9.9.16

Það er vond lykt af öllum fötunum mínum. Ég svitna nokkrum lítrum af svita á hverjum degi, bara með því að vera til. Það er svo óþægilegt að sofa bara með lak ofan á sér á nóttunni, maður saknar þyngslanna sem felast í sænginni. Mig hefur aldrei á ævinni langað jafn mikið í lakkrís. Ég hugsa um hinar ýmsu útgáfur af svarta blóðþrýstingsnamminu á hverjum degi. Krumma finnst lakkrís og vatnsmelónur ekki góðar - og hann kallar mig skrýtna skrúfu! Hvernig getur heimurinn allur ekki áttað sig á hvað saltur lakkrís er guðdómlegur?

Þrumuveður er svo skemmtilegt veður! Svo mikill kraftur, svo mikil rigning!

Það tekur því ekki að þvo, það er svo stutt þangað til við fljúgum til Þýskalands og drekkum bjór í lítravís með stórfjölskyldunni minni. Ég hlakka mikið til að fara til fyrirheitna landsins, fyrirheitnu borgarinnar sem ég gæti svo vel hugsað mér að búa í til frambúðar. Það er eitthvað alveg ótrúlegt við München, eitthvað sem náði mér alveg eins og það náði pabba mínum 1975 og dregur hann þangað á hverju einasta ári að heimsækja sömu staðina, drekka Augustiner Helles og bara vera.

Fyrst tekur sturlun Bangkok við. Þar ætlum við samt að vera á hóteli með sundlaug af því það má bara alveg. Ég ætla ekki að taka bolina sem eru með götum á heim.

Þegar ég hef ferðast til staða tek ég betur eftir fréttum þaðan, læt þær skipta mig meira máli. Fréttapakkinn er búinn að stækka allverulega síðustu vikur. Obama var m.a.s. í Laos í vikunni og lofaði að leggja meira í að finna ósprengdar sprengjur sem enn er að finna á ýmsum stöðum í sveitum Laos eftir seinni heimsstyrjöldina, þegar Bandaríkjamenn og Víetnamar áttu í stríði.
Djöfull er stríð grilluð pæling.

Núna er ég mjög andvaka (klukkan er 2 hér hinum megin á hnettinum) og ég er smá að bilast. Ég ímynda mér helst að undirmeðvitundinndi sé smá órótt um óráðna framtíð líkamans sem hér liggur.