Áramótaannáll virðist vera orðinn eini fasti punktur í tilveru Glamúrgellunnar. Eftir því sem ég eldist kemur andinn sjaldnar yfir mig, sem er svo sannarlega sorglegt.
Þetta ár, eins og síðustu ár, hefur litast alltof mikið af
Covid19 og vonum og vonbrigðum yfir því að við munum nú loksins sigrast á
þessu. Maður var ekki fyrr búinn að losa sig við grímur úr vösum en maður
þurfti að fylla á þá alla aftur.
Það besta og fallegasta við árið var að sjálfsögðu þegar
Baldur minn besti fæddist. Hann er skríkjandi glaður oftast, en tuðar þó
stundum þegar hann nennir ekki að þykjast borða lengur. Ég fann hvernig það er
þegar hjartað stækkar um helming. Hvernig það er þegar allt í einu er pláss
fyrir alla ástina til viðbótar við fyrra barn, eitthvað sem ég skildi ekki
hvernig væri hægt áður.
Fyrsta árið í lífi barna er samt svo mikil áskorun. Ár sem
snýst ekki um neitt nema svefn – svefnleysi foreldra og svefn barna ... Hvenær sofnaði
hann? Hvenær vaknaði hann? Hvenær þarf hann að leggja sig aftur? Hvernig svaf
hann í nótt? Náðir þú að leggja þig? Má ég aðeins leggjast niður núna?
Árið 2021 var ár hversdagsleikans. Heima með börnunum.
Göngutúrar. Horfa á sjónvarpið. Hanga í símanum. Elda fisk á mánudögum. Pizzu á
föstudögum. Taka endalaust til en aldrei árangur. Þvo rosalega mikinn þvott. En
árið var líka það að átta sig á því að þetta er það sem lífið er og þarna þarf
maður að finna hamingjuna. Gleðjast yfir því að sitja öll saman og borða. Yfir
því að fara á róló. Yfir því að fara í sund eftir leikskóla. Yfir því að fara í
heimsókn til afa og ömmu. Ég vissi það samt alveg fyrir, en komst samt bara enn
betur að því í ár því þetta ár var svo hversdagslegt.
Besta ákvörðun sumarsins var þegar ég gafst upp á
veðuröfundinni og fann gistingu fyrir okkur á Egilsstöðum í bongó blíðu. Besta
ákvörðun haustsins var að fara til Brussel með Guðrúnu og Kríu að heimsækja
Ásdísi og Hallgrím og dætur. Þvílík gleði og gæfa að eiga góða vini. Þær
stundir á árinu sem varið var með vinum voru svo ofboðslega góðar. Spilavinir
eru okkur fjölskyldunni svo kærir og sumarbústaðaferðir og hittingar með þeim
skilja mikið eftir sig, hjá fullorðnum sem og börnum. Engar finnst mér
skemmtilegri en MH konurnar mínra og ég hef notið þess heiðurs að vera plús
einn hjá mannfræðiskvís sem mér þykir svo gaman og vænt um.
Yrsa mín besta var svo skemmtileg alltaf. Svo frjótt ímyndunarafl og mikil gleði og gaman að fylgjast með henni uppgötva heiminn.
Víkingur varð Íslands- og bikarmeistari í fótbolta karla og
mitt svarta og rauða hjarta sló að sjálfsögðu örar yfir þessum árangri sem ég
satt að segja átti aldrei von á að lifa, svona miðað við gengið frá 92 eða hvenær
það var í flestum íþróttum. Mér þótti afskaplega gaman og vænt um að fara með
æskuvinkonu minni Tinnu á leikinn, rétt eins og að hitta Réttó vinkonurnar í
okkar árlegu Eldofnspizzu fyrir jól. Vinir maður. Þeir eru svo mikilvægir.
Ég starfaði við kosningar sem mér þótti jafn gaman og
vanalega. Það er eitthvað það skemmtilegasta sem ég geri.
Gígja frænka dó óvænt í september og mér finnst ég ekki enn
alveg hafa náð utan um það að hún sé ekki hér lengur. Hjólinu okkar var stolið sem var og er ennþá alveg ööömurlegt. Ég held lúmskt enn í vonina að það finnist.
Ég enda árið í Covid einangrun, gleðst yfir að vera ekki mjög
veik, gleðst yfir því að einangrunin hafi verið stytt í 7 daga og vona núna
bara að þeir verði fimm á næstu dögum...
Annars ættu orð eiginlega að vera óþörf fyrir þetta ár, því
ég tók upp eina sekúndu á hverjum degi og leyfi því myndbandi að birtast hér
mér.
Og .. ætli ég hafi ekki verið sirka eini Íslendingurinn sem
ekki gekk að eldgosinu.
Ég hlakka til ársins 2022 sem ég held að verði mjög gott. Ég
lít a.m.k. björtum augum til framtíðar með fjölskyldunni minni, Ítalíuferðar,
33-ára ferðar vinkvennanna og ótal góðra stunda með fólkinu okkar. Vinum og fjölskyldu.
Megi stundirnar verða margar. Fleiri. Minna Covid, meira gaman.
Þakklátust er ég fyrir Krumma minn besta sem stendur með mér í þessu öllu. Í gleði og sorg. Blíðu og stríðu.
|