14.8.19

Síðasti dagur í fæðingarorlofi er runninn upp.

Ég hélt auðvitað, eins og allir, að heimilið yrði spikk og span alla daga, ég myndi vera svakalega skapandi, blogga endalaust og klára jafnvel skáldsögu meðan ég sinnti barni. En eins og allir aðrir þá var það ekki þannig. Ég spurði frænku mína einu sinni hvort henni leiddist ekki í fæðingarorlofinu. Hún sagði nei og minnti mig síðan á þetta þegar ég var búin að eignast Yrsu. Mér hefur svo sannarlega ekki leiðst en hef komið fáu öðru í verk en annast stúlkuna mína og drekka rosalega mikið kaffi. Ég vorkenni þeim sem ákveða að skrifa meistararitgerðir eða annað meðfram fæðingarorlofi alveg svakalega. Það er svo nauðsynlegt að geta sest upp í sófa og lokað augunum, skrollað samfélagsmiðla í þennan stutta tíma meðan börnin sofa. Ég held að við Yrsa séum báðar bara nokkuð tilbúnar að taka næsta skref í lífinu, hún að fara til dagmömmu og ég í vinnu. Samt eru tilfinningarnar í dag nokkuð blendnar og næstu dagar eflaust nokkuð skrýtnir þegar heilinn fer af stað og hugsar um eitthvað allt annað en hversu lengi Yrsa hefur sofið og hvað hún hefur borðað mikið. Alltaf samt hversu ótrúlega skemmtileg og falleg hún er.

Hún er best. Veit svo vel hvað hún vill, skríkir af gleði þegar hún snýr fram í kerrunni og vindurinn blæs framan í hana. Alveg sama hvort hún viti hvar mamma og pabbi eru meðan hún horfir á heiminn þjóta hjá.