30.12.20

Glamúrgelluannáll 2020

 

Ég setti Yrsu í pössun beisikklí svo ég gæti skrifað áramótaannál Glamúrgellunar 2020 en ég get ekki byrjað. Fæ mig ekki til að líta um öxl. Við erum öll með tilfinninguna að þetta sé lengsta ár sem við höfum nokkurn tímann lifað. Þetta ár er mjög litað af vinnunni minni. Strax í janúar vildi maður fá að fá smá pásu frá öllu sem á undan hafði gengið. Óveðri í desember, snjóflóð í byrjun árs sem rifu upp erfiðar tilfinningar margra, alvarleg rútuslys, skógarelda í Ástralíu sem skóku heiminn allan...

Ég var kölluð í samhæfingarstöð almannavarna einn sunnudaginn í janúar vegna hættu á eldgosi í Grindavík. Þar var samt minnst eitthvað á kórónuveiruna, starfsfólk utanríkisráðuneytisins fannst mér kannski mest vera að pæla í henni og ég pældi svosem lítið í þvi. Jújú, það voru einhverjir vikulegir stöðufundir sem ég vissi að væru í gangi en ekki mikið meira en það. Þangað til að allt í einu var ég alla daga í gluggalausu rými samhæfingarstöðvarinnar, þar sem hitastigið er allajafna nokkrum gráðum lægra en í eðlilegum herbergjum þar sem fólk er oftast undir nokkru álagi og stressi þegar þangað inn er komið og betra að hafa herbergið ekki of heitt. Allt í einu bjuggum við til covid.is. Hófum upplýsingafundi. Skrifuðum stöðuskýrslur. Svöruðum þúsundum fyrirspurna til almannavarna. Og enn eru þau að, en ég sneri mér aftur að Rauða krossinum sem ég hafði haft í bakhöndinni allan þennan tíma.

En ég er víst komin fram úr mér í tíma. Fram úr mér í vinnulífinu.

Í janúar varð ég nefnilega 31 árs og hélt upp á það eins og þrítug væri. Það var ótrúlega gaman. Partí og stuð og stemming. Hreimur kom og söng. Ógeðslega gaman. Skemmtilegu vinir mínir. Fallegu gjafirnar sem ég fékk.

Við Krummi gistum eina nótt í Stykkishólmi í janúar sem var yndislegt. Mikið er ég glöð að við fórum þá.

Á árinu fékk ég að vera með í bókaklúbbnum Bækur sem er ótrúlega skemmtilegt. Það hefur alltaf gefið mér mikið að lesa og ég fann að í þessu ástandi öllu gaf mér það enn meira. Ég lagði áherslu á að lesa eitthvað á hverjum degi, bara nokkrar blaðsíður fyrir svefninn og loka deginum. Ég er svolítið á móti því að mæla fjölda bóka sem maður les, rétt eins og telja skref, æfingar, hitaeiningar, hvað sem er. Við erum með það á heilanum að skrásetja og telja allt í heiminum og ég læt það fara eitthvað í taugarnar á mér. En svo er samt gaman að sjá hvaða bækur ég las, rifja þær upp og ég fann alveg fyrir smá hvatningu að vilja að lesa meira þegar ég var með eitthvað markmið. Ég held að þetta kallist hræsni 😊

En bókaklúbburinn er góður. Góðar konur sem hittast og ræða bók. Ég vona að ég fái að hitta þær meira í alvörunni á næsta ári og að ég nái að vera dugleg að lesa, sérstaklega eftir að viðbót bætist við fjölskylduna með tilheyrandi svefnrugli.

Ég var í innslagi hjá Berglindi í Vikunni í febrúarbyrjun og í tískuþætti í Fréttablaðinu um miðjan febrúar. Það er svo langt síðan að þetta gerðist ég mundi það ekki einu sinni. Ég er nb. mjög stolt af því að hafa verið valin til að tala um fatastílinn minn. Árangur ársins!

Ég get eiginlega talið skemmtanir ársins bara allar upp. Það var afmælið mitt, þrítugsafmæli Evu Sigrúnar og ættarmót Þingborgarættarinnar í lok febrúar. Sex dögum síðar greindist fyrsta kórónuveiran. Þakklát og glöð fyrir LARPið góða með Röskvuvinum mínum. Alltof gaman, alltof fyndið. Svo náðum við reyndar líka að halda frábært Vínkonugrín í júlí! Það virðist eitthvað alveg fjarlægt að það hafi mátt og verið í lagi akkúrat núna, en mikið þykir mér alltaf vænt um þessa skemmtun með MH vinkonum mínum.

Nokkrar sumarbústaðaferðir með spilavinum sem fara ört stækkandi. Allt í einu verður það sem var sex manna hópur orðið 10 manns (eða ... fjórar litlar manneskjur) næsta sumar. Ísafjarðarferð þar sem svona eftir á að hyggja var Yrsa mín alveg örugglega lasin.

Við settum Blönduhlíðina á sölu í byrjun júní og fluttum í lok sumars að Rauðalæk. Hér líður okkur vel í yndislegu hverfi. Algjört hér eigum við heima dæmi. Dýrka það.

Ég fór í afskaplega nauðsynlegt leyfi í júlí og ágúst. Kúplaði mig alveg frá vinnu. Tankurinn var mjög tómur eftir vinnu frá því um haustið í raun. Ýmislegt spilaði inn í og það var aftur gott að fara í langt jólafrí núna, þótt það hafi reyndar styst örlítið vegna enn meira almannavarnarástands – nú á Seyðisfirði. Ég vona að næstu mánuðir verði rólegri í vinnunni, aðallega því það þýðir að það eru ekki hamfarir að dynja á neinum.

Það hittist þannig á að við Krummi fórum út að borða tvisvar sinnum áður en strangari reglur um fjöldatakmarkanir tóku gildi. Fyrst í mars á afmælinu hans á La Primavera og síðar í októberbyrjun á Austur Indíafjelagið áður en frekari takmarkanir tóku gildi. Við ættum kannski að sleppa því að fara út að borða á næstunni...

Þetta ár fórum við Yrsa svo mikið í heimsókn í Bjarmaland til mömmu og pabba. Bara að tjilla. Best.

Í septemberbyrjun byrjaði Yrsa á leikskóla. Þar eru hún sæl og sátt, lærir svo margt og er allra best. Lífið allt er auðvitað hún.

Ætli stærstu persónulegu fréttirnar séu þó ekki þær að eiga von á öðru barni á bjartara, betra, skemmtilegra 2021. Meðgangan er hálfnuð og ég finn svolítið meira fyrir henni en þeirri síðustu en samt ekkert til að tala um. Ég hlakka svo til að kynnast þessum einstakling og sjá Yrsu mína verða að stóru systur. Elsku hjartans stúlkuna.

Ég útnefni hér mann og konu ársins 2020 og þaaaaau eruuuuuuuu

Maður ársins: Hrafn Jónsson

Kona ársins: Yrsa Hrafnsdóttir

BÚMM!--

Við lok árs er ég þakklát fyrir allt góða fólkið sem ég kynntist í störfum mínum hjá almannavörnum og reynsluna. Þakklát fyrir fjölskylduna mína og vini sem ég ætla að hitta svo miklu meira á nýju ári og þakklát fyrir heilsuna. Mér fannst 2020 frekar erfitt ár og kæfandi tilfinning að kljást við þetta ástand oft á tíðum.

Á nýju ári vona ég að Myllan sjái sér fært um að skera beyglurnar sínar almennilega, okkur öllum til heilla.

Gleðilegt nýtt ár kæru lesendur Glamúrgellunnar. Megi 2021 verða okkur öllum gott með bóluefni og bjartari tímum.