í gegnum „fiskimannaþorp“ sem er þar, fólk sem hefur byggt hús á flekum á sjónum og býr og starfar þar. Þeim hefur snarfækkað undanfarið og þetta er jafnvel bara þarna meira fyrir ferðamennina en að fara þarna um á kajak í kyrrðinni…ómetanlegt.
Eftir því sem ég eldist, eins öfugsnúið og það er, þá hef ég mun meiri áhuga á dýrum en áður. Ég gæfi mjög mikið fyrir að geta átt kött en verð að láta mér nágrannaköttinn nægja vegna ofnæmis. Við höfum áhuga á öllum dýrum, stórum sem smáum, stoppum oft til að skoða einhverjar pöddur og pössum okkur á að stíga ekki á maura sem eru á leið til og frá vinnu. Það situr mjög í mér minning frá því þegar við vorum í næturskógarferð í Kosta Ríka og leiðsögumaðurinn sagði okkur að passa okkur á að stíga ekki á maurana. Ekki af því að þeir væru hættulegir heldur af því þeir eru líka mikilvægir, þeir skipta líka máli. Þetta glæðir ferðalögin miklu lífi, það er svo skemmtilegt að fylgjast með náttúrunni í kringum sig. Jafnvel bara sofandi hundur gleður. Það er alltaf þetta litla.
Við erum núna komin til Laos eins og áður sagði og sl. dagar hafa verið frábærir. Við erum búin að sofa tvisvar yfir okkur að horfa á munka-athöfn sem hefst kl. 5.30 en það er alltaf morgundagurinn…
Núna erum við í þeim stórkostlegu vandræðum að við erum að renna út á tíma, okkur langar til Myanmar en langar ekki að þjóta í gegnum Laos né Myanmar. Við getum ekki ákveðið hvort við eigum að slaka bara vel á hér, eða fara hraðar í gegnum bæði löndin. Einn daginn tökum við ákvörðun.
Einn daginn komum við líka heim og það verður gaman en líka smá skrýtið. Hvað tekur við er ennþá algjörlega óljóst, sem er bara fínt en stundum smá stressandi líka. Allar hugmyndir eru alltaf vel þegnar.
|