6.7.17

Ég gæti lesið öll heimsins ferðablogg. Ferðahugurinn fer á fullt og mér líður eins og ég sjálf sé á leið í reisu, eins og ég sjálf sé ferðalangur sem staldri aðeins stutt við. Eins og ég hafi líka valið mér
flökkulífstílinn og heimurinn bíði mín, bíði eftir að fá mig í heimsókn.

Síðan ég beið eftir að klukkutímarnir liðu áður en ég kæmist í sumarfrí hafa stórir hlutir gerst.
Okkur Krumma hefur liðið alveg ótrúlega vel á Bergþórugötu, þar höfum við átt stórkostlegar stundir rétt eins og margar afar venjulegar, liggjandi í sófanum að horfa á RÚV í þögninni. Fræi var sáð hjá okkur á vormánuðum um íbúð sem væri að fara á sölu og við gátum hugsað okkur að búa í, en síðan kom í ljós að hún kostaði um 80 milljónir. Þótt við hefðum aldrei ráð á henni þá var fræinu sáð og við kíktum af og til á fasteignaauglýsingar, bara svona eins og allir aðrir gera svosem. Síðan kom ein íbúð. Alveg æðisleg. Svo fallegir gluggar. Við skoðuðum og leist vel á. Tókum mömmu og pabba með og gerðum tilboð. Kviss, bamm, búmm. Allt í einu erum við búin að fá samþykkt kauptilboð í Blönduhlíð og Bergþórugatan er núna líka seld. Það eru svo blendnar tilfinningar sem fylgja þessu að ég held ég sé varla búin að lenda ennþá. Það verður sennilegast skrýtnast að yfirgefa miðbæinn eftir ekki lengri veru þar, en það verður svosem enn styttra fyrir mig í vinnuna ... og Mjölni. Ekki styttra í mannlífið og ... allt.

Við fórum í tveggja nátta útilegu í Skorradal í vikunni. Planið var að fara í heljarinnar ferð um Ísland í sumar en veðrið og veðurspáin hafa ekki verið upp á marga fiska svo við ákváðum að fara í stutta útilegu, heyra í hrossagauknum, upplifa kuldann og finna birkilyktina áður en við fljúgum til Gdansk í Póllandi á morgun. Þar sjáum við vonandi sólina, fallegar byggingar og drekkum ódýran bjór.

Ákvarðanir eins og að kaupa sér fasteign geta bundið mann, gert mann fullorðnari, gert allt svo miklu stærra og meira. En þær geta líka bara verið eitt skref í lífinu, eitt skref í átt að því sem enginn veit hvað er, eitt skref í átt að því að vera til. Mér líður kannski svolítið eins og þetta sé eitthvað of.
Of eitthvað.
En þessi ákvörðun er bara nákvæmlega það sem ég læt hana vera. Ég get enn og mun enn vakna glöð, stundum stúrin, hlakka til að mæta í vinnuna, nenna ekki að vera í vinnunni, hugsa um útlönd og ferðalög, íhuga hvort og hvenær þá ég eigi að eignast börn, hvað ég sé skotin og hamingjusöm með Krumma, velta fyrir mér hvernig geti verið að vinkonur mínar séu svona fáránlega skemmtilegar, hlakka til að spila, hlakka til að opna bjór á föstudegi, jafnvel fimmtudegi. Vilja vera í besta mögulega forminu og mössuð og mjó en vilja líka drekka og djamma og borða pizzu og fá mitt bland í poka. Vilja vera beitt, grínleg, góð.

Allt er eins. Ég er eins.
Nema núna er ég í skráðri sambúð, eins og sifjamal@skra.is staðfestu í síðustu viku.