30.12.16

Janúar

Í janúar á ég afmæli. Það er það helsta markverðasta sem gerist í þessum dimma mánuði á ári hverju auk þess sem daginn fer að lengja og það gleður alltaf, þótt aldrei gerist það nógu hratt. Ég hélt uppteknum hætti í ár og hélt upp á það á Bergþórugötunni með limbókeppni og almennum veisluhöldum.


Febrúar
Samkvæmt samfélagsmiðlum gerðist eiginlega nákvæmlega ekkert skemmtilegt í febrúar og sá mánuður er mér heldur ekki eftirminnilegur svona núna þegar lít til baka.


Mars
Í mars átti Krummi afmæli og ég vann allan afmælisdaginn hans. Síðan fór ég á árshátíð Mjölnis. Og Sigmundur Davíð mætti í stórkostlegasta viðtal ársins, ég fæ enn kjánahroll þegar ég horfi á það. Megi hans pólitíska ferli ljúka sem fyrst.


Apríl
Stjórnmálafíaskóið hélt áfram og maður gerði fátt annað en að fylgjast með fréttum. Höskuldur Þórhallsson var stjarnan.


Í apríl fór ég hringinn í kringum landið á örfáum dögum með Andra Snæ í tengslum við vinnuna mína. Það var frekar merkilegt að upplifa og vera í kringum forsetaframboðið allt saman.


Maí
Í byrjun maí fór ég að velta ferðalögum nokkuð alvarlega fyrir mér, allar aðstæður buðu einhvernveginn upp á það. Ég sagði ég upp á J&L. Ég er mjög ánægð með það. Það var rétt ákvörðun og við Krummi tókum síðan ákvörðun um að drífa okkur bara til útlanda í rúma tvo mánuði.


Þann 30. maí varð ég síðan 10.000 daga gömul! Magnað!


Júní
Fyrstu helgina í júní drifum við okkur með Gyðu Lóu, Gunna, Evu Sigrúnu og Samma í útliegu í Hvalfirðinum og gengum upp að Glym. Það var alveg hreint yndislegt.


Ég horfði á fótbolta eins og allir aðrir á Íslandi í júní. Það var auðvitað stórkostleg skemmtun.


Við kusum okkur forseta í lok júní og ég vann við þær sem var stórkostleg skemmtun. Guðni Th. hefur komið mér skemmtilega á óvart og mjög gaman að eiga alþýðlegan forseta.


Júlí
Þetta viðtal var tekið við mig í byrjun mánaðarins um þá „ótrúlegu“ ákvörðun að segja upp í vinnunni minni og fara að gera eitthvað allt annað.

Út kom bókin Ástarsögur íslenskra kvenna en þar á ég eina um það hvernig við Krummi kynntumst. Mamma mín sagði að þetta væri nú ekki beint ástarsaga heldur meira fylleríssaga - hefjast ekki allar góðar ástarsögur þannig núna?


Um miðjan júlí flugum við til Singapúr með millilendingu í Frankfurt. Ég held ég listi ferðasöguna ekkert nánar upp, annað en að Kristín Maríella, Orri og Ylfa eru höfðingjar heim að sækja, Tioman í Malasíu er paradís á jörð og það er mjög heitt í suðaustur Asíu yfir íslenska sumarmánuði.









Ágúst
Í ágúst vorum við í þessum löndum:

  • Tælandi
  • Kambódíu
  • Víetnam
  • Laos


Laos var eiginlega alveg örugglega uppáhalds landið mitt.


Þetta var svo ógeðslega gaman. Vá.




September
Eftir ótrúlegar vikur í Laos fórum við til Bangkok þar sem við versluðum og nutum á fínu hóteli. Á flugvellinum í Bangkok keyrði bíll með pallettur í aftanídragi yfir litlu tána mína. Ég vona að það sár muni gróa á næsta ári. Það væri mjög æskilegt.



Við enduðum ótrúlega skemmtilegt ferðalag í München með stór-föður-fjölskyldunni minni á Októberfest. Ég hitti þýska vini mína sem er alltaf jafn ótrúlega skemmtilegt og gefandi. München er líka ein af mínum allra uppáhaldsborgum. Þar líður mér eins og ég sé heima.


Það var gaman að koma heim til Íslands. Bergþórugatan er svo ljúf og góð. Hér líður okkur vel.


Október
Í lok október var kosið til Alþingis. Ég starfaði á skrifstofu borgarstjórnar við framkvæmd kosninga. Það þótti mér alveg hreint ótrúlega skemmtilegt. Það er fátt skemmtilegra en að koma að kosningum. Á kjördag sat ég síðan í hverfiskjörstjórn í Laugalækjarskóla í annað sinn og hlakka til að gera það um ókomin ár. Starfsfólk skrifstofu borgarstjórnar er það besta og það er alltaf gaman að koma í Ráðhúsið þótt kaffivélin sé ekki upp á marga fiska.


Nóvember
Í nóvember hóf ég störf hjá Rauða krossinum sem verkefnastjóri á samskiptasviði. Það hefur verið alveg magnað að kynnast starfi Rauða krossins sem er mjög fjölbreytt og bara ógeðslega merkilegt og mikilvægt.
Ég var rétt í þessu að taka á móti leikföngum og fatnaði frá 9 ára strák og mömmu hans og varð öll meyr. Það er frekar næs að vinnan mann geti gert þannig fyrir mann.


Ég byrjaði að lesa pistla í Lestinni á Rás 1 sem mér finnst alveg ótrúlega gaman. Það er  samtlíka erfitt að vera fersk og segja eitthvað af viti í hverri viku. Ég vona samt að mér muni takast það sem lengst því þetta er alveg fáránlega skemmtilegt.
Hér er einmitt síðasti pistill sem ég las - en hann fjallar um annála sem þennan.


Desember
Söfnun fyrir Reglubókina mína hófst og lauk í desember. Ég er búin að safna fjármagni til að a.m.k. standa straum af kostnaði við gerð hennar sem er alveg hreint ótrúlegt. Nú þarf ég bara að reka smiðshöggið svo að hún verði að veruleika. Það er ekki mikið eftir og ég er afar spennt að ljúka þessu verki.







Bókin hans Krumma kom út sem er alveg hreint magnað.










2017

Ég vona að árið 2017 beri í skauti sér enn fleiri ævintýri, nýjar áskoranir, nýja áfangastaði og meiri gleði. Ég veit ekkert hvað ég vil verða þegar ég er orðin stór, en mér skilst að fæstir viti það svosem. Ég ætla að elda meira á nýju ári. Ég mun sjá eftir að hafa skrifað þetta strax á morgun - en nú er að duga eða drepast.


Mig langar að ferðast meira, það er svo ótrúlega margt sem mig langar að sjá.
5 draumaáfangastaðir:
  • Pólland
  • Botswana
  • Mexíkó
  • Rúmenía
  • Svartfjallaland


Ég er alsæl í mínum Mjölni og ætla að massa mig áfram. Það gerir líkama og sál svo afskaplega gott. Raunar er fátt betra en góð æfing með Rakel Sif þar sem enginn er að drífa sig og maður getur þóst teygja eins lengi og maður vill eftir æfingu.

Þessar gerðu árið skemmtilegt, sem fyrr:





Ég spilaði oft á árinu með Spilafélögum mínum. Það er alveg eitt það allra skemmtilegasta sem ég ger og ég hlakka til að gera meira af því, vonandi um ókomin ár.


Annars er ég bara á svo miklu betri og hamingjusamari stað en oft áður - það var gott að kjarna sig í ferðalagi og taka ákvarðanir um að gera meira fyrir sjálfa mig og mæta ekki bara í vinnuna. Sultukrukkudómurinn fer vonandi í gang á næsta ári og ég held áfram að sinna andanum.


Eftir árið mæli ég með bókinni Red Tent eftir Anitu Diamant (sem kom alls ekki út á árinu, en ég las hins vegar á árinu - hún er lengi í gang en mjög geggjuð) og norsku þáttunum Skam. Ég held að Hildur hafi verið uppáhalds tónlistarkonan mín á árinu, ég hlustaði a.m.k. mjög oft á I´ll walk with you þegar ég setti á mig maskara fyrir djammið - en ég djammaði einmitt töluvert meira en ég hef gert sl. ár og er það vel.

Takk fyrir allt - megi 2017 gleðja okkur öll.