20.8.20

Ég man vel eftir sundlauginni við hótelið í Sesimbra. Hún var hringlaga og það var risastór stjarna úr mósaíkflísum á botninum á henni. Það rigndi hins vegar allan tímann meðan við dvöldum á hótelinu svo ég fór aldrei í hana. Ég man líka vel eftir öllum sverðfiskunum sem voru við höfnina. Ég smakkaði þá ekki heldur. Ég man að það var frekar kalt á kvöldin, mamma hafði bara tekið eina peysu fyrir mig og hún var hvít í þokkabót. Ég vissi ekki hver Tom Cruise var, en fjölskyldan var alltaf að tala um að einn gesturinn á hótelinu liti út eins og hann. Svo hætti Geri í Spice Girls og ég var niðurbrotin. Það var risavaxið fyrir mig, við kveiktum á útlendum fréttum og ég fylgdist með grátandi aðdáendum trúa ekki sínum eigin eyrum. Ekki ég heldur.

Ég hitti vinkonu mína þarna úti. Hún var á öðru hóteli, þar sem Bangsaklúbbur Úrval útsýnar var starfræktur. Á meðan voru foreldrar mínir og bróðir að gera eitthvað annað. Ég man að þau höfðu gengið mjög mikið þennan dag. Ég var afbrýðissöm þegar þau náðu í mig. Mig hefði í raun miklu frekar langað að vera með þeim. Ég vildi eiginlega bara alltaf vera með foreldrum mínum. Það var skemmtilegast og annars missti ég af. Svona eins og þegar allir í fjölskyldunni horfðu á Fargo nema ég af því ég var of lítil og svo töluðu þau um hana í mörg ár á eftir. Ég hef ekki enn séð hana.


Ég veit ekki af hverju þessar hugsanir ásækja mig þessa dagana. Kannski af því ég er orðin fjölskylda og væri alveg til í að dvelja á hóteli á Albufeira á Portúgal, en væri líka til í að keyra um og fara á heimssýninguna í Lissabon. Þar sem við keyptum langa fuglinn úr tréinu sem upplitaðist svo í sólinni heima í Bjarmalandi.


Kannski af því ég er að flytja? Kannski af því foreldrar mínir áttu fjörutíu ára brúðkaupsafmæli um síðustu helgi og þau fóru með mig í svo mörg góð ferðalög? Sýndu mér heiminn og allt var og er aldrei einhvernveginn ekkert mál. Þau eru besta fólkið.


Ég get a.m.k. ekki hætt að hugsa um Portúgal. Þetta var fyrsta og eina sólarlandaferðin sem fjölskyldan fór í. Foreldrar mínir áttuðu sig á því að það var ekki alveg fyrir þau. Þau langaði frekar að skoða söfn og borgir en að liggja bara í sólbaði í menningarsnauðum bæjum. Ég vona að ég komist að því líka. Það sem situr eftir hjá mér er a.m.k. ekki vera okkar á hótelinu í Allbufeira.