1.1.20

Árið 2019 var svo sannarlega öðruvísi en öll fyrri ár. Fyrsta árið okkar með Yrsu og við urðum allt í einu i öðru sæti, sem er alls ekki verra en að vera í því fyrsta – en það er öðruvísi og það er kúvending á lífinu.

Árið hófst í ruglinu. Ég svaf þegar ég gat, aldrei meira en tvo til þrjá tíma í senn. Algjört rugl og mjög erfitt. Lífið gjörbreytt á svo góðan en líka erfiðan hátt.

Ég varð þrítug 12. janúar. Ég hef alltaf haldið upp á afmælið mitt með pompi og prakt en í ár borðaði ég hádegismat með góðum vinum í Perlunni og fékk bland í poka. Þrjátíuogeinsárs afmælinu verður hins vegar fagnað rækilega og ég get ekki beðið!

Þann 16. febrúar fékk Yrsa nafn. Nafnið kom til mín ekki svo löngu eftir að hún fæddist. Ég get ekki útskýrt það öðruvísi en að það kom til mín. Mér fannst hún vera Yrsa og eiga að heita Yrsa. Krummi þurfti smá tíma til að hugsa um það – skiljanlega. Nafnið finnst mér fara henni afskaplega vel og hún er algjör Yrsa.

Yrsa, Björg og Hugi á góðri stundu - áður en þau kunnu að sijta ...
Það sem einkenndi árið hvað mest er að sjálfsögðu fæðingarorlofið. Það var gott en líka erfitt. Það er alveg ljóst að orlofið hefði ekki verið neitt ef ekki hefði verið fyrir samveru með Evu Sigrúnu, Huga, Tótu og Björgu. Það er gulls ígildi að eiga góðar vinkonur sem eru að ganga í gegnum það sama, geta deilt því sem er í gangi, fengið ráð og bugast yfir svefnleysi saman. Við vorum ótrúlega heppnar að veðrið í sumar var það besta sem ég man eftir. Ég fór út á stuttbuxum og hlýrabol endalaust. Ég gekk út um allt með kerruna. Ég varði meiri tíma á Kaffi Vest en ég hef varið tíma á nokkru kaffihúsi og það var æðislegt. Ég hef aldrei verið jafn mjó eins og í sumar og ég borðaði hollt og það var bara alveg geggjað. Ég gat byrjað að æfa aftur og það er ekkert sem jafnast á við það. Ég finn svo vel hvað það gefur mér mikið að hreyfa mig, enn betur núna en nokkru sinni áður. Ég bara hreint út sagt elska það. Ég er í betra formi núna en örugglega nokkru sinni áður, þótt ég æfi almennt minna. Ég nýti hverja æfingu eins vel og ég get og þar slaka ég á og hreinsa hugann.

Emma & Geri
Í júní fórum við litla fjölskyldan ásamt Bryndísi frænku til London þar sem við frænkurnar létum æskudraum rætast og sáum Spice Girls á Wembley. Krummi gaf mér miðana í þrítugsgjöf. Hvernig getur hann alltaf gefið bestu gjafir í heimi?!

Það var alveg mjög magnað og ég hefði ekki viljað missa af þeim. Geri var átrúnaðargoðið mitt í mörg ár, ég var miður mín þegar hún hætti í hljómsveitinni svo þetta var alveg frekar magnað allt. Eftir London fórum við til Ítalíu þar sem við dvöldum í villu í Flórens með allri fjölskyldunni minni í viku. Umhverfið var svo sannarlega draumi líkast og það var frábært að njóta við sundlaugina, drekka vín og sóla sig. Eftir villuna fórum við með Atla og Ásrúnu og sonum og mömmu og pabba í annað hús í smábæ rétt við Lerici áður en við Krummi og Yrsa fórum á lokaáfangastað á hótel sem hefði getað verið í Wes Anderson mynd. Ítalía var frábær – en aftur öðruvísi en áður þegar ein lítil stúlka stjórnar ferðinni. Ég er með drauma um að fara í frí með góðum vinum sem eiga líka lítil börn svo allir séu á sama tempói. Sjáum hvað 2020 ber í skauti sér í þeim efnum!

MH gaf mér þessar.
Fastir liðir eins og Vínkonugrín voru að sjálfsögðu við lýði. Það heppnaðist afskaplega vel þetta árið og konur voru í miklu stuði.

Ferðbúin á leið vestur!

Um verlsunarmannahelgina giftu Kristel og Daði sig og það var yndislegt. Helgina eftir gifti Eva Björg æskuvinkona mín og Magnús sig á Ingjaldssandi á Vestfjörðum. Við fjölskyldan ætluðum öll í ferðalag, en þegar veðurspáin var nokkuð slæm ákvað ég að fara bara ein. Allt gekk svo vel upp, Brynja Huld bauð í kaffi, kringlur og spjall og skutlaði mér til Suðureyrar þar sem Tinna, Hörður, Álfhildur og Pétur tóku á móti mér. Það var alveg ótrúlega gaman að verja tíma með þeim og endurnýja kynnin. Brúðkaupið var skemmtilegt í sveitinni og allir í svakalegu stuði.

Um miðjan ágúst fór ég aftur til vinnu. Ég eins og örugglega allar konur sem hverfa frá í marga mánuði var nokkuð stressuð um hvernig það myndi verða, hvort ég yrði áfram glöð, hvort allt hefði breyst o.s.frv. Í stuttu máli er ég afskaplega glöð í vinnunni, mér finnst hún skemmtileg og krefjandi og hún skiptir máli. Á sama tíma hóf Yrsa nýjan kafla í sínu lífi þegar hún byrjaði hjá dagmömmum. Fyrsta daginn í aðlögun settist hún á gólfið, leit einu sinni aftur fyrir sig á pabba sinn en hefur ekki litið um öxl síðan. Henni finnst gaman, eins og eiginlega allt annað sem hún gerir, og er sæl í sínum verkefnum þar.

Í september varð Víkingur bikarmeistari í fótbolta karla og það var eiginlega alveg geggjað! Að hafa æft með félagi sem hefur ekki unnið í neinu nema borðtennis síðan 98 ... það var gaman.

Í lok september fór ég síðan til München. Tilgangur ferðarinnar í upphafi var að fara í brúðkaup hjá bestu vinkonu minni í Þýskalandi, en svo fór að hún gifti sig ekki. Ég varði því helgi í München með henni, m.a. á Októberfest og það var hreint út sagt frábært.

Glöðust. Alltaf.
Þann 29. nóvember varð Yrsa svo eins árs. Það var mun tilfinningaríkari dagur en ég hefði búist við. Ég var mjög meyr og þakklát fyrir þessa allra bestu stelpu og við fögnuðum því vel með fjölskyldu og vinum.

Okkar besti staður er Hlemmur. Þangað röltum við fjölskyldan mjög gjarnan og fáum okkur kaffibolla eða bjór. Það eru þessir hversdagslegu hlutir sem eru auðvitað það besta. Ég rölti oft í heimsókn til mömmu og pabba inn í Bjarmaland, nú með Yrsu með mér og það er alltaf indælt.

Það sem er best er að eins mikið og árið hófst í ruglinu þá endaði það í föstum skorðum og þannig líður mér best. Þegar ég fæ nægan nætursvefn og þótt Yrsa sé og verði alltaf í fyrsta sæti þá er meira rými fyrir mann sjálfan eftir því sem hún eldist. Hún er búin að vera í svo góðu skapi öll jólin að ég spring úr ást. Ég vaknaði í morgun við hana að skríkja af gleði og segja hæ. Það er nákvæmega ekkert í heiminum sem jafnast á við það.


Besta við árið voru Yrsa og Krummi. Það er magnað að verða enn ástfangnari af Krumma og líða eins og við séum bara að verða betra og betra teymi. Það er ekkert eins og að fylgjast með þeim, hlusta á þau saman þegar ég fæ að lúra lengur inni í rúmi og hversu glöð Yrsa er þegar hann kemur heim úr vinnunni. Toppurinn á tilverunni.


Lag áratugarsins er þetta. Ekki spurning. (þótt það hafi komið út 2008. Samt lag áratugarins.)