8.9.20

 Ég er byrjuð aftur að vinna og það er mjög gaman og gott. Ég náði að hvílast vel í sumar og hlaða mín mjög svo tómu batterí. Ég held að einhver sniðugasta ákvörðun sem ég hef tekið hafi verið að fara fyrr en síðar í leyfi, byrja fyrr en síðar að hlaða batteríin að nýju.

Og nú er haustið komið, með allri sinni rigningu og fallegu litum, upphafi leikskólagöngu hjá Yrsu minni í gulum stígvélum og rauðum pollagalla. Ég hlusta á Funeral með Arcade Fire eins og ég gerði líka haustið 2005 þegar ég byrjaði í MH og fór stundum inn í Norðurkjallara en var samt mest bara á Matgarði með JT. Það gerðist í gær, en það gerðist líka í fyrra lífi. Ég man tilfinningarnar samt allar. Það eru tíu ár síðan ég byrjaði í lagadeildinni. Tíu ár? Man það einhvernveginn minna, en man samt allt. Græt það svo oft að ég muni aldrei aftur hefja háskólanám sem stúdent á þrítugsaldri. Það var svo alltof gaman. Svo gaman að vera til núna líka samt. Svo gott að vera bara fullorðin og elda mat og þvo þvott og fá samviskubit þegar maður sér hvað öll hin börnin á leikskólanum eru vel útbúin en Yrsa á ekki vettlinga né kuldagalla. Ekki ennþá, en mamma fer í búðina á eftir af því drottinn minn dýri hvað mér leið illa.

Arcade Fire er MH en Röskva er Arcade Fire. Tvö tímabil. Gæti eitt 2009 partí með Röskvuliðum sem endaði í hring að öskra við FM Belfast daginn áður en við færum svo að bera út Röskvublöð í öll hús á höfuðborgarsvæðinu.

Allt er hægt þegar maður er tuttugu, en allt er líka hægt þegar maður er þrjátíuogeins. Maður þarf bara stundum að fá pössun og er kannski sofnaður fyrir miðnætti og einhver er alltaf ólétt en það er líka það dýrmætasta.