23.6.20

Það er almennt mjög mikið að gera hjá mér í vinnunni, örugglega eins og hjá flestum. Ég hef mjög gaman af því að starfa sem upplýsingafulltrúi Rauða krossins þótt mér líði alltaf eins og ég geti gert betur og meira. Verkefnin og málefnin sem við sinnum eru nánast óteljandi og helst myndi ég vilja að allir vissu allt um hvað starfið er magnað, að við værum í öllum fjölmiðlum alla daga, skrifandi greinar um menn og málefni og sinnt þannig málsvarastarfi okkar. En starfskraftar manns eru víst ekki óþrjótandi og tíminn af skornum skammti þannig að ég geri bara mitt besta í samskiptum og upplýsingamiðlun innan félagsins og utan.

Þessi vetur hefur verið óvenjulegur fyrir okkur öll. En hjá viðbragðsfélagi eins og Rauða krossinum hefur veturinn verið enn meira krefjandi. Meira krefjandi en ég hef áður kynnst í í starfinu mínu. Í desember flaug ég norður til Akureyrar til að aðstoða samstarfskonur mínar þar þegar óveður geisaði. Óveður sem ég man ekki eftir í minni tíð, rafmagnsleysi á fjölmörgum stöðum, hross drápust og strákur týndi lífi sínu. Í janúar féllu snjóflóð á Vestfjörðum og í starfi mínu felst að veita upplýsingagjöf fyrir almannavarnir þegar samhæfingarstöðin er virkjuð. Það er ótrúlega gaman og krefjandi og lærdómsríkt að fá að taka þátt í fyrstu viðbrögðum, þótt vissulega sé samhæfingarstöðin aldrei virkjuð af ánægjulegri ástæðu. Það er orka og vinna sem fer fram þar sem er merkilegt að vera hluti af.

Svo lét Þorbjörn á sér kræla, eftir alvarlegt rútuslys og fleira í janúar, en enn sem komið er var og er Grindavík ekki það sem við þurftum að hafa áhyggjur af, heldur kórónuveiran. Þegar ég sat fund á sunnudegi um viðbrögð við landrisi á Suðurnesjum var kórónuveiran einhvernveginn svo fjarlæg. Ég hugsaði með mér að það gæti ekki verið að þetta yrði stórt, alveg eins og ég trúði því ekki að það gæti gosið. En. Allt getur gerst.

Við tóku margar vikur þar sem allt var á milljón. Mér fannst mjög erfitt að hafa tvo hatta á mér, sinna upplýsingagjöf fyrir almannavarnir sem og Rauða krossinn. Reyna að sinna báðu. Samstarfskona mín tók á sig meiri vinnu svo ég gæti einbeitt mér betur að almannavörnum en maður getur ekki sleppt tökunum á sinni venjulegu vinnu svo auðveldlega.

Ég fann í raun frekar snemma að ég átti erfitt með þetta. Verkefnin virtust oft óyfirstíganleg, þótt þau væru það alls ekki. Mann langar bara að gera vel. Sinna öllu og gera það vel. Skila af sér góðu dagsverki þar sem maður gat komið öllu til skila sem maður vildi. Og mér fannst mér ekki takast það. Og það situr í mér. Ég er vön að svara tölvupósti um hæl, ganga í verkin og klára þau. Ég gengst svolítið upp í því jafnvel. Það er mitt. Ég er fljót til verka. Og ég missti öll tök í febrúar, mars og apríl og maí. Á sama tíma fannst mér ég ekki gera neitt svo mikið eða merkilegt hjá almannavörnum. Ekki verða nægjanlega mikið úr verki.

Andlegt álag af kórónuveirunni er held ég meira en við gerum okkur mörg grein fyrir. Það er alveg grillað að skipta um takt í vinnunni fullkomlega. Vera allt í einu heima og þótt það sé gott að mörgu leyti eru það gríðarleg viðbrigði. Fyrir utan hvað það er mikilvægt að líða vel heima hjá sér og hafa góða aðstöðu. Það verður mjög forvitinilegt hvernig rannsóknir í kjölfar faraldursins á andlegri líðan verður. Eða eins og ég, vinna á allt öðrum stað og vera einmitt ekki heima þegar allir aðrir eru heima.

Og ég hugsa oft til t.d. þríeykisins sem var undir töluvert meira álagi en ég og mér finnst ég frekar mikill aumingi að vera í veikindaleyfi og löngu sumarfríi til að ná áttum, safna kröftum.

En mér líður bara ekki vel. Ég er þreytt og ég er hætt að koma mér að verki í vinnunni og þá er það sem maður þarf að kúpla sig út, þannig að maður brenni ekki út. Allt í einu finn ég fyrir hlutum sem ég skil ekki alveg. Mér finnst allt í minni venjulegu vinnu líka óyfirstíganlegt. Ég get ekki svarað tölvupósti og afgreitt einföld mál. Ég veit einhvernveginn ekki neitt annað en að ég er úrvinda í öllu sem tengist vinnunni minni en að öðru leyti svo glöð og hamingjusöm.

Ég glími við mína eigin fordóma fyrir streitu og álagi og jafnvel kulnun, ég finn það mjög vel núna. Mér líður eins og aumingja – um leið og mér finnst mjög beisikk að ég passi upp á mig og slaki á. Ég á held ég fyrst og fremst erfitt með samanburðinn. Samanburðinn við alla hina og störf sem eru miklu meira krefjandi.

Nú þarf ég aðeins að hugsa hvernig ég ætla að tækla þetta í framtíðinni, þegar ég mæti aftur eftir sumarfrí. Hvernig ég passa upp á mig og höndla álag – af því ég hef getað það mjög vel hingað til og ætla mér að geta það í framtíðinni.