7.10.21

 Tveir fastir punktar í tilverunni eru horfnir.

Daginn eftir jarðaför Gígju frænku minnar dó besti vinur pabba síðan í menntaskóla, Jón Bern. Ég er einhvernveginn enn að ná utan um þetta. 


Það verða svo skrýtin jól. Engin Gígja sem kemur í Bjarmaland. Engin Gigja um páskana. Engin símtöl frá Gígju á miðvikudögum ef maður var ekki nógu fljót að skrifa athugasemd við listasýningarnar á Facebook. Símtöl sem gátu komið þegar maður var með fullar hendur, á fundi í vinnu, með börn á handleggnum. Símtöl sem maður saknar. Engar nýjar myndir. Nú hengi ég myndirnar upp sem hafa beðið. Andrés Önd hefur átt sinn stað á öllum mínum heimilum. Ég sá ekki fegurðina í henni fyrr en Krummi benti á hana og vildi fá hana heim. Stundum er maður svo blindur á það sem stendur manni næst. 


Engar kvöldstundir þar sem Jón og pabbi sitja saman að gæða sér á þýskum pulsum, með bjór í glasi - jafnvel einhverju alveg sérstöku glasi, með einhvern alveg sérstakan bjór og alveg sérstakar pulsur. Þeir að spjalla saman um heima og geima. Jón alltaf talsvert glettnari en pabbi. Ég heyri röddina, hláturinn. Og mér finnst það sárt. Það var langt síðan ég hitti Jón síðast og ég hef saknað þess. Ég hefði verið til í Münchenarferð með honum og pabba þar sem þeir segðu endalausar sögur af mönnum og málefnum. Færu á alveg ákveðna staði. 


Ég man hvenær ég hitti þau bæði síðast og ég er svo ánægð með báðar stundir. Það er gott. 


Ég er eitthvað mjög leið yfir fráfalli þeirra beggja í dag. Kannski er það vindurinn og haustið. 


Bergþórugata

Blönduhlíð

Rauðalækur