3.2.17

Dagurinn í dag er einhver sá hamingjuríkasti sem ég hef upplifað undanfarið.

Það hefur svosem ekkert skort á hamingju mína, en janúar er alltaf dimmur, hræðileg örlög Birnu Brjánsdóttur tóku á mig líkt og alla aðra landsmenn og mig hefur vantað einhvern neista.

Undanfarna viku er eins og það hafi kviknað undir mér eldur.

Tvennt alveg hreint fáránlega ótrúlegt gerðist í gær.
1. Ég fór í leiser augnaðgerð og SÉ NÚNA FULLKOMLEGA!
2. Röskva vann stórsigur í kosningum til Stúdentaráðs.

Röskvuhjartað hættir aldrei að slá og það tók þúsund auka kippi í gær þegar úrslitin voru ljós. Þá var ekki annað í stöðunni en að vippa sér í buxur og hlaupa út og samfagna. Tilfinningin var svolítið ljúfsár, ég vildi að ég hefði upplifað þetta þegar ég var í framboði. Ég vildi að ég hefði fengið tækifæri til að verða formaður Stúdentaráðs.

Það er annars fullkomlega sturluð tilfinning að vakna og sjá. Bara - sjá! Mér líður enn eins og ég sé kannski óvart að gleyma linsum í augunum á mér. Oni. Ég bara sé. Ótrúlegt.

Ég var náttúrlega líka mest lesin á Vísi í vikunni útaf mjög fyndnu gríni þegar Villi Vill hringdi í mig - en það var svo bara skakkt númer. Ég fékk meira að segja samansplæsta mynd af okkur saman.



Svo fer alltaf að birta svo hratt á þessum tíma árs og maður gleymir því alltaf og ó mig auma hvað ég gleðst yfir því að það sé ljóstýra þegar ég geng út af skrifstofunni. Plönturnar minar eru m.a.s. allar að lifna við.

Ég mun a.m.k. tímabundið sinna störfum sem upplýsingafulltrú Rauða krossins og það er mjög spennandi og gaman.

Ég pantaði mér flug með vinkonum mínum til Brussel í maí þar sem við heimsækjum Ásdísi og Hallgrím og það er svo afskaplega mikilvægt að hafa einhverja dagsetningu á dagatalinu til að skoða til að sjá hvenær maður kemst aðeins burt af eyjunni í Atlantshafinu.

Krummi keypti spil sem við getum spilað bara tvö og núna gerum við ekki annað. Verst hvað ég verð tapsár þegar ég tapa.

Semsagt. Allt ljúft, allt gott og gaman að vera til og þannig á það að vera.